CFE-sáttmálinn um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu: Vaxandi áhyggjur á Vesturlöndum vegna undanbragða Sovétmanna RÍKISSTJÓRN Bandaríkjanna hefur afráðið að fresta því að leggja CFE-samninginn svonefnda um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu fyrir...

CFE-sáttmálinn um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu: Vaxandi áhyggjur á Vesturlöndum vegna undanbragða Sovétmanna

RÍKISSTJÓRN Bandaríkjanna hefur afráðið að fresta því að leggja CFE-samninginn svonefnda um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings til staðfestingar. Að sögn tímaritsins Jane's Defence Weekly er ástæða þessa ágreiningur sem upp er kominn við Sovétstjórnina um túlkun tiltekinna ákvæða sáttmálans en hann var undirritaður í París síðasta haust. Sovétmenn hafa beinlínis verið vændir um samningsbrot og vestrænir sérfræðingar hafa haldið því fram að með þessu hafi Sovétríkin vegið að grundvelli þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í samskiptum austurs og vesturs og menn töldu að verið væri að innsigla er leiðtogar þátttökuríkja Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE) komu saman til fundar í nóvember í fyrra.

CFE-sáttmálinn tekur eingöngu til vopna; skriðdreka, stórskotaliðsvopna, brynvagna, orrustuflugvéla og þyrlna. Er samningurinn hafði verið undirritaður hófust viðræður um niðurskurð í herjum og framkvæmd eftirlits úr lofti. Stefnt er að því að þessi samningur verði tilbúinn til undirritunar á næsta ári en þá fer ráðstefna RÖSE-ríkjanna fram í Helsinki. Hafa menn nú af því áhyggjur að viðræður þessar skili ekki tilætluðum árangri vegna ágreiningsins sem upp er kominn um túlkun CFE-samningsins.

Vígtólum komið undan

Deila þessi blossaði raunar upp strax eftir undirritun sáttmálans. Upplýsingar Sovétmanna um fjölda vígtóla þeirra á svæðinu frá Atlantshafi til Úralfjalla þóttu í engu samræmi við fyrri yfirlýsingar þeirra. Á miðju ári 1988 hafði náðst um það óformlegt samkomulag að Sovétmenn réðu yfir um 41.000 skriðdrekum á þessu svæði, um 39.000 stórskotavopnum og 45.000 brynvögnum. Í yfirlýsingu Sovétstjórnarinnar sem fylgdi samningum höfðu tölur þessar verið lækkaðar um nánast helming.

Síðar kom í ljós að hluti vígtólanna hafði verið fluttur austur fyrir Úralfjöll og það viðurkenndu talsmenn Rauða hersins. Í nýjasta hefti herfræðitímaritsins Jane's Defence Weekly segir að rúmlega 10.000 fullkomnir skriðdrekar og um 20.000 stórskotavopn hafi verið flutt í vopnabúr herafla Sovétríkjanna austan Úralfjalla. Enginn efi leiki á því að tilgangurinn með þessu hafi verið sá að koma vopnabúnaði þessum undan.

Vélaherdeildir undir flotann

Nú hefur ennfremur komið í ljós að Sovétmenn hugðust undanskilja um 3.500 bryndreka og trúlega um 1.000 skriðdreka með því að fella þrjár vélaherdeildir fótgönguliðsins undir yfirstjórn flotans en til þessa hluta heraflans tekur CFE-sáttmálinn ekki. Það er einkum þetta atriði sem orðið hefur til að vekja efasemdir um heilindi Sovétstjórnarinnar í þessu efni og sú skoðun er almenn á Vesturlöndum að með þessu hafi Sovétmenn gerst sekir um brot gegn ákvæðum samningsins. Frederick Bonnart, ritstjóri og þekktur sérfræðingur á svið öryggis- og varnarmála, segir í grein er nýverið birtist í International Herald Tribune að þetta hafi orðið til að vekja efasemdir um gildi þeirra viðræðna er fram fara nú um fækkun í herjum í Evrópu. Verði blekkingar Sovétmanna liðnar verði þeim gert kleift að halda eftir umtalsverðum herafla í álfunni og það sé augljóslega ekki í samræmi við tilgang samningsins.

Bonnart telur að viðbrögð Sovétstjórnarinnar við ásökunum þessum geti skipt miklu um framhald samskipta austurs og vesturs. Framferði þeirra hafi grafið undan þeirri nýju skipan á vettvangi öryggismála sem unnið hafi verið að á undanförnum fimm árum. Nú vakni sú spurning hvort sovéskir ráðamenn vilji í raun áframhaldandi samvinnu við ríki Vesturlanda í þeim tilgangi að skapa aukið traust í samskiptum austurs og versturs. Leyndarhyggja og pukur geti aldrei orðið til þess að skapa gagnkvæmt traust en sá hafi verið megintilgangur CFE-sáttmálans.

Talið er að ráðamenn innan Rauða hersins hafi látið flytja rúmlega 10.000 sovéska skriðdreka austur fyrir Úralfjöll, sem teljast landfræðileg mörk CFE-sáttmálans um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu.