[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FILMUNDUR er kominn í sjóðandi sumarskap og verður á léttu nótunum á næstunni. Nú mun hann sýna hina ágætu Wayne's World frá 1992 sem margir minnast eflaust með með bros á vör.

FILMUNDUR er kominn í sjóðandi sumarskap og verður á léttu nótunum á næstunni. Nú mun hann sýna hina ágætu Wayne's World frá 1992 sem margir minnast eflaust með með bros á vör.

Eins og kunnugt er byggist Wayne's World á atriðum úr Saturday Night Live-þáttunum sem njóta mikilla vinsælda í Bandaríkjunum. Wayne's World skaut leikaranum Mike Myers rækilega upp á stjörnuhimininn, en hann er sjálfsagt ekki síst þekktur þessa dagana fyrir túlkun sína á Austin Powers.

Wayne's World fjallar um vinina Wayne Campbell og Garth Algar sem senda út sjónvarpsþátt frá heimili Waynes, en hann býr í kjallaranum hjá foreldrum sínum. Þeir taka viðtöl við undarlegt fólk og fjalla um áhugamál sín, en ofurmyndarlegt kvenfólk er þar ofarlega á blaði. Viðskiptajöfur nokkur rekst á þáttinn þeirra af tilviljun og sér að hann muni geta notfært sér hugmyndina að honum í gróðaskyni. Hann reynir að blekkja þá Wayne og Garth til þess að taka þátt í áætlunum sínum, með því að lofa þeim gulli og grænum skógum. Þeir eru tregir til, en láta blekkjast um tíma, enda er draumurinn um frægð og frama ávallt freistandi. Um tíma lítur út fyrir að mál muni enda með ósköpum hjá þeim félögum, en allt fer að sjálfsögðu vel að lokum.

En söguþráður Wayne's World eru auðvitað ekki aðalatriðið, heldur húmorinn og framsetningin á honum. Um svipað leyti og Wayne og Garth voru málið komu upp fleiri myndir með álíka áherslur sem urðu vinsælar, til dæmis myndirnar um Bill og Ted, sem eru álíka lúðar. Ákveðnir síendurteknir frasar og hegðun eru hornsteinar þessara mynda, ekki ólíkt því sem gerist í myndunum um spæjarann Austin Powers, og þegar vegur þeirra var sem mestur voru frasarnir á hvers manns vörum. Það er því ekki að ástæðulausu að myndirnar um Wayne eru meðal vinsælli gamanmynda síðasta áratugar og ekki spillir fyrir að húmorinn hefur elst glettilega vel og gæti allt eins verið í hávegum í spánýrri sumarmynd.

Filmundur verður í hæga gírnum á næstunni og mun því sýna Wayne's World í tvær vikur. Hún verður sýnd í kvöld kl. 20:00, á morgun kl. 22:30, sunnudaginn 16. júní kl. 18:00, mánudaginn 17. júní kl. 22:30, miðvikudaginn 19. júní kl. 20:00, fimmtudaginn 20 júní kl. 22:30, sunnudaginn 23. júní kl. 18:00 og mánudaginn 24 júní kl. 22:30.