Sunleif Rasmussen
Sunleif Rasmussen
SUNLEIF Rasmussen tónskáld frá Færeyjum hreppir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir verk sitt Sinfóníu nr. 1 - Oceanic Days.

SUNLEIF Rasmussen tónskáld frá Færeyjum hreppir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir verk sitt Sinfóníu nr. 1 - Oceanic Days. Þetta er í fyrsta sinn sem færeyskt tónskáld hreppir verðlaunin, og í fyrsta sinn sem tónskáld frá sjálfstjórnarsvæðum Norðurlandanna fær þau. Verðlaunin eru 350.000 danskar krónur, eða um fjórar milljónir íslenskar, en verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Norðurlandaþingi í Helsinki 29. október í haust um leið og 50 ára afmæli Norðurlandaráðs verður fagnað.

Sinfónía Rasmussens er fyrsta sinfónían samin af Færeyingi og var verkið frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands í Norðurlandahúsinu í Færeyjum 1. apríl árið 2000. Sinfóníuhljómsveit Íslands var þá í tónleikaferð í Færeyjum og léku færeyskir tónlistarmenn með hljómsveitinni. Það er í fyrsta og eina skiptið sem sinfónía Sunleifs Rasmussens hefur verið leikin á tónleikum. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars um verkið: "Sunleif Rasmussen hefur nú sett Færeyjar á tónlistarkortið á sama hátt og William Heinesen gerði áður í bókmenntunum. Verk hans, Sinfónía nr. 1 - Oceanic Days, sem er fyrsta færeyska sinfónían, sækir innblástur sinn í færeyska náttúru en jafnframt í forn færeysk sálmalög. Úr þessu hefur Sunleif Rasmussen skapað verk sem spannar vítt svið, þar sem listrænn heiðarleiki er sjálfsagður og augljós, og sem er hnitmiðað og vel uppbyggt, en inniheldur um leið ljóðræna tilfinningu."

Hlustendurnir eins og eyjar í hafi tónlistarinnar

Sunleif Rasmussen sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sig hefði lengi langað til að semja stórt hljómsveitarverk á borð við sinfóníu.

"Forstöðumaður Norðurlandahússins í Þórshöfn spurði mig hvort ég vildi ekki semja stórt hljómsveitarverk fyrir fimmtán ára afmæli hússins. Þá hugsaði ég með mér að nú væri kominn tími til að semja sinfóníu. Þetta er ástæðan fyrir því að ég lagði í að semja svona stórt verk. Það krefst níutíu manna hljómsveitar, ég er með tvo slagverksleikara baksviðs og tvo hljóðgervla, annan magnaðan upp með hátalara. Ég vildi ekki beinlínis hafa þetta prógrammúsík, en hún átti að tengjast á einhvern hátt upplifun fólks hér í Færeyjum. Við búum hér á þessum litlu eyjum umlukt hafinu og mér fannst eins og þeir sem hlusta á verkið ættu að vera eins konar eyjur umluktar tónlistinni. Þetta var hugmyndin sem ég vann út frá."

Sunleif segist mjög ánægður með að það hafi verið Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutti verkið. "Það var Helga Hjörvar forstöðumaður Norðurlandahússins sem kom því til leiðar að hljómsveitin kom hingað og flutti verkið, og það gladdi mig mjög. Samvinna okkar þjóðanna hér í Norður-Atlantshafinu er mjög mikilvæg. Reyndar hef ég átt afskaplega góða samvinnu við íslenska tónlistarmenn og hef unnið mikið með Caput, sem er að hljóðrita kammerverk mín til útgáfu. Annars eigum við litla sinfóníuhljómsveit hér í Færeyjum að stórum hluta skipaða atvinnufólki, og eigum líka góðan kammerhóp, Aldubáruna, sem hefur spilað á Íslandi. Þetta kemur smám saman hjá okkur, en við erum svolítið á eftir ykkur á Íslandi. Ég hef oft sagt að ég sé Færeyjum það sem Jón Leifs var Íslandi. Ég er fyrsta færeyska tónskáldið sem sækir framhaldsmenntun í tónsmíðum til útlanda, og þess vegna er ég sérstaklega ánæður með þessa viðurkenningu í dag. Ég var að skoða norræna tónlistartímaritið Nordic Sounds, og þar er umfjöllun um þau tónskáld sem hafa hreppt þessi verðlaun á undan mér. Þar eru mörg stór nöfn og ég er mjög stoltur af því að vera í þeirra hópi. Ég er viss um að með verðlaununum á nafn mitt eftir að verða þekktara með tímanum."

Sunleif Rasmussen sinnir nær eingöngu tónsmíðum, en stundar þó enn lítillega kennslustörf. Hann er eftirsótt tónskáld, og hefur tónsmíðaverkefni langt fram í tímann. "Ég er að semja fyrir Kammerkór Danska útvarpsins og það er búið að panta hjá mér verk fyrir annan danskan kammerhóp. Ég hef líka verið beðinn um að semja kammeróperu fyrir Norðurlandahúsið í Færeyjum. Ég held að þetta verði jafnframt fyrsta óperan sem sett verður upp í nýju Þjóðleikhúsi sem Landstjórnin hefur ákveðið að byggja. Ég verð upptekin af þessari vinnu næstu tvö árin. Ég hef nóg að gera, það er öruggt."

Tveir geisladiskar með verkum Sunleifs Rasmussens koma á markað á árinu. Á öðrum þeirra leikur Caput kammerverk eftir hann, en á hinum leikur Konunglega danska óperuhljómsveitin, Den Kongelige Kapel, meðal annars verðlaunaverkið, Sinfóníu nr. 1 - Oceanic Days. "Þetta með sinfóníuna er nokkuð sem er verið að ákveða þessa dagana, og það á eftir að hljóðrita verkin. Ég vona þó að diskurinn verði tilbúinn fyrir verðlaunaathöfnina í haust eins og Caputdiskurinn."