Skipulögð menningartengsl Íslands og Kína eiga sér hálfrar aldar sögu. Bergþóra Jónsdóttir ræðir hér við íslenska listamenn, sem hafa heimsótt Kína, og Arnþór Helgason, formann Kínversk-íslenska menningarfélagsins

SAMSKIPTI Kínverja og Íslendinga í menningu og listum hafa vaxið mjög á liðnum árum. Saga þessara samskipta nær kannski ekki langt aftur í tímann, en hefur þó einkennst af því að þjóðirnar hafa miðlað hvor annarri mörgu markverðu úr menningu hvorrar um sig. Kínverskir listamenn hafa sótt okkur heim, einkum tónlistarmenn og myndlistarmenn, og þar er fjölbreytnin mest. Tvær stórar sýningar með kínverskri myndlist hefur rekið á fjörur Íslendinga á þessu ári, og á liðnum árum hafa kínverskir listamenn sem búsettir eru hér á landi sýnt verk sín í galleríum og myndlistarsölum í Reykjavík. Kínverskir tónlistarhópar hafa margsinnis sótt okkur heim og leikið þjóðlega tónlist heimalands síns. Kínversk-íslenska menningarfélagið hefur staðið fyrir heimsóknum flestra þessara hópa. En kínversk menning hefur líka leitað hingað eftir öðrum leiðum. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur boðið til sín bæði einleikurum og hljómsveitarstjórum frá Kína, og hljómsveitin hefur efnt til kínverskra tónleika og leikið verk þekktra núlifandi tónskálda frá Kína. Kínverskar bókmenntir hafa líka átt vinsældum að fagna á Íslandi og nægir þar að nefna metsöluskáldin Jung Chang höfund Villtra svana og Amy Tan höfund Konu eldhússguðsins og Dóttur beinagræðarans. Kínverskar kvikmyndir hafa líka borist hingað til lands, og er skemmst að minnast myndar Ang Lees, Krjúpandi tígurs, dreka í leynum sem vakti mikla athygli. Árið 1999 var efnt til kínverskrar kvikmyndaviku og ljósmyndasýningar í Reykjavík í tilefni af hálfrar aldar afmæli kínversku byltingarinnar, en sá viðburður var skipulagður af Kínversk-íslenska menningarfélaginu.

Á kínaskóm í mussu

Þegar leitað er lengra til baka má finna að þræðir kínverskrar menningar hafa spunnist hingað á ýmsan hátt, jafnvel í fatnaði. Á hippatímanum var kragasnið sem gengur undir nafninu "mandarín" í alþjóðlegum fataiðnaði það allra vinsælasta og mussur í kínverskum stíl með mandarínkraga, eða kínakraga eins og hann var líka kallaður, voru vinsælar flíkur. Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar komu svo kínaskórnir til landsins og ungar stúlkur klæddust þessum svörtu þunnbotna tauskóm með ristarbandi við hvaða tækifæri sem var. Heilu kínaskórnir komu örlítið síðar og voru notaðir bæði af kvenfólki og karlmönnum. Fyrir örfáum árum dúkkuðu kínverska fatatískan og mandarínkragarnir aftur upp á yfirborðið hér á landi í fallegum og litríkum silkikjólum í kínverskum sniðum með skáhnepptu berustykki. Þetta var alþjóðleg tíska, og ekki að því að spyrja að hún varð vinsæl hér.

Sennilega er það þó kínversk matarmenning sem mest áhrifin hefur haft á íslenskt samfélag. Með komu flóttamanna frá Víetnam, sem sumir hverjir voru af kínverskum ættum, og auknum straumi fólks frá Asíu hingað til lands, hefur veitingahúsum sem bjóða upp á kínverskan mat fjölgað svo um munar. Kínverskur matur eldaður á íslenska vísu er varla nokkrum Íslendingi framandi lengur og kínversk matargerð hefur skotið föstum rótum hér á landi.

Það er af sem áður var, þegar sú mynd sem fólk hafði af Kína voru vestrænar klisjur eins og þær sem maður sá í bíómyndum eins og Tískudrósinni Millí með Julie Andrews: þvottahús, flugeldaverksmiðjur og reykmettuð ópíumgreni. En fleiri angar kínverskrar menningar hafa teygt sig hingað til lands. Það eru þeir sem snúa að heilsu og heilsurækt. Kínverskir nuddarar og hnykklæknar hafa stundað störf sín hér á landi í þónokkurn tíma og kínversk leikfimi á talsverðum vinsældum að fagna. Nýverið var til að mynda formlega stofnað félag Qi Gong iðkenda hér á landi undir forystu Gunnars Eyjólfssonar leikara, sem hefur iðkað og kennt Qi Gong á Íslandi í mörg ár. Leikfimin er bæði andleg og líkamleg og er upprunnin í Kína fyrir meir en 2000 árum.

Menning Kínverja og Íslendinga blandast líka blóðböndum. Fyrir skemmstu komu hingað til lands tíu lítil börn frá Kína, ættleidd af íslenskum foreldrum.

Íslendingasögurnar og Strax

En hvað er það sem við höfum sýnt Kínverjum í heimsóknum okkar til Kína, og hvaða sneiðar íslenskrar menningar hafa verið bornar á borð þar? Fiskur og lýsi eru þar að líkindum í efsta sæti, en íslenskir listamenn hafa í æ ríkari mæli heimsótt Kína á síðustu árum. Það sætti tíðindum er Karlakór Reykjavíkur fór í tónleikaferð til Kína árið 1979 fyrstur íslenskra hópa, en þá voru ferðir Íslendinga þangað enn fátíðar. Síðan þá hafa bæði myndlistarmenn og tónlistarmenn heimsótt landið og kynnt Kínverjum íslenska menningu. Íslenskar bíómyndir hafa verið sýndar í Kína; fyrir tveimur árum voru Íslendingasögurnar gefnar út á kínversku og ekki er langt síðan skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Englar alheimsins, kom út þar í landi. Árið 1997 var ópera Atla Heimis Sveinssonar, Tunglskinseyjan, flutt í Kína, og hlýtur það að teljast til stærstu menningarvitjana Íslendinga á kínverskri grund. Ein mesta frægðarför íslenskra listamanna til Kína var árið 1986 þegar Stuðmönnum, undir nafninu Strax, var boðið í opinbera heimsókn til landsins. Það þótti líka fréttnæmt þegar Kristján Jóhannsson söng í óperu Puccinis, Turandot, í Forboðnu borginni í Peking.

begga@mbl.is