Vegna fréttar í sunnudagsblaði þar sem spurst var fyrir um hvort leitað hefði verið til Persónuverndar vegna hugmynda um að skrá upplýsingar um húðgötun í eyra, vill Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, árétta að Persónuvernd hafi ekki...

Vegna fréttar í sunnudagsblaði þar sem spurst var fyrir um hvort leitað hefði verið til Persónuverndar vegna hugmynda um að skrá upplýsingar um húðgötun í eyra, vill Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, árétta að Persónuvernd hafi ekki gefið það álit að um almennar upplýsingar væri að ræða í þessu tilviki, eins og lesa mátti út úr fréttinni, enda geti stofnunin ekki tjáð sig um það að óathuguðu máli. Orðrétt var svar Margrétar við fyrirspurn Morgunblaðsins með eftirfarandi hætti: "Persónuvernd hefur ekki borist erindi varðandi skráningu upplýsinga um húðgötun í eyra og getum við ekki tjáð okkur um það álitaefni að óathuguðu máli. Almennt gildir hins vegar að til allrar vinnslu persónuupplýsinga, sem ekki er ætluð til persónulegra nota, þurfa að vera heimildir samkvæmt 8. gr. og, ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða, einnig 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Meginreglan er að samþykkis viðkomandi einstaklings skuli leitað. Enn fremur getur vinnsla persónuupplýsinga byggt á lagaheimild," segir Margrét Steinarsdóttir lögfræðingur hjá Persónuvernd.

Hún bendir á að allri meðferð persónuupplýsinga beri að haga í samræmi við lög. T.d. skal upplýsinganna aflað í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi, og þær ekki unnar frekar í öðrum ósamrýmanlegum tilgangi. Enn fremur ber að gæta þess að öryggi upplýsinganna sé tryggt, að aðgangur óviðkomandi að þeim sé hindraður en lögmætur aðgangur að þeim tryggður.