Sverrir Leósson
Sverrir Leósson
Ég var ekki að biðja bæjarstjórann um kennslustund í dýrafræði, segir Sverrir Leósson. Ég vil fá skiljanleg svör við einföldum spurningum.

"ORÐHÁKURINN" frá Dalvík, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, heldur áfram að senda mér tóninn á síðum Moggans og enn er það falskur tónn.

"Sumum finnst gott að berja hausnum við steininn. Ekki mér," segir Kristján í upphafi síðustu greinar. Þetta kalla ég ánægjuleg tíðindi og vita þau væntanlega á það, að Kristján hætti þessari sjálfpíningu og taki rökum. Þá þarf hann ekki lengur að berja hausnum við steininn, eins og hann hefur gert í Moggagreinum að undanförnu. Hann gæti byrjað á því að svara þeirri einföldu spurningu hvers vegna hann gekk framhjá Oddi Helga Halldórssyni og hans fólki á L-listanum við myndun meirihuta. Hvers vegna kaus hann fremur að stökkva upp í bólið með Framsókn? Var það skipun "að ofan", ef til vill frá einhverjum ráðherra í núverandi ríkisstjórn? Hvað sem Kristján segir, þá er það ískaldur raunveruleiki, að það var Oddur Helgi sem stóð uppi sem sigurvegari þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum. Hann fékk nær fimmtung atkvæða bæjarbúa. Ég veit ósköp vel að það er ekki meirihluti, en skýlaus vilji kjósenda um ferska vinda inn í stjórnkerfi bæjarins. Ég veit líka ósköp vel, að sjálfstæðismenn og Framsókn hafa meirihluta kjósenda á bak við sig, þótt báðir flokkar hafi tapað fylgi í síðustu kosningum. En ég er líka viss um, að meirihluti þeirra kjósenda er ekki sáttur við vinnubrögð Kristjáns og Jakobs Björnssonar við myndun meirihluta að kosningum loknum. Raunar var tæpast á óánægjuna með Jakob bætandi, þar sem hátt á annað hundrað kjósendur Framsóknar strikuðu hann út af listanum. Það er því alls ekki sjálfgefið, að meirihluti kjósenda standi á bak við þann nýja meirihluta, sem tekur við völdum í dag (þriðjudag).

Ég kaus Kristján og hans menn þegar kosið var í bæjarstjórn Akureyrar á dögunum, enda tel ég hann hafa staðið sig um margt vel sem bæjarstjóri. Hins vegar þýðir það ekki, að ég sitji þegjandi undir öllu því sem hann og þjónalið hans hjá Sjálfstæðisflokknum bera á borð fyrir bæjarbúa milli kosninga. Slík þögn er þó slæmur siður margra "trúmanna" í Sjálfstæðisflokknum, þótt þeir hugsi sitt.

Ég tel það hins vegar sjálfsagða kurteisi að slíkum aðfinnslum, settum fram á málefnalegan hátt, sé svarað með rökum og kurteisi, í það minnsta þegar bæjarstjórinn okkar á í hlut. Ég var ekki að biðja Kristján um kennslustund í dýrafræði, eins og hann bauð upp á í síðustu Moggagrein, ég vil einungis fá skiljanleg svör við einföldum spurningum. Kristján Þór ber saman héra og skjaldböku og telur næsta víst, að hérinn hefði betur í kapphlaupi, jafnvel þótt skjaldbakan bætti sig! Kristján sér sjálfan sig ef til vill í ham hérans og mig eða Odd Helga sem skjaldböku. Ég veit að hérinn fer hratt yfir, tekur jafnvel "hérastökk", þannig að tilviljun ein ræður stefnu og áfangastað. Þar að auki er hann ekki sagður kjarkmikill þegar á reynir; er sagður með "hérahjarta" blessaður. Skjaldbakan kemst hins vegar þangað sem hún ætlar sér; kemst þótt hægt fari. Hún hefur fjögur ár til ferðarinnar; fram að næstu kosningum. Þá er ekki víst, að Oddur Helgi þurfi á Sjálfstæðisflokknum að halda til að mynda meirihluta. Famsókn reynist þér því ef til vill skammgóður vermir Kristján minn. Ég bið þig þó vel að lifa, en verði þér "maddaman" að góðu.

Höfundur er útgerðarmaður.