[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland Heilsudagar Fram til 9. júní standa Stykkishólmsbær og Heilsuefling Stykkishólms fyrir heilsudögum í Hólminum. Er þetta átak til að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi eigin heilbrigði og vellíðunar.
Ísland

Heilsudagar

Fram til 9. júní standa Stykkishólmsbær og Heilsuefling Stykkishólms fyrir heilsudögum í Hólminum. Er þetta átak til að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi eigin heilbrigði og vellíðunar. Verslanir og þjónustuaðilar í Stykkishólmi verða með tilboð á heilsutengdum vörum og þjónustu og ýmsar uppákomur verða í bænum.

Af fjölmörgum má nefna Sjókajakmót Eiríks rauða um hvítasunnuhelgina, sögugöngu um gamla bæinn, kvöldgöngu frá íþróttamiðstöðinni og sundleikfimi. Nánari upplýsingar eru í síma 438-1704.

Norður-Noregur

Ódýrari flugferðir

Vegna ferðar barna- og unglinga hóps frá Tromsö í N- Noregi þann 14.júlí til 23.júlí á norrænt mót barna og unglinga á Íslandi, sem nefnist BARNLEK 2001, eru nú laus a.m.k. 120 sæti í leiguflugi frá Keflavík til Tromsö þann 13. júlí og til baka frá Tromsö þann 23. júlí.

Íslendingafélagið Hrafnaflóki í Tromsö ( http://home.no.net/ishrafn ), Norræna félagið( www.norden.is ) og NorIce ( www.norice.com ) taka á móti pöntunum og eru með ýmsar ábendingar varðandi gistingu og ferðaþjónustu í N-Noregi.

Að sögn aðstandenda er þetta einstakt tækifæri sem gefst nú til að skoða hluta Noregs sem að öðrum kosti er nokkuð dýrt að nálgast.

Verð báðar leiðir er samtals 2.800 norskar krónur frá Íslandi eða rúmlega 31.000 íslenskar krónur.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Norræna Félagsins, 5510165 og á ofangreindum vefsíðum.

Ísland

Fosshótel Húsavík

Hótel Húsavík er orðið Fosshótel Húsavík. Það eru Þórhallur Harðarson og Hörður Þórhallsson sem eru meirihlutaeigendur og rekstraraðilar að hótelinu. Þar með rekur Fosshótel ellefu hótel á Íslandi. Hægt er að bóka öll Fosshótel á söluskrifstofu Fosshótels í Reykjavík í síma 562- 4000 eða með tölvupósti. Póstfangið er bokun@fosshotel.is.

Heimasíðan er síðan www.fosshotel.is.

Rússland

Moskva og Pétursborg skoðaðar

Í haust, eða hinn 12. september, verður farin fimmtán daga borgar- og sólarferð til Rússlands á vegum Garðaríkis ehf. og rússnesku ferðaskrifstofunnar Tri kita. Flogið er til Moskvu og hin sögulega borg skoðuð, þaðan er flogið til Sotsí við Svartahaf sem þekkt er fyrir sólarstrendur og ferðin endar síðan í Pétursborg.

Aðalfararstjóri er Haukur Hauksson sem í mörg ár hefur dvalið í Rússlandi og nágrannalöndum. Mikil áhersla verður lögð á sögu Rússlands og menningu. Nánari upplýsingar er að fá hjá Hauki í síma 007 902 125 12 90 og eftir 23. júní í síma 848 44 29. Þá er einnig hægt að senda fyrirspurnir á; moskva@torg.is og skoða heimasíðuna www.austur.com

Ísland

Nýr golfbæklingur

Nýr golfbæklingur frá Samvinnuferðum-Landsýn, Golfferðir 2001 til 2002, er kominn út.

Í bæklingnum segir að sífellt fleiri sækist eftir sérstökum ferðum þar sem hægt sé að njóta lífsins og spila golf við bestu aðstæður. Af árlegum ferðum má nefna ferðir til Taílands, Spánar, Portúgals og Írlands. Þá eru einnig nýjar ferðir í boði eins og lúxusferð til Spánar, glæsigolf í Tékklandi, golfferð til Frakklands og kvennagolf í Danmörku.

Nánari upplýsingar eru í síma 569-1010.

Bretland

Klúbbferð til London

Breakbeat.is mun standa fyrir klúbbferð til London dagana 5.-9. júlí í samvinnu við Flugleiðir. Aðgangur í ferðina verður takmarkaður en stefnt er á að selja 30 sæti. Lágmarksaldur er 18 ár. Ekki er komin endanleg dagskrá en stefnt er á að fara á eftirfarandi klúbba; Movement á Bar Rumba, Fabric, The End og Metalheadz á The Limelight. Gist verður á Generator-hótelinu en það er nálægt Oxford Street. Ferðin kostar 44.465 krónur miðað við gistingu í tvíbýli og 42.465 krónur miðað við þriggja og fjögurra manna herbergi. Innifalið í verðinu er gisting í 4 nætur á The Generator, morgunverður og flugvallaskattar. Nánari upplýsingar eru hjá Söru Wheely í síma 505-0873 og Ingu Jasonardóttur í síma 505-0772.