Í Morgunblaðinu sl. laugardag birtist frétt um umræður í Danmörku og Svíþjóð um einkarekstur inni á sjúkrahúsum, þ.e. á einstökum sjúkradeildum.

Í Morgunblaðinu sl. laugardag birtist frétt um umræður í Danmörku og Svíþjóð um einkarekstur inni á sjúkrahúsum, þ.e. á einstökum sjúkradeildum. Umræður þessar eru sprottnar af tilraunum sem Svíar eru að gera með að bjóða út rekstur einstakra sjúkradeilda inni á spítölunum og eru slysadeildir nefndar sérstaklega í því sambandi.

Þær umræður, sem fram hafa farið hér á Íslandi um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, hafa fyrst og fremst snúizt um allt annað. Þær hafa beinzt að því að byggja upp einkarekinn valkost utan sjúkrahúsanna. Sú leið vex mörgum í augum vegna hins mikla fjárfestingarkostnaðar, sem slíku mundi fylgja. Að vísu er það svo, að nú þegar eru ýmsar aðgerðir, sem áður voru eingöngu framkvæmdar á sjúkrahúsum, orðnar að veruleika á læknastofum utan sjúkrahúsanna.

Sú hugmynd, að hið opinbera bjóði út rekstur ákveðinna sjúkradeilda inni á sjúkrahúsum, er mjög athyglisverð og æskilegt að fram fari umræður um hana hér á landi.

Það er í fyrsta lagi ljóst, að það yrði mun auðveldara fyrir hóp lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna að mynda samtök um að bjóða í slíkan rekstur, þegar ekki þyrfti að leggja út í miklar fjárfestingar heldur væri um að ræða útleigu á húsnæði og tækjum. Í öðru lagi mundi einkarekstur einstakra sjúkradeilda hugsanlega leysa þann mikla vanda, sem augljóslega er í rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss, sem að einhverju leyti byggist á því, hvað sjúkrahúsið er orðið gífurlega stórt á okkar mælikvarða og erfitt að ná utan um þann margslungna og flókna rekstur, sem þar fer fram. Miklar líkur eru á því, að með því að brjóta rekstur spítalans upp í smærri einingar á þann veg að bjóða út rekstur einstakra sjúkradeilda mundi nást meiri hagkvæmni í þeim rekstri.

Undanfarna daga hafa formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis haft uppi töluverða gagnrýni á rekstur Landspítala - háskólasjúkrahúss. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, hefur gengið svo langt að fullyrða, að sameining sjúkrahúsanna hafi í raun engu skilað í aukinni hagkvæmni.

Það er full ástæða til að fjárlaganefndarmenn og forystumenn Landspítala - háskólasjúkrahúss kynni sér þessar umræður á öðrum Norðurlöndum. Það er ekki fráleitt að ætla, að þarna geti verið á ferðinni ákveðin millileið á milli þeirra andstæðu sjónarmiða, sem uppi hafa verið um einkarekstur eða ekki einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.