Herðubreið blasir við þegar ekið er um Möðrudalsfjöllin.
Herðubreið blasir við þegar ekið er um Möðrudalsfjöllin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Akstur um þjóðveg 1 getur haft ýmsan tilgang. Oftast er það vegna erinda milli byggðarlaga. Jóhannes Tómasson prófaði að fara hringinn á einum degi - og var erindið ekki annað en aksturinn sjálfur.
VILJI menn skoða landið á hraðferð á einum degi er það mæta vel hægt. Þurfi menn til dæmis að sýna útlendingum sveitir og byggðir á skömmum tíma er einfalt að þeysa allan hringveginn í einum rykk. Allt saman í þágu hraðans og tímasparnaðar. Innan marka þó. Og best að gera þetta á frídegi því þá er lítil umferð stórra flutningabíla sem geta tafið för.

Með í för voru Peter, Paul og Mary, Kingston-tríóið og fleiri - á hljómdiskum - en slíkir ferðafélagar eru nauðsynlegir. Best væri líka að hafa aðstoðarökumann en fyrir ökuglaða er það ekki úrslitaatriði.

Það tekur ekki nema 15-17 tíma að aka hringveginn eftir því hversu oft þarf að staðnæmast til að taka myndir, eldsneyti eða næra sig. Meðalhraðinn er þá nokkuð yfir 80 km á klukkustund. Þetta var prófað á dögunum á Toyota RAV 4, sjálfskiptum og kraftmiklum bíl sem fór vel með ökumanninn alla leið.

Gangandi líka

Haldið var úr höfuðborginni í bítið og farið austur með Suðurlandinu. Fátt var um að vera en nokkur umferð samt og til að gera eitthvað greip ökumaður til þess ráðs að telja bíla sem á móti komu. Þeir voru 27 á kaflanum til Selfoss. Þeim snarfækkaði milli Selfoss og Víkur, voru þá aðeins 5. Og enn færri milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs eða tveir. Enda klukkan ekki nema hálftíu þegar þangað var komið. Fjórir voru á ferð milli Klausturs og Skaftafells en 21 á næsta áfanga, að Höfn. Einn til viðbótar var gangandi á þeim kafla. Hann fór sér hægt og dugði honum ekki minna en allur vegurinn til að skeiða áfram. Hann gæti þess vegna hafa verið að koma af balli en líklega var hann bara að reka erindi á næsta bæ.

Reynt var líka að rýna í bæjarnöfnin án þess að missa alveg athyglina frá akstrinum og þau eru mörg hver torræð. Viðborðssel er til dæmis skammt frá Höfn og í Skagafirðinum er Kúskerpi. Svo eru í öllum sveitum nöfn eins og Brekka, Dalur, Teigur og Fell en fá Kirkjuból virtust vera við hringveginn, þau eru fremur á Vestfjörðum.

Nokkuð jöfn umferð var allt frá Höfn til Egilsstaða, 12 bílar milli Hafnar og Djúpavogs, 15 yfir í Breiðdalinn og 14 milli Breiðdalsvíkur og Egilsstaða. Alls voru þetta því 105 bílar frá Reykjavík til Egilsstaða en þá þraut líka viljann til frekari talningar.

Á Austfjörðum var greinilegt að Norræna var komin til landsins með fyrstu ferðamennina því allt í einu spruttu útlendingar út úr rykinu og óku varlega á malarvegaköflunum. Meðal þeirra var slatti af vélhjólaköppum í tilheyrandi múnderingum á létthlöðnum hjólunum. Má skjóta því hér inní að það er með ólíkindum hversu fyrirferðarlítill búnaður þeirra er þegar hann er kominn á sinn stað á hjólunum. Á tjaldstað er eins og fimm manna fjölskylda sé á ferð með allt hafurtaskið en þegar vélhjólamaðurinn hefur pakkað dótinu saman skreppur það saman niður í tvær hliðartöskur á hjólinu.

Eins og fyrr segir var hringurinn ekinn á RAV 4 sem er með tveggja lítra og 150 hestafla vél. Þetta er vel búinn bíll, með hemlalæsivörn, loftpúðum, vökva- og veltistýri, rafdrifnum rúðum og hliðarspeglum, með fjarstýrðum samlæsingum og ekki síst skyldi telja útvarpið með geislaspilara. Sem er alveg nauðsynlegt á svona ferð því það er varla hægt að hlusta á hálfan fréttatíma eða þátt án þess að þurfa að leita að næstu tíðni þegar farið er gegnum hverja sveitina á fætur annarri. Sjálfskiptingin var þægileg viðureignar með yfirgír og þægilegt að skerpa á vinnslunni með því að kippa bílnum úr honum og renna sér í brekkurnar.

Dálítið bilað

Viðurkenna má að þetta var dálítið bilaður gerningur. Tekur þó ekki lengri tíma en tvöfaldur vinnudagur. Er helst fyrir þá sem hafa gaman af akstri en líka vandalaust í þægilegum bíl. Og í anda Friðriks Þórs Friðrikssonar og kvikmyndar hans um hringveginn sem er náttúrlega líka dálítið biluð hugmynd. Ekki alveg í anda Huldars Breiðfjörð sem fór hringinn á nokkrum vikum. Að vísu að vetrarlagi og tók líka Vestfirðina með.

Þeir verða bara teknir fyrir næst.