Fjölmiðlar í Danmörku eru himinlifandi eftir 2:0-sigur Dana á Frökkum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær, en fyrir leikinn bjuggust flestir við sigri heimsmeistaranna þar sem þeir höfðu endurheimt einn besta leikmann heims, Zinedine Zidane, sem...

Fjölmiðlar í Danmörku eru himinlifandi eftir 2:0-sigur Dana á Frökkum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær, en fyrir leikinn bjuggust flestir við sigri heimsmeistaranna þar sem þeir höfðu endurheimt einn besta leikmann heims, Zinedine Zidane, sem lék ekki með Frökkum í tveimur fyrstu leikjum mótsins.

Ekstrabladet sló upp fyrirsögninni "Mesta rán Olsen-gengisins" og vísaði þar til þjálfarans Mortens Olsens og leikmanna liðsins, og fréttamiðillinn Ritzau sagði að danskt dínamít hefði sprungið í höndum franska liðsins. "Danir sendu Frakka út í myrkrið" mátti heyra í danskri útvarpsstöð og Jyllands-Posten sagði að Danir hefðu gert hið ómögulega.

Dönsku blöðin hrósuðu Olsen í hástert fyrir liðsuppstillingu sína og sögðu hana snilldarverk, en hann ákvað að fjölga leikmönnum á miðjum vellinum á kostnað hinna sókndjörfu Jesper Grønkjær og Ebbe Sand. Það virtist nægja til þess að slá Frakka út af laginu því þeim tókst ekki að skora gegn Dönum frekar en öðrum liðum á mótinu.

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Danadrottningar, sagði í samtali á vef danska blaðsins BT fljótlega eftir leikinn að hann gleðjist yfir sigri Dana á Frökkum á HM, en Hinrik er franskur og hefur búið í Danmörku síðastliðin 35 ár.

"Ég er ánægður með 2:0 sigur Dana á Frökkum. Ég er jú Dani eftir að hafa búið í Danmörku í 35 ár og ég skil vel gleði dönsku þjóðarinnar og tek þátt í henni," sagði Hinrik.