Leiðbeiningum Falun Gong-iðkandans Shean Lin fylgt á hlaði Njarðvíkurskóla í gærkvöldi.
Leiðbeiningum Falun Gong-iðkandans Shean Lin fylgt á hlaði Njarðvíkurskóla í gærkvöldi.
Á ANNAÐ hundrað manns safnaðist saman til friðsamlegra mótmæla fyrir utan Njarðvíkurskóla í gærkvöldi. Vildi fólkið sýna stuðning þeim 26 iðkendum Falung Gong sem gist höfðu skólann frá hádegi í vörslu lögreglu.
Á ANNAÐ hundrað manns safnaðist saman til friðsamlegra mótmæla fyrir utan Njarðvíkurskóla í gærkvöldi. Vildi fólkið sýna stuðning þeim 26 iðkendum Falung Gong sem gist höfðu skólann frá hádegi í vörslu lögreglu. Þorri mótmælenda hafði safnast saman við Perluna í Reykjavík og ekið þaðan í bílalest til Reykjanesbæjar, en boðað hafði verið til fararinnar í gegnum tölvupóst og Netið. Fólkið ræddi við lögreglu, sem vaktaði dyr skólans, og bað um leyfi til inngöngu. Var engum hleypt inn, en einum fulltrúa Falun Gong-hópsins, Shean Lin, var hins vegar heimilað að koma út og hitta fólkið á hlaði skólans. Hann þakkaði stuðninginn og leiddi fólkið í gegnum æfingaröð kennda við Falun Gong, auk friðarþagnar. Að loknum kínverskum söng dreifði hann kynningarefni um Falun Gong og kvaddi. Mótmælendur lýstu furðu sinni og vanþóknun á innilokun fólksins við Óskar Þórmundsson, varðstjóra. Varðstjóri sagði að fólkinu liði vel og hafnaði fullyrðingum um að það væri í fangelsi; tæknilega séð væri það ekki komið inn í landið og væri því "í takmarki" þar til fyrirmæli bærust frá íslenskum stjórnvöldum um annað.