Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Kristján Haukur Flosason, þjálfari hjá sunddeild KR, og Jóhannes Benediktsson, formaður sunddeildarinnar, afhenda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra undirskriftirnar.
Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Kristján Haukur Flosason, þjálfari hjá sunddeild KR, og Jóhannes Benediktsson, formaður sunddeildarinnar, afhenda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra undirskriftirnar.
FASTAGESTIR Sundlaugarinnar í Vesturbæ afhentu á fimmtudag borgarstjóra undirskriftir um 2000 Vesturbæinga sem skora á borgaryfirvöld að byggja kennslu- og æfingarlaug við Vesturbæjarlaug hið fyrsta.
FASTAGESTIR Sundlaugarinnar í Vesturbæ afhentu á fimmtudag borgarstjóra undirskriftir um 2000 Vesturbæinga sem skora á borgaryfirvöld að byggja kennslu- og æfingarlaug við Vesturbæjarlaug hið fyrsta.

Margrét Lísa Steingrímsdóttir stóð fyrir undirskriftasöfnuninni. "Ég syndi daglega og hélt endilega að það ætti að byggja við laugina. Svo fór ég að spyrja framkvæmdastjórann hvenær framkvæmdirnar ættu að hefjast og þá kom í ljós að það er ekkert á dagskrá af því að nú er verið að laga Laugardalslaugina."

Hún segir marga hafa verið óánægða og óhressa með plássleysið í lauginni og því hafi henni fundist tilhlýðilegt að borgaryfirvöld vissu að fólk væri að hugsa um þessi mál.

Hún segir lítið pláss fyrir almenna sundiðkendur í lauginni. "Laugin er jafnlítil og hún var fyrir 40 árum þegar hún var byggð fyrir samskot borgarbúa. Það eru þarna fjórar brautir og þrjár þeirra eru alltaf nýttar undir skólasund og skólasundið er frá átta til fjögur. Þá tekur sunddeild KR við og er með brautirnar næstum fram að lokun. Almenningur hefur því aðeins eina braut til umráða," segir hún.

Auk Margrétar hefur sunddeild KR tekið þátt í að safna undirskriftunum og segir í greinargerð með undirskriftunum að börn lendi nú á biðlista eftir plássi í sundfélaginu vegna aðstöðuleysisins.