VIÐ, iðkendur Falun Gong, hvaðanæva úr heiminum óskum áheyrnar íslensku þjóðarinnar með hliðsjón af ferðahömlum sem lagðar hafa verið á iðkendur hreyfingarinnar. Falun Gong er ævaforn kínversk aðferð til andlegs þroska.

VIÐ, iðkendur Falun Gong, hvaðanæva úr heiminum óskum áheyrnar íslensku þjóðarinnar með hliðsjón af ferðahömlum sem lagðar hafa verið á iðkendur hreyfingarinnar.

Falun Gong er ævaforn kínversk aðferð til andlegs þroska. Henni til grundvallar liggja eftirfarandi meginreglur: Sannleiksiðkun, samkennd og umburðarlyndi. Iðkunin felst í fimm formföstum og slakandi æfingasamstæðum sem styrkja hug og líkama. Nú stunda milljónir manna í meira en 50 löndum þessar æfingar. Öll starfsemi Falun Gong fer fram fyrir opnum tjöldum. Góð áhrif iðkunarinnar eru viðurkennd um allan heim.

Árið 1999 fyrirskipaði forseti Kína að barist skyldi af fullum þunga gegn þessari ástundun, sem þá hafði náð áður óþekktum vinsældum. Síðastliðin þrjú ár hafa mannréttindasamtök bent á þúsundir iðkenda sem hafa látið lífið vegna harkalegra aðgerða lögreglu og hundruð þúsunda sem hafa verið fangelsuð, send í vinnubúðir og vistuð á geðveikrahælum í þeim tilgangi að fá fólkið til að láta af skoðunum sínum.

Forseti Kína liggur á því lúabragði að rægja Falun Gong um allan heim til að réttlæta ofsóknir sínar. Þetta gerir hann til að blekkja leiðtoga annarra þjóða og beita þá þrýstingi til þess að aðstoða sig í ofsóknum hans. Við erum komin til Íslands til að afhjúpa grimmdarverkin sem kínverski forsetinn ber ábyrgð á og eins til að upplýsa um ástandið svo að íslenska þjóðin láti ekki blekkjast af ósannindunum og fái ekki ranga mynd af velviljuðu fólki.

Undanfarin þrjú ár hafa iðkendur Falun Gong haldið uppi merkjum meginreglnanna þriggja, "sannleiksiðkun, samkennd og umburðarlyndi", þrátt fyrir harkalegar aðgerðir kínverskra stjórnvalda. Friðsamleg framganga hreyfingarinnar og samkennd hefur unnið hug og hjarta þjóða heims að lögregluyfirvöldum þeirra meðtöldum. Mannréttindasamtök víðsvegar um heiminn hafa veitt iðkendum Falun Gong viðurkenningar fyrir þátt þeirra í að verja hugsana- og trúfrelsi í heiminum. Við erum djúpt snortin og mjög þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við höfum hlotið frá fjölda þjóða og lögregluyfirvöldum þeirra. Þessi alþjóðastuðningur hefur verið árangursríkur og bjargað mannslífum.

Þá fáu daga sem við höfum dvalið á Íslandi höfum við hlotið afar hlýjar móttökur hjá Íslendingum. Í síðustu viku höfðum við samband við skrifstofu forseta Íslands og skrifstofu forsætisráðherra. Einnig áttum við fund með starfsfólki utanríkisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og háttsettum embættismönnum innan lögreglunnar til að skýra fyrir þeim hvers vegna við erum hér og eins til að fullvissa þá um að við séum ávallt reiðubúin til að hlýða lögum og reglum. Við munum halda áfram að upplýsa stjórnvöld og embættismenn um rétta stöðu mála til þess að þeim verði ljós velvild Falun Gong-hreyfingarinnar og einnig hitt, hversu alvarlegar ofsóknirnar í Kína eru.

Íslendingar geta verið stoltir af því alþjóðlega orðspori sem af þeim fer, að vera þjóð sem bregst á virkan hátt til varnar mannréttindum í alþjóðasamfélaginu. Við biðjum ríkisstjórn Íslands af einlægni að leyfa iðkendum Falun Gong, óski þeir þess, að koma til landsins og tala friðsamlega fyrir lífi og réttindum vina sinna og fjölskyldna í Kína. Við treystum því að íslensk stjórnvöld geri það sem rétt er og styrki stöðu sína í alþjóðasamfélaginu sem talsmenn frelsis og mannréttinda.

Við endurtökum þakklæti okkar fyrir hlýhug og stuðning Íslendinga. Við bjóðum alla velkomna að vera með okkur í æfingum á almannafæri þar sem hvers kyns spurningum verður svarað og þar sem fólk getur fengið staðfestingu á því hve heillandi og kyrrlát Falun Gong-iðkunin er.

Með vinsemd,

FALUN GONG-IÐKENDUR,

(íslenskun:

Þórdís B. Sigurþórsdóttir).

Morgunblaðinu hefur borizt eftirfarandi frá iðkendum Falun Gong: