Alex Gifford sáttur á Íslandi.
Alex Gifford sáttur á Íslandi.
Alex Gifford, annar helmingur Propellerheads, er eini tónlistarmaðurinn sem mun troða upp bæði kvöld upprisuhátíðar Hljómalindar. Birta Björnsdóttir ræddi við hann um tónlist, Ísland og Sigur Rós.
Á LAUGARDAGSKVÖLD sáum við félagarnir úr Propellerheads um að þeyta skífur," upplýsir Alex. "En í kvöld ætla ég svo að spila á píanó og syngja. Félagi minn leikur undir með mér á trommur. Þetta verða einskonar órafmagnaðir Propellerheads," bætir hann við og hlær.

"Ég mun spila ný lög og sum af þeim verða á næstu plötu okkar. Við tökum líka önnur lög í bland, lög sem aðrir hafa sungið inn á plötur hjá okkur," segir Alex aðspurður um tónlistarvalið fyrir tónleikana. "Þetta verður mjög athyglisvert og það sem meira er, fyrsta og trúlega eina skiptið sem við spilum eins og við ætlum að gera á sunnudagskvöldið. Áhorfendur eru því bæði heppnir og óheppnir allt eftir því hvernig þeim finnst takast til."

Spenntastur að sjá Sigur Rós

Propellerheads hefur spilað tvisvar sinnum áður á Íslandi, en þetta er í fimmta sinn sem Alex kemur hingað til lands. Hann segist kunna mjög vel við sig hér og segist halda mikið upp á Ísland.

"Ég bý í New York og kem stundum við á Íslandi á leið minni til London," segir Alex.

Hann segist vera spenntastur fyrir að sjá Sigur Rós á komandi tónleikum því hann hafi aldrei séð þá á sviði. Hann segist mjög hrifinn af tónlist Sigur Rósar en kann ekki að nefna fleiri íslenska tónlistarmenn, sem hann hefur heyrt í.

"Öll sú íslenska tónlist sem ég hef heyrt býr yfir svo mikilli orku og er sérstök, ólík allri annarri tónlist sem ég hef heyrt. Íslenskir tónlistarmenn hafa sinn eigin stíl ,sem er mjög gott að mínu mati."

En mega aðdáendur Propellerheads búast við nýju efni frá köppunum á næstunni?

"Já, trúlega bráðum. Við höfum verið að vinna að plötu í talsverðan tíma. Málið er að í hvert skipti sem við klárum, þá viljum við brátt gera aðeins betur. Við erum svo hræddir við endurtaka okkur. En platan verður góð þegar hún loksins kemur," bætir Alex við og hlær.

Að lokum segist Alex vera mjög upp með sér að hafa verið beðinn um að koma hér og spila. "Við seljum fleiri plötur hér miðað við höfðatölu, en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Það er ótrúlegt!" segir Alex hinn kátasti.

Tónleikarnir hefjast bæði kvöldin klukkan 20. Auk Gifford koma fram á tónleikunum í kvöld Sigur Rós, Hljómar, Gras. Miðaverð er 2.500 krónur og aldurstakmark 16 ár.