Suzuki Swift hefur lítið breyst síðustu árin.
Suzuki Swift hefur lítið breyst síðustu árin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LÍTIÐ hefur farið fyrir Suzuki Swift á markaði hérlendis undanfarið og kannski ekki að undra þar sem bílnum hefur í raun verið gefinn lítill gaumur af framleiðandanum, sem hefur lagt meiri áherslu á þróun nýrra gerða, t.a.m. Ignis og stærri Vitara jeppa.
LÍTIÐ hefur farið fyrir Suzuki Swift á markaði hérlendis undanfarið og kannski ekki að undra þar sem bílnum hefur í raun verið gefinn lítill gaumur af framleiðandanum, sem hefur lagt meiri áherslu á þróun nýrra gerða, t.a.m. Ignis og stærri Vitara jeppa. Swift er hins vegar þekktur fyrir lága bilanatíðni og sparneytni, sem er eiginleiki sem verður sífellt verðmætari á tímum orkudýrtíðar. Við prófuðum á dögunum Suzuki Swift með 1,3 l vél í þrennra dyra útfærslu.

Það sem blasir við auganu er sléttur og felldur bíll, gamaldags í samanburði við keppinautana, enda setið á hakanum í útlitsbreytingum, eins og fyrr segir. Hann er framleiddur í verksmiðju Suzuki í Ungverjalandi.

Þetta á líka við um innanrýmið og þar kemur berlega í ljós að bíllinn er nokkuð farinn að reskjast þótt "nýr" sé. Það er gamaldags svipur yfir mælaborðinu og ýmsir rofar, eins og t.d. fyrir stýringu á útispeglum og afturrúðuþurrku eru ankanna-
lega staðsettir. Ökumaður situr fremur lágt í bílnum og framsætin eru sérhönnuð sportsæti sem eru í senn þægileg og halda ökumanni skorðuðum sama hvað á gengur.

Hagstætt verð

Sterka hlið þessa bíls er tvímælalaust verðið, lág bilanatíðni, (samkvæmt niðurstöðum í könnun TUV), og aflmikil en um leið sparneytin vél. Verðið fyrir þrennra dyra bílinn er 1.050.000 kr., og líklega skipar Swift sér þar með í hóp ódýrustu nýrra bíla á markaðnum. En það vantar líka talsvert í bílinn af staðalbúnaði sem menn eiga að venjast í nýjum bílum. Fyrir það fyrsta vantar í hann hemlalæsivörnina, sem nú er að verða staðalbúnaður í langflestum bílum. Þá eru aðeins tveir hnakkapúðar í aftursætum og tvö þriggja punkta belti. Á móti kemur að hann er með vökvastýri og góðum sportsætum sem dýrari bílar státa almennt ekki af. Hann er líka með hita í sætum, rafdrifnum framrúðum og útispeglum og samlæsingum, þó ekki fjarstýrðum.

Sprækur bíll

Vélin er 1,3 lítra, 85 hestafla, en bíllinn vegur ekki nema 780 kg og er því eitt hestafl um hver 9,1 kg sem telst vera gott hlutfall. Bíllinn enda rótvinnur og togar ágætlega á lágum snúningi og er talsvert skemmtilegur fyrir vikið. Eyðslan er ekki nema 5,9 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri.

Fjöðrunin er fremur stíf en við grófa keyrslu undirstýrir bíllinn talsvert. Sömuleiðis eru hemlarnir veikir og krefjast þyngra ástigs en vant er um nýja bíla. Bíllinn er hins vegar léttur í stýri og hinn meðfærilegasti í borgarumferðinni og tilvalinn í snatt ýmiss konar.

Það sem situr eftir viðkynninguna er að hér er á ferð gamalreyndur og áreiðanlegur smábíll sem getur hentað þeim sem blása á tískustrauma en leita eftir ódýrum bíl sem státar af sparneytni, hagkvæmum rekstri og þokkalegu afli. Swift mun síður höfða til þeirra sem jafnframt gera kröfu um nútímalega sjónræna hönnun hvað þá framúrstefnulega.