MEIRIHLUTI á fundi kennara við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands vill að áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um starf lektors í fornleifafræði verði hafnað og staðan auglýst að nýju hér á landi og erlendis.

MEIRIHLUTI á fundi kennara við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands vill að áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um starf lektors í fornleifafræði verði hafnað og staðan auglýst að nýju hér á landi og erlendis. Taldir eru annmarkar á álitinu og að í því hafi fundist merki um hlutdrægni, líkt og stöðunefnd heimspekideildar hafði komist að.

Sagnfræðiskor fundaði í gær þar sem níu kennarar greiddu atkvæði af ellefu sem mættu, en 13 kennarar tilheyra sagnfræðiskor. Tveir yfirgáfu fundinn áður en til atkvæðagreiðslu kom en tveir kennarar voru staddir erlendis. Að sögn Más Jónssonar, formanns sagnfræðiskorar, samþykktu sex kennarar umrædda ályktun, tveir voru á móti og einn skilaði auðu. Önnur tillaga kom ekki fram og er ályktunin eftirfarandi:

"Fundur í sagnfræðiskor í heimspekideild HÍ 11. júní 2002 hefur fjallað um álit dómnefndar um hæfi umsækjenda um starf kennara í fornleifafræði dagsett 27. maí sl. Skorin tekur undir samþykkt stöðunefndar heimspekideildar frá 10. júní sl. um að á álitinu séu ýmsir annmarkar og þar sé að finna merki um hlutdrægni. Meðal annmarka á álitinu er að menntun umsækjenda í fornleifafræði virðist ekki vera metin sem skyldi. Sagnfræðiskor telur því ekki unnt að taka afstöðu til umsækjenda á grundvelli álitsins. Hún leggur því til að álitinu verði hafnað og kennarastaðan auglýst að nýju hérlendis og erlendis."

Viðmiðun fyrir deildarfund

Már Jónsson sagði við Morgunblaðið að nokkur umræða hefði átt sér stað á fundinum þar sem menn hefðu skipst á skoðunum um málið. Í kjölfarið hefði tillaga að ályktun verið lögð fram, hún kynnt og borin undir atkvæði. Hann benti á að þessi ályktun yrði lögð fram til ráðgjafar og viðmiðunar fyrir deildarfund heimspekideildar. Þar munu kennarar deildarinnar þurfa að gera upp hug sinn til málsins.