HLUTAFÉLAGIÐ Orkubú Vestfjarða var stofnað með formlegum hætti á fundi á Ísafirði á föstudag.
HLUTAFÉLAGIÐ Orkubú Vestfjarða var stofnað með formlegum hætti á fundi á Ísafirði á föstudag. Samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti á síðustu dögum fyrir þingfrestun, er veitt heimild til að stofna hlutafélag um rekstur Orkubúsins, en áður var það rekið sem sameignarfélag eftir sérstökum lögum. Kristján Haraldsson var ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis, en hann hefur verið orkubússtjóri frá upphafi.

Stofnfundur OV hf. var haldinn í Hömrum á Ísafirði í beinu framhaldi af síðasta aðalfundi sameignarfélagsins. Á aðalfundinum kom m.a. fram að 82,7 milljóna kr. tap varð á rekstri fyrirtækisins á síðasta ári, en það er ríflega 21 milljón kr. verri afkoma en árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 163,9 milljónum, en ríflega 240 milljónum árið á undan, að því er segir í rekstrarreikningi.

Í árslok 2000 voru eignir fyrirtækisins tæplega 4,4 milljarðar kr. og höfðu aukist um 117 milljónir milli ára. Heildarskuldir námu í árslok 323 milljónum og eigið fé ríflega fjórum milljörðum króna.

Orkubú Vestfjarða hf. yfirtekur sameignarfélagið ásamt öllum eignum, réttindum og skuldum hinn 1. júlí nk. og segir Kristján Haraldsson að tíminn þangað til verði nýttur til undirbúnings. Hann segir allar líkur á því að allt starfsfólk sameignarfélagsins fáist til starfa hjá nýju félagi, en starfsmenn OV hafa verið tæplega 60.

Á stofnfundinum var ný stjórn skipuð og var Þorsteinn Jóhannesson á Ísafirði kjörinn formaður. Aðrir í stjórn eru Kristinn Jón Jónsson, Ísafirði, Björgvin Sigurjónsson, Tálknafirði, Haraldur V. Jónsson, Hólmavík og Ólafur Þ. Benediktsson, Bolungarvík. Varamenn eru Ragnheiður Hákonardóttir, Ísafirði, Jón Þórðarson, Bíldudal, Smári Haraldsson, Ísafirði, Guðmundur S. Björgmundsson, Önundarfirði, og Þórir Örn Guðmundsson, Þingeyri.

Kristinn Jón og Guðmundur S. eru tilnefndir af iðnaðarráðherra, þeir Björgvin og Þórir Örn af fjármálaráðherra en aðrir í stjórn og varastjórn voru kjörnir á stofnfundi.

Ríkissjóður býður í hlut allra sveitarfélaganna

Hlutafé hins nýstofnaða Orkubús Vestfjarða hf. er að nafnvirði ríflega 3 milljarðar kr. Hluthafarnir eru þrettán talsins, ríkissjóður og öll sveitarfélög á Vestfjörðum og skiptist eignarhlutur í hlutfalli við íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum.

Fyrir liggur yfirlýsing um að ríkissjóður muni í kjölfar stofnunar hlutafélagsins gera öllum sveitarfélögunum kauptilboð í eignarhluta þeirra í félaginu. Hefur verið gengið út frá því að heildarverðmæti fyrirtækisins sé 4,6 milljarðar kr.

Taki sveitarfélögin því boði mun andvirði hlutar Ísafjarðarbæjar nema hálfum öðrum milljarði kr., Vesturbyggð fengi tæplega 400 milljónir, Bolungarvíkurkaupstaður 338 milljónir, Hólmavíkurhreppur 150 milljónir, Tálknafjarðarhreppur 124 milljónir, Reykhólahreppur 104 milljónir, Súðavíkurhreppur 77 milljónir, Kaldrananeshreppur 44 milljónir, Bæjarhreppur 31 milljón, Broddaneshreppur 28 milljónir, Árneshreppur 20 milljónir og Kirkjubólshreppur 17 milljónir, að því er fram kemur í Bæjarins besta á Ísafirði.

Kristján Haraldsson segir bjartsýni ríkja á Vestfjörðum um framhaldið, enda sé ljóst að Orkubú Vestfjarða sé stórt og öflugt fyrirtæki með mikið hlutafé og stöðugan rekstur. Hann býst við að innan skamms muni sveitarfélögin gera upp hug sinn varðandi sölu á hlutafé til ríkisins.

Fram hefur komið að í ljósi bágrar fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga á Vestfjörðum sé líklegt að flest sveitarfélögin taki tilboði ríkisins og losi sinn hlut í Orkubúinu.