Falun Gong-iðkendurnir sem kyrrsettir voru í Leifsstöð gerðu æfingar sínar á staðnum meðan beðið var eftir því að niðurstaða fengist í málum þeirra. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður heimsótti fólkið um fimmleytið og sagði því frá því hvað verið væri að gera t
Falun Gong-iðkendurnir sem kyrrsettir voru í Leifsstöð gerðu æfingar sínar á staðnum meðan beðið var eftir því að niðurstaða fengist í málum þeirra. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður heimsótti fólkið um fimmleytið og sagði því frá því hvað verið væri að gera t
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FARARSTJÓRI hópsins frá Taívan, Pan Hsing Ming, sagði að vegabréfum fólksins hefði verið safnað saman af lögreglunni sem einnig hefði viljað fá farmiðana. "Við viljum ekki brjóta neinar reglur.

FARARSTJÓRI hópsins frá Taívan, Pan Hsing Ming, sagði að vegabréfum fólksins hefði verið safnað saman af lögreglunni sem einnig hefði viljað fá farmiðana. "Við viljum ekki brjóta neinar reglur. En ég sagði þeim að við vildum ekki afhenda miðana, ferðin hingað kostar um 1.500 dollara[nær 140 þúsund krónur]. Við vildum ekki láta vísa okkur burt. Ég sagði þeim að ef við fengjum að heyra viðunandi ástæðu fyrir brottvísun myndum við hlýða en það sem við hefðum fengið að vita dygði ekki. Það er ekki nóg að segja að við séum Falun Gong-iðkendur. Hvað er slæmt við það?"Aðspurð sagðist hún ekki vita hvort von væri á fleira fólki úr röðum Falun Gong-iðkenda hingað á næstu dögum.

Pan og annar talsmaður hópsins, Laney Wang, sögðu að snemma árs 1999, áður en hafnar voru ofsóknir gegn Falun Gong í Kína, hefði Zhu Rongji forsætisráðherra sagt í ræðu að Falun Gong-iðkendur hefðu sparað landinu stórfé með lækningum sínum. "Hálfu ári síðar gaf Jiang út skipun um að láta pynta læknana. Þetta skiljum við ekki."

Lin Shu Hui er húsmóðir frá Taipei og hefur iðkað Falun Gong í fimm ár. Hún er spurð hvort æfingarnar séu flóknar, hvort erfitt sé að læra þær. "Alls ekki, þær eru mjög einfaldar, gamalt fólk og lítil börn geta lært þær og stundað ekki síður en aðrir."

- Hvernig hafið þið Taívanbúar samband við Falun Gong-iðkendur í Kína?

"Við höfum ekkert samband við þá, við heyrum bara um þá fyrir milligöngu sameiginlegra vina. Mikil gagnkvæm viðskipti eru milli Taívans og Kína og þannig berast tíðindi á milli.

Við lærðum Falun Gong af fólki frá Kína. Árið 1994 kynntist langveik kona frá Taívan þessum æfingum en ættingi hennar sagði henni að halda ætti fyrirlestur um Falun Gong í Peking. Eiginmaður hennar fór með henni þangað, þau fóru á fyrirlesturinn og læknir á staðnum kenndi hjónunum æfingarnar og lét þau hafa bækur um þær. Konan náði fullum bata og hún fór að kenna æfingarnar endurgjaldslaust þegar hún kom heim. Nú stunda rúmlega 100.000 manns æfingarnar á Taívan en alls er talið að Falun Gong-iðkendur í heiminum séu um 100 milljónir í um 60 löndum um allan heim, langflestir í Kína."

- Gerðir þú ráð fyrir því að vera kyrrsett í flugstöð á Íslandi þegar þú lagðir af stað?

"Við höfum aldrei lent í svona máli fyrr og ég hef komið til flestra Evrópulanda. Við vorum í Moskvu í fyrra og vorum áður í Sankti Pétursborg þegar Jiang forseti var þar en engin vandamál komu upp. Við fórum í gegnum æfingarnar og lásum saman og allt var í stakasta lagi, skiptumst á reynslusögum við iðkendur frá öðrum löndum. En við vorum ekki með neina borða eða spjöld!"

- Gerir þú ráð fyrir að koma nokkurn tíma aftur til Íslands?

"Við vonum að við getum komið hingað aftur vegna þess að vinir okkar eru allir jarðarbúar en við viljum ekki lenda í svona vanda aftur," segir Lin Shu Hui.

Einn af félögum hennar er Lin Chung Chi, sem er sölustjóri hjá plastverksmiðju á Taívan. Hann hefur einnig verið Falun Gong-iðkandi í fimm ár. Hann segist hafa komið til margra Evrópulanda. En hvenær ákvað hann að fara til Íslands og bjóst hann við að verða stöðvaður í flugstöðinni?

"Það var í byrjun maí. Nei, ég gerði ekki ráð fyrir því að vera stöðvaður. Það hefur aldrei fyrr komið fyrir mig."

- Hvað heldurðu að hafi valdið þessum móttökum, við hvað eru menn hræddir hér?

"Ef til vill varð íslenska ríkisstjórnin fyrir miklum þrýstingi af hálfu þeirrar kínversku og við skiljum vel að það geti hafa gerst."

- Hefurðu tekið þátt í mótmælum gegn Kínastjórn?

"Stundum hefur mig langað til þess að taka þátt í friðsamlegum aðgerðum af því tagi. Í hvert sinn sem ég heyri um Falun Gong-iðkanda sem hefur verið pyntaður í Kína langar mig til þess að hitta herra Jiang og segja honum sannleikann í von um að hann hætti að láta ofsækja fólkið. En ég myndi þá mótmæla á friðsamlegan hátt, ekki með ofbeldi."