KOSINN verður nýr forseti í Perú í dag, sunnudag og hafa flestar kannanir gefið til kynna að hagfræðingurinn Alejandro Toledo muni sigra.
KOSINN verður nýr forseti í Perú í dag, sunnudag og hafa flestar kannanir gefið til kynna að hagfræðingurinn Alejandro Toledo muni sigra. Hann er 55 ára gamall, menntaður í Bandaríkjunum og af indíánaættum en flestir ráðamenn landsins hafa fram til þessa verið af evrópskum uppruna.

Fyrrverandi forseti Perú, Alberto Fujimori, er nú í útlegð í Japan en hann tók sér nánast einræðisvöld og flæktist í spillingarmál. Um er að ræða seinni umferð forsetakosninganna. Keppinautur Toledos er Alan Garcia, 52 ára gamall, fyrrverandi forseti. Hann þykir eiga gott með að ná til almennings úr ræðustóli en er sakaður um að vera tækifærissinnaður lýðskrumari. Garcia segist hafa lært af mistökum sínum fyrr á árum. Hann var forseti 1985-1990 og skildi við efnahaginn í rúst auk þess sem vinstrisinnaðir skæruliðar færðu sig æ meira upp á skaftið. Um fjórðungur kjósenda segist ætla að skila auðu.

Lima. AP.