Baldur sér um að halda Flatey í sambandi við land árið um kring.
Baldur sér um að halda Flatey í sambandi við land árið um kring.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ORÐIN streita, asi og erill hverfa úr huganum og gleymast þegar aðkomumaður úr þéttbýlinu dvelur vikupart í Flatey á Breiðafirði. Þessi hugtök eru líka óþörf í orðaforða heimamanna.

ORÐIN streita, asi og erill hverfa úr huganum og gleymast þegar aðkomumaður úr þéttbýlinu dvelur vikupart í Flatey á Breiðafirði. Þessi hugtök eru líka óþörf í orðaforða heimamanna. Eins og í öðrum sveitum snýst lífið þar um skepnur og gróður og veðurfar en ekki yfirvinnu eða æðibunugang eða sjónvarp. Því eru klukkur óþarfar og nægilegt að fylgjast með tímanum af almanaki eða árstíðum.

Tveir ábúendur eru í Flatey og búa þar árið um kring. Tekjur hafa þeir af sauðfé og æðardúni og til viðurværis að auki eru hlunnindi úr sjó. Geta bændur sótt sér fisk í soðið fyrir heimilið og lundi er veiddur ef ástæða þykir til.

Meðal vorverka Flateyjarbænda er að flytja mest af sauðfénu frá eynni yfir í nálægar grösugar eyjar eða uppá fastalandið. Í eyjunum gengur féð sumarlangt. Ekki væsir um það og lömbin eru væn þegar þau eru sótt að hausti. Borgarbörnin gátu rétt hjálparhönd við að koma fé í bát en ekki þurfti svo sem annað að gera en standa fyrir skepnunum og síðan runnu þær sína leið niður í fjöruna.

Eftir nokkurt brölt yfir þangsleipa steina tosuðu bændur og aðstoðarmenn eitt og eitt lamb um borð og ginntu með þeim mæðurnar sömu leið. Stöku sinnum ætluðu lömbin sér annað en í bátinn og fengu í staðinn bað í fjöruborðinu. En það gerðist hjá mannfólkinu líka og kippti sér enginn upp við það. Veðrið var stillt og nógu hlýtt enda verður féð ekki flutt frá eynni nema í blíðu.

Allmörg fleiri hús eru í Flatey en tilheyra búunum tveimur. Í plássinu hafa afkomendur og ættingjar sem tengjast eynni haldið við gömlum húsum og sumir reist þar ný hús í gömlum stíl. Fátt manna er í þessum húsum lungann úr árinu en á vorin færist í þau líf. Iða þau öll um hásumarið þegar þarna dveljast nokkrir tugir manna og gestkvæmt er einnig hjá bændum og margt í heimili á sumrin. Þar eru líka tvö hús starfsmannafélaga sem vel eru nýtt á sumrin.

Ekki er undarlegt að menn dragist að Flatey til dvalar. Hvort sem menn verða þátttakendur í eyjalífinu með bændum eða sinna húsalagfæringum með sumarfólkinu eða eru bara áhorfendur og gestir er dvöl í eynni sérstæð. Þar gengur allt á öðrum hraða en í þéttbýlinu og með öðru hugarfari en á fastalandinu. Fyrir borgarbörnin er það ný tegund af næringu að kynnast þessu lífi. Í góðviðrinu á dögunum hægðist líka á fuglalífinu og jafnvel krían gat ekki verið aðgangshörð í slíkri blíðu. Hún rétt nennti að garga á göngufólk.

Flatey er ekki mjög stór að flatarmáli, um hana má auðveldlega ganga þvera og endilanga á dagparti. Hluti hennar er friðaður allri umferð milli 15. maí og 15. júlí vegna varpfugla, ekki síst þórshana. Í Flatey eru nefnilega aðalvarpstöðvar hans á Íslandi og þar sem pörin eru ekki mörg þarf að gefa þeim frið ef vera mætti til að styrkja viðkomu þeirra. Ýmsa fleiri fugla hitta menn fyrir, svo sem máva og svartfugla og er þar líka sólskríkja og stelkur og æðarfugl eins og öðrum Breiðafjarðareyjum.

joto@mbl.is