Í útvarpsþætti ekki alls fyrir löngu um sænska forsætisráðherrann Olof Palme var m. a. rætt um það að hann hafi ekki verið hrifinn af því að þurfa að hafa öryggisverði í fylgd sinni.
Í útvarpsþætti ekki alls fyrir löngu um sænska forsætisráðherrann Olof Palme var m. a. rætt um það að hann hafi ekki verið hrifinn af því að þurfa að hafa öryggisverði í fylgd sinni. Var þá komizt svo að orði: "Hann var alræmdur fyrir það að vilja stinga öryggisverði sína af." Í öðrum útvarpsþætti var svo talað um flugmann, sem þótti frábær í starfi sínu, og þá tekið fram að hann hafi verið alræmdur flugmaður. Að sjálfsögðu var átt við það að þessir menn hefðu verið alþekktir eða víðkunnir að þessu leyti. Ég hrökk við þegar ég heyrði lo. alræmdur notað í þessari merkingu. Í mínum huga er lo. alræmdur alltaf haft um mann í niðrandi merkingu eða um þann "sem illt orð fer af, alræmdur fyrir e-ð", eins og segir í OM (1983). Talað er um að einhver maður hafi verið alræmdur svikahrappur eða alræmdur glæpamaður, svo að dæmi séu nefnd. Ég býst við að flestir kannist einmitt við þá merkingu þessa lýsingarorðs. Í þessu sambandi höfum við enn fremur lo. eins og illræmdur og orðlagður en alræmdur mun þeirra áhrifaríkast. Í ofangreindum lýsingum um Palme og flugmanninn hefði að sjálfsögðu átt að nota lo. eins og alþekktur eða alkunnur eða jafnvel víðþekktur. Að mínum dómi er með öllu ástæðulaust að láta lo. alræmdur fá hér jákvæða merkingu, enda af nógu öðru að taka, eins og tekið hefur verið fram.

- J. A. J.