NÝVERIÐ var gengið formlega frá samkomulagi milli Fróðskaparseturs Færeyja, annars vegar og lagadeildar Háskóla Íslands hins vegar um samstarf og aðstoð við uppbyggingu og þróun kennslu í lögfræði við Fróðskaparsetrið.

NÝVERIÐ var gengið formlega frá samkomulagi milli Fróðskaparseturs Færeyja, annars vegar og lagadeildar Háskóla Íslands hins vegar um samstarf og aðstoð við uppbyggingu og þróun kennslu í lögfræði við Fróðskaparsetrið.

Af hálfu Fróðskaparseturs er áformað að bjóða upp á grunnnámskeið í lögfræði, sem samsvari hálfu ársverki fyrir nemendur og jafnframt að taka upp meistaranám í sérfæreyskri lögfræði. Gert er ráð fyrir að meistaranámið verði ársnám, sem fullt nám, fyrir þá sem lokið hafa kandídatsprófi í lögfræði og jafnframt fyrir aðra, er lokið hafa háskólanámi. Lögfræðikennslan mun fara fram innan sögu- og samfélagsdeildar Fróðskaparsetursins.

Lögfræði hefur ekki verið kennd í Færeyjum en allmargir Færeyingar hafa lokið laganámi í Kaupmannahafnarháskóla. Er hinni nýju námsleið ekki ætlað að koma í stað reglulegs háskólanáms í lögfræði til kandídatsprófs.

Lagadeild Háskóla Íslands leggur fram aðstoð við að skipuleggja grunnnámskeið og meistaranám í færeyskri lögfræði og veitir ráðgjöf um kennslu og prófkröfur eftir nánara samkomulagi. Líklegt er að einhverjir kennarar frá lagadeild muni taka þátt í kennslu við Fróðskaparsetrið, eftir að lögfræðináminu hefur verið komið á. Þá mun lagadeild einig taka við færeyskum nemendum í meistaranámi í lögum, er kjósa að ljúka hluta þess á Íslandi, en samstarfið er einnig gagnkvæmt eftir því sem við getur átt.

"Lagadeild væntir góðs af þessu samstarfi, en ætla verður að kennsla í færeyskum lögum og öðrum sviðum lögfræðinnar, sem Færeyingar leggja sérstaka áherslu á, verði til mikils gagns fyrir færeyska menningu og þjóðlíf á komandi árum," segir í fréttatilkynningu frá lagadeild HÍ.