FÉLAG áhugafólks og aðstandenda Alzheimer-sjúklinga og heilabilaðra á Norðurlandi, FAASAN, er 10 ára á þessu ári. Af því tilefni afhenti félagið Sambýlinu í Bakkahlíð á Akureyri, sem er sambýli fyrir heilabilaða, rafmagnsorgel að gjöf.

FÉLAG áhugafólks og aðstandenda Alzheimer-sjúklinga og heilabilaðra á Norðurlandi, FAASAN, er 10 ára á þessu ári. Af því tilefni afhenti félagið Sambýlinu í Bakkahlíð á Akureyri, sem er sambýli fyrir heilabilaða, rafmagnsorgel að gjöf. Við það tækifæri var haldin smáhátíð í Bakkahlíðinni, þar sem söngfólk úr röðum aðstandenda ásamt undirleikara skemmti heimilisfólki og aðstandendum þeirra, eins og segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

FAASAN var stofnað 4. apríl 1992 en félagið er hluti af landssamtökum og hlutverk þess er að fræða og upplýsa aðstandendur um sjúkdómin, gæta hagsmuna sjúklinga með Alzheimer og skylda sjúkdóma og auka skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem sjúklingar og aðstandendur eiga við að etja.

FAASAN heldur 4-5 félagsfundi yfir veturinn þar sem boðið er uppá fræðslu og veittar almennar upplýsingar, stuðningshópar fyrir aðstandendur eru á vegum öldrunarlækningadeildarinnar í Kristnesi. Bæklingur sem FAASAN gaf út fyrir tveimur árum liggur frammi á Heilsugæslustöðinni, FSA, Kristnesi og fleiri stöðum um allt Norðurland.