Eigum ekki að þurfa að búa við öryggisleysi í þessari borg ­ segir Davíð Oddsson "ÞÓTT þessir atburðir, sem gerst hafa, kunni að vera tímabundnir, er full ástæða til að taka þá mjög alvarlega.

Eigum ekki að þurfa að búa við öryggisleysi í þessari borg ­ segir Davíð Oddsson "ÞÓTT þessir atburðir, sem gerst hafa, kunni að vera tímabundnir, er full ástæða til að taka þá mjög alvarlega. Þessir atburðir hljóta að kalla upp öryggisleysi hjá fólki og við eigum ekki að þurfa að búa við öryggisleysi í þessari borg," sagði Davíð Oddsson borgarstjóri þegar leitað var álits hans á löggæslumálum í borginni. "Það er óhjákvæmilegt að bregðast við með aukinni löggæslu og virkari löggæslu. Ég hef heyrt eftir lögreglustjóra að teldi sjálfur að lögreglan hefði ekki verið nógu virk. Hann vildi leggja áherslu á að á því yrði breyting. Borgaryfirvöld hljóta að leggja höfuðáherslu á að við þessari öldu verði brugðist á þann eina máta að styrkja þann mannskap sem á að tryggja það að fólk geti farið óhult um þessa borg," sagði Davíð Oddsson.

"Ég held að meginatriðið sé að átta sig á því að þegar borg er komin í þá stærð sem Reykjavík er komin í, þá þarf að sjá fyrir miklu öruggara eftirlitskefi en nú er. Við sjáum að það er hægt að tryggja slíkt og tekst víða í borgum. Ég nefni til að mynda fjölmenna borg eins og Tókyó, sem er hundraðfalt fjölmennari en Reykjavík. Þar er talið algjörlega öruggt að ganga um hvar sem er að kvöldlagi. Þar er lögregla mjög virk, mjög sjáanleg, staðsett nálægt þeim stöðum þar sem fólk fer um. Ekki endilega fjölmennari en hér en nýtist betur og er virkari en hér. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það væri hugsanlegt að borgin hefði sjálf ákveðna öryggisvörslumenn á sínum snærum sem kæmu til víðbótar hinu venjulega lögregluliði þegar mikið lægi við en það þyrfti væntanlega lagabreytingu til að heimila slíkt."

Davíð Oddsson var spurður álits á þeirri skoðun lögreglustjóra að hefta þyrfti opnunartíma söluvagna í miðborginni til að hindra að fólk safnaðist þar saman fram eftir nóttu. "Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglustjóra en ég get ekki ímyndað mér að menn ráðist frekar á fólk af því að pylsuvagnar séu opnir í borginni," sagði hann.

Sjá bls. 59.