Lísa Yoder: Allar nýjar leiðir eru gleðiefni.
Lísa Yoder: Allar nýjar leiðir eru gleðiefni.
TÍU stúlkubörn frá Kína koma hingað til lands með íslenskum foreldrum sínum á næstunni.

TÍU stúlkubörn frá Kína koma hingað til lands með íslenskum foreldrum sínum á næstunni. Þessir nýju Íslendingar bjuggu á barnaheimilum í fæðingarlandi sínu þar til fyrir nokkrum dögum, að hópur Íslendinga lagði land undir fót og hitti loks langþráð kjörbörn sín. Þá tók við bið sem enn stendur, á meðan gengið er frá ættleiðingum stúlknanna tíu, en á meðan búa þær hjá kjörforeldrum sínum, sem bráðlega halda heim á leið með dæturnar. Þetta eru fyrstu börnin sem ættleidd eru hingað til lands frá Kína, í samræmi við samkomulag íslenska dómsmálaráðuneytisins og kínverska félagsmálaráðuneytisins. Í júlí á síðasta ári var skýrt frá því í Morgunblaðinu að samkomulagið væri í burðarliðnum og þá fylgdi sögunni að mörg kínversk börn biðu ættleiðingar í heimalandi sínu og þetta samkomulag myndi því opna mikla möguleika á ættleiðingum erlendis frá. Önnur Norðurlönd hefðu góða reynslu af samskiptum við Kínverja í ættleiðingarmálum. "Meginreglan verður sú," sagði í fréttinni, "að væntanlegir kjörforeldrar sem vilja ættleiða börn í Kína munu þurfa að fara sjálfir til landsins til að sækja börnin."

Þá var haft eftir Kristrúnu Kristinsdóttur, lögfræðingi á einkamálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, að vinnubrögð í ættleiðingarmálum í Kína væru mjög vönduð og þar væri framfylgt ströngum reglum, m.a. til að koma í veg fyrir greiðslur fyrir börn sem eru ættleidd. "Að undanförnu hafa margir sýnt áhuga á að ættleiða börn frá Kína," sagði í fréttinni.

Félagið Íslensk ættleiðing hefur milligöngu um ættleiðingar erlendis frá, þar á meðal frá Kína, auk þess að sinna fræðslu- og félagsstarfsemi af ýmsum toga. Verðandi foreldrum er t.d. boðið á námskeið, þar sem m.a. er rætt um þá ákvörðun að ættleiða barn, hvers megi vænta og ferðina út til að sækja börnin.

Félagar í Íslenskri ættleiðingu sækja um ættleiðingarleyfi til dómsmálaráðuneytisins. Síðan eru hagir þeirra kannaðir og á grundvelli þeirrar umsagnar tekur ráðuneytið ákvörðun um hvort umsækjendur fái leyfi til að ættleiða barn. Skilyrðin eru meðal annars að fólk sé ekki yngra en 25 ára. Umsækjendur þurfa að búa við fjárhagslegt öryggi og mega ekki vera á sakaskrá vegna alvarlegra brota.

Lísa Yoder, formaður félagsins, segir að félagið sé sífellt að leita nýrra sambanda erlendis, enda séu biðlistar eftir ættleiðingu langir. "Félagið er löggilt til að hafa milligöngu um ættleiðingu barna frá Indlandi og Taílandi, Kína og Kólumbíu. Til skamms tíma ættleiddu íslenskir foreldrar einnig börn frá Rúmeníu, en ættleiðingar barna þaðan hafa verið stöðvaðar, að minnsta kosti tímabundið. Við tókum samkomulaginu við Kína fagnandi, enda hefur fólk verið á biðlista í allt að 1½ til 2 ár áður en upplýsingar berast um barn að utan og allar nýjar leiðir eru gleðiefni."

Félagið Íslensk ættleiðing þarf að uppfylla ákveðin skilyrði dómsmálaráðuneytisins, til að fá starfsleyfi, en að auki þarf félagið að hljóta samþykki þess ríkis, sem ættleiða á frá. "Jafnvel þótt við fáum jákvætt svar frá landi, þá þýðir það ekki endilega að kjörforeldrum séu allar dyr opnar, því kröfurnar sem hvert ríki setur geta gert okkur erfitt um vik," segir Lísa og nefnir Kólumbíu sem dæmi. Reglur stjórnvalda þar gera að verkum að kjörforeldrar verða að dvelja a.m.k. 4 til 6 vikur í landinu þegar þeir sækja börnin sín, auk þess sem gert er ráð fyrir að foreldrar fái börn í samræmi við eigin aldur, þ.e. eftir því sem foreldrarnir eru eldri, þeim mun eldri eru börnin. Flestir vilja hins vegar fá börnin til sín sem allra yngst. Börn frá Indlandi hafa verið innan við eins árs gömul, en frá Rúmeníu hafa þau flest verið um tveggja ára.

