HEILDARVELTA á millibankamarkaði með gjaldeyri í maímánuði nam tæpum 81 milljarði króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands og er þetta veltumesti mánuður á gjaldeyrismarkaði það sem af er árinu.

HEILDARVELTA á millibankamarkaði með gjaldeyri í maímánuði nam tæpum 81 milljarði króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands og er þetta veltumesti mánuður á gjaldeyrismarkaði það sem af er árinu. Þetta er þó rúmlega þrisvar sinnum minni velta en í maímánuði fyrir ári en þá nam heildarvelta mánaðarins rúmum 254 milljörðum króna, sem er mesta mánaðarvelta frá upphafi, að því að fram kom í hálf fimm fréttum Búnaðarbankans í gær. Jafnframt segir að þá hafi skýringar aukningarinnar verið raktar til afnáms gengisvikmarka og upptöku verðbólgumarkmiða.

Það sem af er júnímánuði hefur veltan á gjaldeyrismarkaði verið tiltölulega lítil eða að meðaltali í kringum 2 milljarðar króna en til samanburðar var meðalveltan á dag í maímánuði í kringum 4 milljarðar. Gengi krónunnar hefur verið að styrkjast það sem af er mánuðinum, á mánudag styrktist krónan um 0,4% en sú styrking gekk til baka í gær og endaði krónan í rétt tæplega 129 vísitölustigum. Líklegt er að birting neysluverðsvísitölu fyrir júní í dag muni hreyfa eitthvað við krónunni en næstu vísitölumælingar munu hafa mikil áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans, segir í hálf fimm fréttum.