Wang Ronghua, sendiherra Kína í Reykjavík, við eigið ljóð um Gullfoss.
Wang Ronghua, sendiherra Kína í Reykjavík, við eigið ljóð um Gullfoss.
Wang Ronghua, sendiherra Kína á Íslandi, segir að heimsókn Jiang Zemin, forseta Kína, til Íslands sé mikilvægt skref í samskiptum þjóðanna. Steinþór Guðbjartsson drakk te með sendiherranum og spjallaði við hann um heimsóknina og fleira.

LJÓÐ eftir Wang Ronghua, sendiherra Kína á Íslandi, skrautrituð á kínversku af honum sjálfum, prýða veggi kínverska sendiráðsins við Víðimel í Reykjavík og í nýlegum kínverskum menningartímaritum gefur að líta fjölmörg ljóð, sem hann hefur ort um ýmsa viðburði og staði á Íslandi sem hann hefur heillast af síðan hann kom hingað til lands fyrir um fjórum árum. Á heimasíðu sendiráðsins býður hann Íslendinga velkomna og leggur áherslu á mikilvægi samskipta með tilvitnun í Hávamál og Jiang Zemin, forseta Kína, en hann segir að fyrsta heimsókn forsetans til Íslands marki tímamót. Um sé að ræða mjög merkilegan pólitískan viðburð.

"Þessi viðburður sýnir að Kína lítur á Ísland sem jafningja í hinu alþjóðlega umhverfi og heimsóknin er ekki aðeins liður í að efla stjórnmálalegt samstarf þjóðanna heldur líka hvað varðar viðskipti, menningu, menntun og önnur svið. Heimsóknin er mikilvægt skref í samskiptum Kína við Evrópu."

Wang Ronghua segir að hnattvæðingin eflist stöðugt, en Kína virði vilja hverrar þjóðar og allar þjóðir heims eigi að leysa vandamál sín í sameiningu. Kína hvetji til lýðræðis í samskiptum þjóðanna, virða beri mismunandi stjórnkerfi og styðja veröld fjölbreytninnar. "Með þeim hætti verður lífið auðugt í margbreytileika sínum," segir hann og bætir við að heimsóknin sé liður í því að gera heiminn betri.

Sendiráðið í Peking mikilvægt

Sendiherrann rifjar upp að nokkur samskipti hafi átt sér stað milli Kínverja og Íslendinga áður en stofnun stjórnmálasambands komst á 8. desember 1971. Í því sambandi nefnir hann að Íslendingar hafi heimsótt Kína á sjötta og sjöunda áratugnum og hitt helstu ráðamenn þjóðarinnar. Undirbúið þannig jarðveginn fyrir það sem síðar hafi orðið.

Wang Ronghua segir að stofnun sendiráðsins í Reykjavík 1972 hafi orðið til að efla samskipti og gagnkvæman skilning. Sendiráðsmenn voru 15 til 18 að meðaltali á ári, en 1983 ákváðu Kínverjar að sendiherra þeirra í Kaupmannahöfn skyldi jafnframt vera sendiherra gagnvart Íslandi og var sendiráðsmönnum fækkað í 5 til 6 á ári. Þetta var gert í sparnaðarskyni. Sendifulltrúar stjórnuðu sendiráðinu í Reykjavík fram í desember 1995, en eftir að íslenskt sendiráð hafði verið opnað í Peking ákváðu Kínverjar að sendiherra þeirra á Íslandi yrði búsettur hér á landi.

Wang Ronghua segir að stofnun íslenska sendiráðsins í Peking hafi haft mjög mikið að segja í samskiptum þjóðanna og spilað stórt hlutverk í samvinnunni. Íslendingar hafi tengst beint ríkisstjórn Kína og sérstaklega utanríkisráðuneytinu. Upplýsingaflæðið á milli þjóðanna hafi orðið auðveldara en áður, viðræður hafi aukist og menn getað rætt málin og skipst á skoðunum án vandkvæða. Þetta hafi auðveldað Íslendingum að kynna Ísland í Kína enda hafi þeir komist í beint samband við Kínverja á ýmsum sviðum, ekki síst á viðskiptasviðinu, en skilningur á kínverska markaðnum hafi haft mikið að segja varðandi viðskiptin.

Í máli sendiherrans kemur fram að samskipti Kína og Íslands séu mjög mikilvæg og þjóðirnar hafi stutt hvor aðra á alþjóðlegum vettvangi. Rödd Íslands skipti máli í alþjóðlegum málum og það séu ekki aðeins valdamestu menn þjóðarinnar sem láti í sér heyra heldur vegi aðrir þungt, t.d. í sjávarútvegi, listum og iðnaði, auk þess sem menningararfleifðin leggi sitt á vogarskálarnar. Kínverjum hafi þótt ánægjulegt að koma íslenskum bókmenntum á framfæri í Kína og vonandi tækist að gera kínverskum bókmenntum sömu skil á Íslandi. Yfir 50 kínverskir verkfræðingar hafi sótt jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi og Kínverjar hafi tekið að sér skipasmíðar fyrir Íslendinga.

Björt framtíð

Wang Ronghua segir að heimsókn forsetans færi þjóðirnar nær hvora annarri og verði vonandi til þess að þær skilji hvor aðra enn betur. Ljóst sé að heimsóknin fái mikla umfjöllun í fjölmiðlum í Kína og þar með verði mikið fjallað um Ísland og íslensk málefni. Í Kína séu um 800 sjónvarpsstöðvar og mikill fjöldi dagblaða auk þess sem meira en 10 milljónir manna fylgist með á Netinu. "Ísland verður sýnt frá mörgum hliðum sem verður til þess að æ fleiri Kínverjar fá áhuga á landinu og fólkinu, sem eflir vonandi viðskipti þjóðanna og öll samskipti á mörgum sviðum. Framtíðin er því björt."

Yrkir ljóð um Ísland

Sendiherrann gat þess skömmu eftir komuna til Íslands að hann vonaðist til að geta gefið sér tíma til að sinna ljóðagerðinni og skrautskriftinni en það hefur ekki gengið alveg eftir. "Vandamálið hvað þetta varðar er að ég hef haft nóg að gera í sendiherrastarfinu og því ekki getað sinnt áhugamálunum eins mikið og ég hefði viljað," segir hann, en bætir við að um 20 ljóð eftir sig hafi bæst í safnið síðan hann kom til Íslands fyrir rúmlega fjórum árum. Hann hefur lagt sig fram um að kynnast landi og þjóð og hefur ferðast vítt og breitt um landið í þeim tilgangi. "Á þessum ferðum fæ ég oft hugljómun en ég hef ekki tíma til að koma hugsununum á blað og skáldkrafturinn hverfur. Í þessu sambandi get ég nefnt að skammt frá Þingvöllum er fjall og þegar horft er á það frá ákveðnu sjónarhorni má sjá liggjandi konu. Í hvert sinn sem ég sé þessa konu langar mig til að skrifa um hana en ég hef ekki enn komið því í verk vegna anna. Hún er í huga mínum en ég finn ekki kraftinn til að yrkja um hana ljóð. Ekki enn en vonandi seinna."

steg@mbl.is