Hingað til hafa flest kjörbörn komið frá Indlandi og eru þau orðin hátt á annað hundraðið. Sá hópur skiptist nokkuð jafnt eftir kynjum. Annað er hins vegar uppi á teningnum í Kína, því öll kjörbörnin tíu, sem koma til landsins á næstunni, eru stúlkur. Líklega má rekja það til þeirrar staðreyndar, að þar í landi eru drengir settir skör hærra en stúlkur og þykja því eftirsóknarverðari til ættleiðingar af heimamönnum en stúlkurnar. Því eru yfirgnæfandi líkur á að kjörbörn þaðan verði stúlkur. Íslensku kjörforeldrunum er slétt sama, þeir eru á leiðinni heim með tíu langþráðar prinsessur.

-----

Það var ekki hlaupið að því að fá leyfi til að ættleiða börn frá Kína. Sagan að baki fréttinni í fyrra um samkomulagið við kínverska félagsmálaráðuneytið er löng. "Þetta tók mörg ár," segir Lísa Yoder. "Kínverjar samþykktu ekki að Íslendingar ættleiddu börn þaðan fyrr en íslensku ættleiðingarlögunum var breytt á síðasta ári. Nú er bundið í lög að íslensk stjórnvöld geti viðurkennt ættleiðingar, sem fara fram í öðrum ríkjum. Í Kína er gengið frá ættleiðingunni þar í landi, en kjörforeldrar sem ættleiða börn frá Indlandi taka börnin í fóstur á Indlandi og gengið er frá ættleiðingunni hér á landi."

Þótt Kínverjar hafi ef til vill verið strangir á þessum reglum sínum, þá setja þeir ekkert fyrir sig að heimila einstæðum foreldrum að ættleiða börn, líkt og ýmis önnur ríki gera. Í þeim hópi, sem nú horfir í andakt á nýju dæturnar í Kína, eru nokkrar einstæðar mæður. "Flest ríki heimila einungis ættleiðingar til hjóna en það á ekki við um Kína. Hins vegar hafa þeir takmarkað mjög fjölda einhleypra umsækjenda. Samkvæmt íslenskum lögum geta einstæðir fengið samþykki til að ættleiða undir sérstökum kringumstæðum."

-----

Ríkin, sem nýju Íslendingarnir koma frá, eiga það sammerkt að vilja fylgjast með fyrstu skrefum fyrrverandi þegna sinna í nýju landi. Fyrstu árin eftir að börnin koma hingað til lands eru því sendar skýrslur um gang mála til yfirvalda í Indlandi og Kína, eða hvers þess lands sem börnin koma frá.

Íslensk ættleiðing leggur áherslu á að kjörbörnin fái upplýsingar um uppruna sinn. "Þetta gerist smám saman, eftir því sem þau eldast. Það er hins vegar mjög misjafnt hversu mikinn áhuga þau hafa á að kynna sér nánar þann menningarheim sem þau fæddust inn í. Það verður hver og einn að ákveða þegar hann hefur aldur til. Hins vegar geta börnin sjaldnast haft upp á líffræðilegum foreldrum sínum, því upplýsingar um þá eru oft ekki fyrir hendi."

Lísa segir að Íslendingar standi ágætlega að vígi í ættleiðingum frá útlöndum í samanburði við nágrannaþjóðirnar, þótt við höfum ekki bolmagn til að hafa tengiliði í öðrum löndum, líkt og sumar Norðurlandaþjóðirnar gera. "Það stendur okkur einna helst fyrir þrifum, að kostnaður við að koma á samböndum við önnur ríki um ættleiðingar er töluverður. Félagið fær að vísu greiðslu frá ríkinu og foreldrar greiða einnig fyrir þjónustu félagsins, en við ættleiðingu fellur m.a. til ýmis kostnaður vegna þýðinga á skjölum og fleira í þeim dúr. Félagið er hins vegar aðeins með einn starfsmann, sem oft á tíðum er reyndar mikið meira en fullt starf, og margir vinna sjálfboðastarf."

Allir sem leggja hönd á plóg hjá félaginu eru sjálfir kjörforeldrar, sem hafa þegar fengið börnin sín og vilja leggja sitt af mörkum til að aðrir fái notið sömu gæfu.

-----

Litlu stúlkurnar, sem brátt koma heim til Íslands, eru allar um eins árs gamlar. Þær hafa búið á barnaheimili, en opinber ættleiðingarmiðstöð sér um að hnýta alla lausa enda. Foreldrarnir höfðu fengið upplýsingar um stúlkubörnin sín fyrirfram og séð af þeim myndir.

Lísa efast ekki um að sú stund hafi verið tilfinningaþrungin þegar foreldrarnir héldu í fyrsta sinn á dætrum sínum. Það þekkir hún af eigin raun, enda sótti hún son sinn til Indlands. "Biðtíminn, áður en börnin eru sótt, er eins og meðganga og dálítið sérstakur fyrir hjón að því leyti, að faðirinn gegnir alveg sama hlutverki og móðirin. En auðvitað getur sú "meðganga" í allt að tvö ár reynt á þolrifin."

Ekki er ljóst hvenær næsti hópur kjörforeldra fer til Kína. Lísa segir að töluverður tími geti liðið þangað til. Væntanlegir kjörforeldrar bíða þess án efa óþreyjufullir.

Eftir Ragnhildi Sverrisdóttur