Jóhannes Karl Jia við vinnu sína á Kínversku nuddstofunni, sem hann rekur á Skólavörðustígnum. Hann hefur haft milligöngu um komu fleiri þjálfara til Íslands.
Jóhannes Karl Jia við vinnu sína á Kínversku nuddstofunni, sem hann rekur á Skólavörðustígnum. Hann hefur haft milligöngu um komu fleiri þjálfara til Íslands.
ÍSLENDINGAR og Kínverjar hafa ekki átt mikil samskipti á íþróttasviðinu. Þau eru fyrst og fremst á þá leið að kínverskir þjálfarar hafa verið fengnir hingað til lands til starfa í íþróttagreinum þar sem þeir eru í fremstu röð.

ÍSLENDINGAR og Kínverjar hafa ekki átt mikil samskipti á íþróttasviðinu. Þau eru fyrst og fremst á þá leið að kínverskir þjálfarar hafa verið fengnir hingað til lands til starfa í íþróttagreinum þar sem þeir eru í fremstu röð. Handknattleikur er eina greinin þar sem landslið Íslands og Kína hafa háð alþjóðlega keppni sín á milli og eini íslenski íþróttaflokkurinn sem þangað hefur farið er stúlknalandslið í handknattleik sem tók þátt í heimsmeistarakeppni í Kína fyrir þremur árum.

Þrír kínverskir íþróttaþjálfarar starfa á Íslandi

Um 20 þjálfarar frá Kína hafa starfað hér á landi á undanförnum 15 árum og þjálfað íslenskt íþróttafólk í blaki, badminton, borðtennis, fimleikum og kínverskri leikfimi. Sá fyrsti sem hingað kom, árið 1986, Jóhannes Karl Jia, er hér enn og er orðinn íslenskur ríkisborgari fyrir nokkru. Hann var atvinnumaður og landsliðsmaður í blaki í heimalandi sínu og síðan þjálfari, m.a. stúlknalandsliðs Kína. Fyrir milligöngu hans hafa flestir aðrir kínverskir íþróttaþjálfarar komið hingað til lands, en yfirleitt hafa þeir horfið aftur til síns heima eftir eitt til þrjú ár. Nú eru þeir aðeins þrír, auk Jóhannesar hefur Jónas Huang badmintonþjálfari sest hér að og einn kínverskur borðtennisþjálfari, Hu Dao Ben, starfar hjá Víkingi um þessar mundir.

Ánægjan í fyrirrúmi á Íslandi fremur en aginn

Jóhannes Karl sagði við Morgunblaðið að hann væri sannfærður um að kínverskir þjálfarar hafi haft góð áhrif á íslenskt íþróttalíf. "Ég tel að þeir hafi fyrst og fremst skilið eftir sig mikla þekkingu, sem þeir hafi komið áleiðis til íslenskra íþróttamanna og þjálfara og þannig komið fjölmörgum til góða. Á meðan ég þjálfaði blak á fullu, hjá mörgum félögum hér á landi, þjálfaði ég samtals um tvö þúsund manns. En það er gífurlegur munur á því að þjálfa í Kína og á Íslandi og það var erfitt að laga sig að því til að byrja með. Umhverfið er svo gjörólíkt og áherslurnar allt aðrar. Í Kína byggist allt upp á aga og harðri keppni en hér á Íslandi er ánægjan af íþróttaiðkuninni í fyrirrúmi. Íslendingar hafa gaman af því að stunda íþróttir og keppnin sem slík er númer tvö."

Kínverskir þjálfarar sem komið hafa til Íslands eru mikið menntaðir. Jóhannes Karl segir að læknisfræði og sjúkraþjálfun séu hluti af námi íþróttaþjálfara í Kína, því sú krafa sé gerð til þeirra að geta meðhöndlað sjálfir strax þá sem verða fyrir meiðslum í æfingum og keppni undir þeirra stjórn, og kennt hvað hægt sé að leggja á sig og hvað ekki. Heildarmenntun þeirra sé því mun meiri en gengur og gerist hjá þjálfurum annars staðar.

Höfðu mikil áhrif á borðtennisáhuga

Sá kínverski íþróttaflokkur sem mesta athygli hefur vakið hér á landi er án efa landslið þjóðarinnar í borðtennis sem kom hingað í sýningarheimsókn árið 1973. "Kínverjarnir léku listir sínar í troðfullri Laugardalshöllinni og sýndu víðar á suðvesturhorninu. Áhrifin sem þetta hafði á borðtennisíþróttina á þessum tíma voru gífurleg og hún blómstraði í kjölfarið," sagði Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ og keppnismaður í borðtennis um árabil.

Forystumenn íþróttamála í Íslandi og Kína hafa einu sinni hist opinberlega. Það var árið 1999 þegar forseti kínversku ólympíunefndarinnar kom hingað til lands í þriggja daga heimsókn ásamt mörgum hátt settum fulltrúum. Þeir funduðu með forystumönnum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, héldu blaðamannafund og skoðuðu íslensk íþróttamannvirki og kynntu umsókn Peking um Ólympíuleikana árið 2008.

Í öðrum greinum hafa samskipti þjóðanna ekki verið mikil. Helst í handknattleik þar sem Íslendingar og Kínverjar hafa nokkrum sinnum tekist á í landsleikjum og hafa Íslendingar ætíð haft betur. Síðast áttust þjóðirnar við á alþjóðlegu móti í Hiroshima í Japan fyrir fjórum árum og þá sigraði Ísland, 29:19. Þar á undan komu Kínverjar í heimsókn til Íslands í aprílbyrjun 1997 og mættu íslenska liðinu tvisvar í vináttuleikjum, á Ísafirði og á Selfossi. Íslendingar sýndu litla gestrisni og unnu tvo stóra sigra. Sá síðari, á Selfossi, var sögulegur að því leyti að þá setti Gústaf Bjarnason markamet sem enn stendur en hann skoraði þá 21 mark gegn Kínverjunum.

Stúlknalandsliðið í handknattleik sem heimsótti Kína í ágúst 1999 dvaldi í tvær vikur í suðurhluta landsins, í nágrenni Hong Kong, og tók þar þátt í úrslitakeppni heimsmeistaramóts 20 ára og yngri. "Kínverjarnir voru mjög góðir heim að sækja, hugsuðu vel um okkur og allt skipulag var eins og best verður á kosið. Þetta var afar skemmtileg ferð í alla staði," segir Helga Magnúsdóttir, sem var fararstjóri í ferðinni.

Knattspyrnumenn spiluðu með kínversku liði

Einu íslensku íþróttamennirnir sem hafa verið búsettir í Kína og stundað þar íþrótt sína eru knattspyrnumennirnir Eysteinn Hauksson og Vilhjálmur R. Vilhjálmsson. Þeir fóru í byrjun þessa árs til borgarinnar Zhaoqing í Guangdong-héraði í suðurhluta Kína og léku þar með liðinu Xiang Xue í úrvalsdeildinni í Hong Kong í nokkra mánuði.