[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Komu þeir báðir við íslenska stjórnmálasögu á þeim tíma, þegar kommúnistar og sósíalistar lifðu enn í þeirri von, að sigra í hugmyndafræðilegri keppni, segir Björn Bjarnason um greinar tveggja höfunda.

Gamlir sósíalistar

Björn fjallar um nýleg greinaskrif í Morgunblaðinu á vefsíðu sinni og segir m.a.:

"Eins og svo oft áður kvikna alls kyns umræður í kjölfar kosninga. Helst er það á síðum Morgunblaðsins, sem ólík sjónarmið birtast, því að í öðrum fjölmiðlum eru það svo að segja fastir liðir eins og venjulega að fylgjast með viðhorfum þeirra, sem þar láta í ljós skoðanir sínar.

Tveir gamlir sósíalistar, sem báðir voru á sínum tíma við nám og störf í leppríkjum Sovétríkjanna, á meðan kommúnistar fóru þar með völd, þeir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur og Ingimar Jónsson íþróttafræðingur, rituðu greinar í Morgunblaðið í vikunni, Árni til að fagna því, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi hafa gengið klofinn til borgarstjórnarkosninganna, Ingimar til að fjargviðrast yfir því, að forystumenn í íþróttahreyfingunni skyldu lýsa yfir stuðningi við mig í auglýsingu í Morgunblaðinu fyrir kosningar. Hvorug greinin kemur þeim á óvart, sem veit um áratugalanga andstöðu þessara manna við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa ávallt skrifað um Sjálfstæðisflokkinn í þeim tilgangi að koma höggi á flokkinn og þá, sem hann styðja. Komu þeir báðir við íslenska stjórnmálasögu á þeim tíma, þegar kommúnistar og sósíalistar lifðu enn í þeirri von, að sigra í hugmyndafræðilegri keppni við okkur, sem höfum alltaf aðhyllst lýðræði og viljað búa í opnu og frjálsu þjóðfélagi.

Skortur á deilum

Tveimur dögum eftir að þeir félagar Árni og Ingimar birtu greinar sínar í Morgunblaðinu mátti lesa þar grein eftir enn einn yfirlýstan vinstrimanninn, Óskar Guðmundsson, sem kvartaði undan því, að lýðræðisleg umræða væri hér á undanhaldi og jafnvel í andarslitrunum vegna skorts á deilum um hugmyndafræði og lífsskoðanir í fjölmiðlum og rakti það meðal annars til þess að hægrimenn ættu "frjálsu miðlana og Ríkisútvarpið lyti að ýmsu leyti forræði þeirra en þó væri þetta ekki síður því að kenna, að í umræðuþáttum væri sama fólkið í tísku, greinar væru styttri en áður, biðu lengi birtingar í Morgunblaðinu, DV setti greinarhöfundum þröngar skorður og Fréttablaðið leyfði helst ekki eitt einasta orð frá lesendum sínum. Óskar vék að Netinu og taldi, að þar færi fram "pikk í tómið og fullorðnir tækju ekki þátt í skoðanaskiptum á þann veg"."