ALBÖNSKU flóttamennirnir fimm sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar á fimmtudag og var vísað héðan úr landi hafa sótt um pólitískt hæli í Færeyjum.

ALBÖNSKU flóttamennirnir fimm sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar á fimmtudag og var vísað héðan úr landi hafa sótt um pólitískt hæli í Færeyjum.

Að sögn lögregluyfirvalda í Þórshöfn eru mennirnir ennþá í Færeyjum og munu ekki yfirgefa landið fyrr en ákvörðun hefur verið tekin í máli þeirra. Málefni útlendinga í Færeyjum eru í höndum danskra yfirvalda og gat færeyska lögreglan ekki sagt til um hvenær mennirnir fengju lausn sinna mála.

Mjög sjaldgæft er að flóttamenn sækist eftir hælisvist í Færeyjum og taldi lögreglan að meira en áratugur væri síðan slíkt gerðist síðast. Málið hefur vakið mikla athygli í Færeyjum og má meðal annars sjá skoðanakönnun á heimasíðu Dimmalætting, eins helsta dagblaðs Færeyja, um hvort veita eigi Albönunum pólitískt hæli í Færeyjum eða vísa þeim úr landi.