SKJÁLFTAVIRKNI á Bláfjallasvæðinu að undanförnu hefur vakið sérstaka athygli jarðvísindamanna og þeir velt fyrir sér hvort virknin sé fyrirboði stærri skjálfta.

SKJÁLFTAVIRKNI á Bláfjallasvæðinu að undanförnu hefur vakið sérstaka athygli jarðvísindamanna og þeir velt fyrir sér hvort virknin sé fyrirboði stærri skjálfta. Árið 1968 varð jarðskjálfti á svipuðum slóðum sem mældist 6 stig á Richter og sá stærsti sem vitað er um á Reykjanesskaga, 6,3 stig, varð árið 1929.

Allur Reykjanesskagi hefur hagað sér undarlega hvað jarðhræringar varðar, að sögn Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi, fram á 13. öld, var mikil eldvirkni á öllum skaganum og mörg hraun runnu. Síðasta eldgosið á Bláfjallasvæðinu var í Stóra-Kóngsfelli, skammt vestan Bláfjallahryggsins, á 12. eða 13. öld. Páll segir nákvæmari tímasetningu á gosinu ekki liggja fyrir.

"Skjálftavirkni hefur verið nokkur síðustu aldir á öllum skaganum. Stærstu skjálftarnir virðast eiga upptök á misgengjum sem snúa öðruvísi en gossprungurnar.

Misgengin

Misgengið er tvískipt og liggur um skíðasvæðið í Bláfjöllum, eitt hið stærsta á Reykjanesskaga. Norðurhlutinn hefur verið nefndur Kóngsfellsmisgengið og suðurhlutinn Hvalhnjúksmisgengið. Síðasta eldgosið kom úr norðurenda sprungunnar við Stóra-Kóngsfell eða á svipuðum slóðum og skjálftarnir hafa átt upptök sín síðustu daga. Skjálftarnir, sem urðu 1929 og 1968, áttu báðir upptök sín við Hvalhnjúksmisgengið," segir Páll.

Hann telur líklegt að miðað við söguna geti orðið jarðskjálftar á Bláfjallasvæðinu allt að 6,5 stigum á Richter, eins og á Suðurlandi í fyrra, hugsanlega stærri. Skjálfti upp á 6,5 stig á Richter í Bláfjöllum er ekki talinn valda miklu tjóni á höfuðborgarsvæðinu. Árin 1929 og 1968 varð ekki teljanlegt tjón á mannvirkjum, að sögn Páls, en þó komu sprungur í sumar byggingar, m.a. Alþingishúsið í fyrra skiptið.

"Við vitum ekki mikið um skjálftavirknina fyrir 1929 en eftir það virðist virkt tímabil ganga þarna yfir á u.þ.b. þrjátíu ára fresti. Á Reykjanesi var nokkur virkni á árunum 1929 til 1935 og síðan frá 1967 til 1973. Þess á milli hefur virknin verið minni. Þetta er þó varla nægjanlegt til að gefa sér einhverja langtímahegðun," segir Páll.

Þó að ekki hafi orðið eldgos á Reykjanesskaga í um 800 ár eru eldstöðvarnar fjarri því kulnaðar. Páll segir fátt benda til þess að gos verði á næstu áratugum eða árhundruðum en flekaskilin á skaganum séu mjög virk. Hreyfing á flekunum mælist ár frá ári og veldur stórum og smáum skjálftum.

"Það er og hefur verið full ástæða fyrir okkur jarðvísindamenn að fylgjast vel með Reykjanesskaga. Þetta er mjög áhugavert svæði að mörgu leyti," segir Páll Einarsson.

Þörf á GPS-mælitækjum

Ragnar Stefánsson jarðeðlisfræðingur ritaði borgaryfirvöldum bréf fyrir rúmum sex árum þar sem hann óskaði eftir fjárframlögum til að auka mælingar og rannsóknir á Bláfjallasvæðinu. Ragnar sagði við Morgunblaðið í gær að erindið hefði fengið jákvæða afgreiðslu, fé hefði fengist til að setja upp fleiri jarðskjálftamæla og þeir hefðu t.d. komið sér vel í Suðurlandsskjálftunum í fyrra.

Ragnar sagði net jarðskjálftamæla vera orðið nokkuð þétt á helstu skjálftasvæðum landsins en þörf væri fyrir fleiri GPS-mælitæki til að mæla samfelldar breytingar á landi eins og gliðnun eða hækkun, sem ekki kemur fram á skjálftamælum. Slík mælitæki eru aðeins til staðar á Hengilssvæðinu og við Mýrdalsjökul en að sögn Ragnars er brýn þörf fyrir slík tæki á jafn virku svæði og Reykjanesskagi er.