Mjög athyglisvert var að kynnast viðhorfum Ólafs Stefánssonar, besta handknattleiksmanns Íslands um þessar mundir, í stórgóðu viðtali Víðis Sigurðssonar við hann hér í blaðinu síðastliðinn þriðjudag.
Mjög athyglisvert var að kynnast viðhorfum Ólafs Stefánssonar, besta handknattleiksmanns Íslands um þessar mundir, í stórgóðu viðtali Víðis Sigurðssonar við hann hér í blaðinu síðastliðinn þriðjudag.

Ólafur kveðst ekki vilja hanga fastur í viðjum vanans, og svo virðist sem engin hætta sé á að það gerist.

Algengt er að viðtöl við íþróttamenn séu einsleit. Mikið er um sömu setningarnar; staðlaða frasa sem fólk hlýtur að vera orðið þreytt á. En þessu er ekki að heilsa í tilfelli Ólafs. Hann lítur lífið skemmtilegum augum og þorir að tjá sig eins og hann langar til.

Ólafur er spurður í viðtalinu hvort hann ætli sér að vera áfram hjá Magdeburg þegar samningi hans lýkur að tveimur árum liðnum - en líklegt má telja að liðið verði í fararbroddi í Þýskalandi og jafnvel Evrópu næstu árin.

Ólafur svarar: "Nei, ég sé ekki fyrir mér að ég verði hér áfram eftir að samningurinn rennur út. Ef við verðum sigursælir á þessum tíma vil ég frekar fara því það yrði ekkert gaman að hanga fastur í viðjum vanans. Við Kristín [Þorsteinsdóttir, unnusta hans] viljum vera frjáls og á hreyfingu og settum okkur það takmark að kynnast heiminum í stað þess að fara hefðbundnu leiðina og festa okkur með húsakaupum og öllu sem því fylgir. Okkur langar til að kynnast Spáni eða Frakklandi, jafnvel Japan, og það er allt opið í þessum efnum. Það yrði gaman að komast í sterkt félag á Spáni eða annað tveggja bestu liðanna í Frakklandi. En það er langt í þetta og margt sem getur gerst í millitíðinni, og mikilvægast að hugsa ekki of langt og reyna að halda sínu striki."

Ólafur er að nema ýmis húmanísk fræði, og þegar hann er spurður hvernig hann hyggist nýta sér námið í framtíðinni er svarið:

"Það kemur í ljós og námið nýtist mér sjálfum fyrst og fremst, kennir mér að þekkja sálarlífið og verða betri maður. Sumir líta á það sem veikleika að hugsa of mikið og ég er stundum skammaður fyrir að vera of tilfinninganæmur. En ég tel að maður eigi að reyna að virkja tilfinningarnar í íþróttirnar og annað sem maður tekur sér fyrir hendur. Það er ekki rétt að ýta tilfinningunum frá sér, frekar að reyna að nota þær og þroska. Tilfinningamenn eru taldir veikir, en ég segi að slíkt sé aðeins veikleiki hjá þeim sem kunna ekki að fara með þær. Áskorunin er að nýta tilfinningarnar sem styrk. Þetta nám er góður grunnur fyrir aðra menntun, auk þess sem mörg störf í þjóðfélaginu í dag byggjast á skynsemi og því að kunna að vinna úr upplýsingum. Rökhugsunin er mikilvæg en trúin er þó enn meira virði. Ég er ekki búinn að setja stefnuna á neitt ákveðið, enda er betra að segja sem minnst til að festa ekki eitthvað í sessi. Það má þó kannski segja að ég gæti hugsanlega þróað þetta inn á íþróttasálfræði síðar meir. Það virðast allir hafa miklar áhyggjur af því hvað ég ætli mér að verða, en ég er mjög rólegur yfir þessu öllu saman."

Þetta er maður að skapi Víkverja.