Þeir boða það, sumir vitringar markaðslögmálanna og frjálsræðisins, að besta baráttuaðferðin sé uppgjöf, skrifar Ellert B. Schram. Lögleiðum fíkniefnin, segja þær stríðshetjur, hver í kapp við aðra. En sú uppgjöf verður ekki með mínu samþykki.
Ég man vel eftir henni Dísu. Hún bjó hér spölkorn utar í götunni og kom oft og bankaði upp á til að spyrja um krakkana mína. Kankvís stelpa og frökk og hafði þetta glettna bros, frá því fyrst ég sá hana. Hún hafði það fyrir sið að gabba mig til dyra, með því að hringja á bjöllunni og fela sig svo á bak við hornið. Hringdi aftur og hafði þó jafnan vit á því, að skella framan í mig hlátrinum, áður en ég missti þolinmæðina.

Foreldrar hennar voru gott fólk og voru stolt af stelpunni sinni. Sem þau máttu og vera. Henni sóttist námið vel, lék á píanó og stundaði badminton og var vinamörg. Dísa var strax lagleg í andliti, grönn og limamjúk og hafði þessa sterku nálægð sem ekki er öllum gefin. Pínulítið feimin, sem gerði hana aðlaðandi og það var gaman að fylgjast með uppvexti hennar í gegnum eigin börn og félagsskapinn sem myndaðist á þessum grunnskólaárum.

Sem sagt, fyrirmyndarbarn, hún Dísa. Svo fór hún í framhaldsskólann og varð unglingur og ég missti sjónar á henni, eins og gengur. Krakkar koma og fara og fullorðnir eru jú með hugann við annað, heldur en þau börn og þá unglinga, sem dingla stundum á bjöllunni og eru þarna einhversstaðar í nágrenninu. Við erum ekki einu sinni að huga öllum stundum að okkar eigin börnum, hvað þá börnum annarra, enda er það veröld út af fyrir sig, sem okkur er ekki alltaf hleypt inn í. Og nennum heldur ekki að kynna okkur. Maður á nóg með sjálfan sig, ekki satt? Eða svo heldur maður.

Svo er það einn daginn, sem hún Dísa litla berst í tal. Sjúkrabíll hafði komið í hendingskasti að heimili hennar í götunni minni og út var borin þessi unga stúlka, dóttirin á heimilinu, dóttirin hún Dísa. Jú, hún hafði dópað sig heldur of mikið var sagt í hvíslingunum og lá nú á milli heims og helju, greyið, sögðu þeir, sem gerst þekktu, "enda var svosem ekki við öðru að búast, eftir það sem á undan gekk".

"Gekk á hverju?" spurði ég eins og álfur út úr hól.

Nú, hvað er þetta maður, veistu ekki að hún Dísa litla var fíkill. Hafði dottið út úr skólanum vegna óreglulegra mætinga, hafði jafnvel horfið um tíma af heimilinu. Henni væri ekki viðbjargandi, sagði fólkið, rétt eins og hér væri á ferðinni gamalreyndur róni, sem hefði drukkið og dópað frá sér lífið.

Og þetta var allt að gerast í götunni, heima hjá mér, hjá litlu skottunni sem var að hrekkja mig á bjöllunni og þetta gat þá komið fyrir hjá þeim, foreldrunum hennar, sem höfðu verið góð við hana Dísu sína og gegndu góðum stöðum og voru í fyrirmyndarhjónabandi.

Eða hvað?

Ég heimsótti þau hjónin kvöldið eftir. Hún var ekki sjón að sjá, móðirin, útgrátin og tekin af kvöl eða sjálfsásökun og hann sat með hendur í skauti, horfði í gaupnir sér og hafði elst. Smám saman kom sagan að baki harmleiknum: Dísa var félagslynd og glaðvær. Hún hafði gaman af því að skemmta sér og sótti skólaböllin. Umgekkst kunningjahóp sem hélt mikið saman og svo kom einn og svo kom annar sem hafði prufað sniff og töflur og af hverju ekki þið líka, ofsa fjör, ofsa stuð og auðvitað gat Dísa ekki setið hjá og verið útundan í stuðinu og þannig hafði þetta gerst, svona til að geðjast hinum og vera ekki félagsskítur.

Ekki það að þau hjónin hafi tekið eftir neinum breytingum og því var heldur ekki að neita að þau voru mikið upptekin í vinnunni og voru hálfpartinn fegin þegar Dísa og hinir krakkarnir höfðu svona mikið ofan af fyrir sjálfum sér og svo var hún líka svo góð stelpa, hún Dísa, að það gat ekkert komið fyrir hjá henni.

Eða svo héldu þau.

Það höldum við hin, líka. Trúum því að börnin okkar og unglingarnir séu óhultir í sínu nánasta umhverfi, heimilið, skólinn, félagsskapurinn, brosið ljúfa, sem bræðir allan efa og breiðir yfir brestina. Við lesum um óhugnaðinn í fjölmiðlunum og vorkennum fólkinu sem fellur fyrir freistingunum og vágestinum, ypptum öxlum og áföll eins eru örskot annars: æ,æ, ansi var það leitt, hugsar maður og svo ekki meir.

Eða svo höldum við.

En hættan leynist þar sem síst skyldi. Brunnurinn er einmitt opinn, þar sem við höldum hann byrgðan. Í skólanum, í félagsskapnum, á heimilinu, já heima, þar sem við vanrækjum skyldur okkar og látum allt annað hafa forgang: vinnuna, búkþarfirnar, sjónvarpsfréttirnar, hvíldina, letina, afskiptaleysið. Börnin mæta afgangi, unglingarnir eru of fyrirferðarmiklir, kynslóðabilið er of stórt.

Og áður en varir og án þess að gera boð á undan sér, er allt þetta góða líf allt í einu hrunið eins og spilaborg; vágesturinn var orðinn gestur á þínu eigin heimili. Litla eftirlætið þitt, hún Dísa draumaprinsessa, reyndist fórnarlamb eitursins.

Það tóku við erfiðir mánuðir og jafnvel þótt hún nái sér, verður þessi unga og fallega blómarós aldrei sú sama á ný. Æskublóminn er horfinn, skugginn grúfir yfir, fíknin blundar og freistingin er handan hornsins. Sú freisting og firring, sem gerir skipulega atlögu að lífi komandi kynslóðar, barnanna okkar. Og hvers virði er allt okkar líf, ef afkvæmin og eftirlætin okkar, verða að bráð þessa vágests? Veslast upp áður en þau fá að þroskast, lifa án þess að lifa, deyja án þess að deyja.

Hversu margir hafa verið í þeim sporum? Og hversu margir eiga eftir að upplifa þá lífsreynslu? Dísa og hennar fjölskylda eru ekki ein um það böl. Í raun og veru erum við að heyja styrjöld, þar sem börnin okkar eru skotspónarnir. Lögreglan hefur staðið sig vel og gómað smyglara með fleiri þúsund e-töflur. En lögreglan segir um leið að þetta sé aðeins einn tíundi hluti þess, sem inn á markaðinn fer. Inn á markaðstorg hverra, nema ungmennanna, afkvæmin okkar, afkvæmið þitt?

Þeir boða það, sumir vitringar markaðslögmálanna og frjálsræðisins, að besta baráttuaðferðin sé uppgjöf! Lögleiðum fíkniefnin, segja þær stríðshetjur, hver í kapp við aðra.

En sú uppgjöf verður ekki með mínu samþykki. Né heldur foreldra Dísu.