Laney Wang: "Við ætlum ekki að mótmæla stjórn eða forseta Kína með neinum hætti. Falun Gong er ekki í stjórnmálum."
Laney Wang: "Við ætlum ekki að mótmæla stjórn eða forseta Kína með neinum hætti. Falun Gong er ekki í stjórnmálum."
MEÐAL um 40 Falun Gong-iðkenda sem komu með flugvél frá Kaupmannahöfn um hádegisbilið í gær og voru kyrrsettir í Leifsstöð var Laney Wang, en hún er frá Taívan, eins og flestir úr hópnum.

MEÐAL um 40 Falun Gong-iðkenda sem komu með flugvél frá Kaupmannahöfn um hádegisbilið í gær og voru kyrrsettir í Leifsstöð var Laney Wang, en hún er frá Taívan, eins og flestir úr hópnum. Hún er spurð hver sé leiðtogi hópsins en svarar því til að engin leiðtogaembætti séu í hreyfingunni, hins vegar sé önnur kona, Pan Hsing Ming, fararstjóri þeirra sem komu frá Taívan.

"Falun Gong er ekki skipulögð hreyfing með embættum og valdastiga," segir Wang. "Sjálf er ég frá Taívan eins og flestir aðrir í hópnum, við erum frá ýmsum stöðum á Taívan. Ég lauk námi við bandarískan háskóla og var í meira en 20 ár starfsmaður útibús bandarísks banka á Taívan en fór á eftirlaun í fyrra.

Sumir eru húsmæður, aðrir opinberir starfsmenn, hér er fólk af ýmsu tagi, með margs konar menntun. Ég þekkti fæsta af þeim sem hér eru áður en við fórum af stað til Íslands með viðkomu í Moskvu og Kaupmannahöfn. Við vildum koma hingað til Íslands af því að okkur finnst þetta mjög sérstætt land og gerólíkt okkar landi. Við vildum fá tækifæri til að segja fólki sannleikann um Falun Tava, sem líka er kallað Falun Gong, við komum hingað til að stunda æfingarnar og sýna hvernig þær eru gerðar. Um er að ræða fimm æfingar en mikilvægast af öllu er hjartalagið, við leggjum áherslu á sannleika, samhygð og umburðarlyndi og reynum eftir bestu getu að leggja rækt við þessa eiginleika í daglegu lífi okkar.

En við fáumst ekki við stjórnmál, reynum aðeins að verða góðar manneskjur og halda góðri heilsu. Kínversk stjórnvöld pynta nú iðkendur Falun Gong algerlega að ástæðulausu, fólkinu er misþyrmt eingöngu vegna þess að það leggur stund á æfingarnar."

Hún segist aðspurð ekki vita hvers vegna kínversk stjórnvöld berjist svo hart gegn Falun Gong. Fólk sem stundi æfingarnar sé ofsótt á ýmsa lund, það sé fangelsað og beitt pyntingum. Segist hún hafa séð myndbönd þar sem afleiðingar pyntinganna birtast með skýrum hætti. Fjölmiðlum landsins sé skipað að flytja ósannindi um hreyfinguna og liðsmenn hennar í Kína og utan landsins. "Það hryggir okkur mjög að sjá hvað kínverskir lögreglumenn fara illa með félaga okkar," segir Wang.

- En ef hreyfingin er ekki skipulögð eins og önnur samtök hvernig stendur á því að þið eru komin hingað til lands svona mörg? Þarf ekki einhvers konar samráð til að koma því í kring og tengist koma ykkar ekkert opinberri heimsókn Kínaforseta?

"Fæst okkar vissu að Jiang forseti væri að koma hingað þegar við lögðum af stað frá Taívan. Við erum búin að vera í mörgum löndum, í mars var ég í Grikklandi og Sviss. Í desember sl. var ég í Þýskalandi. Þegar minnst var á Ísland fannst mörgum hugmyndin hljóma vel."

- Er það virkilega aðeins tilviljun að svo margir félagar í Falun Gong eru hér samtímis þegar Jiang forseti er í heimsókn?

"Ég get aðeins svarað til um fólkið frá Taívan, okkar markmið var að kynna Falun Gong fyrir Íslendingum. Ég veit að lögreglumennirnir hérna í stöðinni eru aðeins að stunda sitt starf, þeir eru góðir menn. Og ég held að þeir viti að við erum gott fólk sem ekki vill gera neinum mein."

- Íslenskir embættismenn segja að sumir talsmenn Falun Gong hér hafi sagt að þeir ætli ekki að hlýða fyrirmælum lögreglunnar og mótmæla Jiang á stöðum þar sem þeim verður bannað að vera. Ætlar þú að taka þátt í slíkum mótmælum?

"Málið er að við ætlum ekki að taka þátt í mótmælum heldur aðeins stunda æfingar okkar með friðsamlegum hætti og sýna fólki hvað Falun Gong er. Við ætlum ekki að mótmæla stjórn eða forseta Kína með neinum hætti. Falun Gong er ekki í stjórnmálum."

- Sumir félagar ykkar hafa þó efnt til mótmæla í öðrum löndum, er það ekki?

"Hefurðu séð hvernig þau mótmæli fara fram? Þau eru ákaflega friðsamleg. Notaðar eru friðsamlegar aðferðir til að segja sannleikann og ekki er verið að skaða nokkurn mann."

- Embættismenn hér segja að þeim beri skylda til að vernda Jiang fyrir Falun Gong, hann sé gestur hér.

"Við erum frá Taívan og ég get sagt þér að þar förum við algerlega eftir fyrirmælum opinberra yfirvalda. En við sættum okkur ekki við að okkur sé meinað að koma hingað til lands eingöngu á þeirri forsendu að við séum Falun Gong-iðkendur og verðum því að fara á brott. Það getum við ekki sætt okkur við."