NÝLEGA var gerð skoðanakönnun til að kanna hug manna til Evrópuaðildar, að ESB. Því miður var þessi skoðanakönnun ekki marktæk. Til dæmis voru ekki tekin dæmi um kosti og galla aðildar og ég eins og aðrir vitum ekki um kosti evrunnar.
NÝLEGA var gerð skoðanakönnun til að kanna hug manna til Evrópuaðildar, að ESB. Því miður var þessi skoðanakönnun ekki marktæk. Til dæmis voru ekki tekin dæmi um kosti og galla aðildar og ég eins og aðrir vitum ekki um kosti evrunnar. Ef rétt væri, ætti að spyrja: Ert þú hlynnt eða hlynntur því að við göngum í Efnahagsbandalagið og að Efnahagsbandalagslöndin fái full veiðiréttindi í íslenskri fiskveiðilögsögu? Eða að við sækjum um aðild og fáum hugsanlega styrki úr sjóðum bandalagsins? Eða að hinn frjálsi vinnumarkaður nái til Íslands?

Talið er að innan bandalagsins séu 10 milljónir manna án vinnu. Efnahagsbandalagið sendi togara á fiskimið við Kanada og þurrkuðu þau upp á stuttum tíma, þar fæst ekki bein úr sjó lengur. Ef við göngum í bandalagið er okkur skylt að opna landhelgina. Rómarsáttmálinn segir, samkvæmt viðtali við þýskan ráðamann, að Íslendingar hafi ekkert að óttast. Þetta er rakalaus þvættingur. Íslenskir ráðherrar í fyrri stjórn og núverandi stjórn hafa ítrekað kannað þessi mál og svörin eru þau að Rómarsáttmálanum verði ekki beytt.

Ég treysti íslenskum ráðherrum betur en þýskum ráðgjafa. Vill einhver Íslendingur að landhelgin verði galopin fyrir erlenda ryksugutogara? Vill einhver Íslendingur fá flóðbylgju úr evrópska vinnumarkaðnum? Innan um eru dópistar, dópsalar og glæpalýður. Vill einhver fá slíkt til Íslands? Ég held ekki. Þessir sem tala um að við verðum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu virðast aldrei sjá galla, bara kosti. Næst er skoðanakönnun verður gerð, þá nefnið kosti og galla.

Í Morgunblaðinu 29. maí sl. segir "að allur skipafloti innan ESB fái jafnan aðgang að auðlind annarra efnahagsbandalagsþjóða".

Kær kveðja,

Vilhjálmur K. Sigurðsson, Njálsgötu 48A,

Reykjavík.

Landsöfnun

TVÆR systur höfðu samband við Velvakanda og vildu koma eftirfarandi hugmynd á framfæri: Að allir landsmenn tækju þátt í söfnun til styrktar aðstandendum fórnarlamba flugslyssins í Skerjafirði þannig að hægt væri að koma þessum málum fyrir rannsóknarnefnd.

Ljót sjón

ÞAR sem ég ók heimleiðis Kársnesbrautina í Kópavogi rak ég augun í ljóta sjón. Á húsi einu var hengdur upp dauður hrafn í sjónvarpsloftnetið. Þvílík andstyggð. Hér hafa hrafnar verið á öðrum hverjum ljósastaur í vetur, öllum til ánægju. Ég hélt að ekki mætti drepa hrafna hér í Kópavogi, sem og í Reykjavík. Hvar fékk þessi mannaumingi hrafnshræið? Vonandi kann hann að skammast sín og taka niður hræið. Ég vona að hann læri að virða náttúruna og njóta hennar og hafna fáránlegu hatri á dýrategund sem á sér ekki minni tilverurétt en hann.

Granni.

Nauthóll í Nauthólsvík

VEITINGAHÚSIÐ Nauthóll í Nauthólsvík er lítið og afskaplega notalegt kaffihús. Þar er hægt að fá frábærar kökur og kaffi. Það er aðeins einn galli á þessu, húsið er ekki reyklaust. Það er afar erfitt að koma þarna með börn því reykt er alls staðar. Hvenær á að banna reykingar þarna?

Viðskiptavinur.

Húrra fyrir sjómannadagsráði Reykjavíkur

ÞAÐ hefur verið fyrir því hefð að sjávarútvegsráðherra haldi ræðu á sjómannadaginn. Nú er svo komið að nærveru hans er ekki óskað. Sama má segja um forseta lýðveldisins sem halda á ræðu á sjómannadaginn á Ísafirði, þar sem hann hefur skrifað undir þau ólög sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur knúið fram í skjóli meirihluta á Alþingi. Þetta er rétt, að þjóðin sé meðvituð um að þessir háu herrar séu ekki fulltrúar hins almenna borgara heldur fulltrúar útgerðarmanna, atvinnurekenda og annarra braskara í þessu þjóðfélagi. Þeir hópar sem ríkisstjórnin hefur sett á lög (ólög) í þessu landi þurfa að muna eftir þeim þegar þeir þurfa að biðja þjóðina um umboð til stjórnarsetu á stjórnarheimilinu, að nærveru þeirra sé ekki óskað þar á bæ. Þannig þarf fólkið í landinu sem ekki er í fyrirrúmi að taka á málunum og kvitta fyrir sig.

Vinur sjómanna

og þeirra sem

minna mega sín.