Tagigi (Dagur) eftir Marý.
Tagigi (Dagur) eftir Marý.
Opið mánudaga til laugardaga frá 9.30 til 23.30 og sunnudaga frá 14 til 23.30. Til 14. ágúst.

MARÝ þreytir frumraun sína í sýningarhaldi á Mokka um þessar mundir. Á sýningunni eru verk unnin með olíu á striga. Mest áberandi á sýningunni er sería málverka af formum í einhvers konar fantasíulandslagi en í öðrum verkum gætir annarra stílbrigða. Marý reynir sig til dæmis við geometríska abstraksjón auk þess sem hún sýnir tvær myndir, "Bærinn málaður rauður" og "Vetur", sem málaðar eru á barnslegan hátt með því að pára einföld form í grunnlitinn. Enn fremur má þarna sjá litla þokukennda trjámynd sem listakonan kallar "Haust".

Marý notar mikið "heita" liti, rauða, appelsínurauða og gula, í verk sín og fer ágætlega með þá.

Formin í ævintýralandslaginu eru hvít að lit og gætu allt eins átt að vera stór útilistaverk sem komið er fyrir á rauðri plánetu. Ég veit satt að segja ekki hvort það er með vilja gert en formin eru meira og minna vitlaust teiknuð hvað fjarvídd varðar og verða þess vegna hálf aumkunarverð á fletinum, næstum tvívíð á þrívíðum bakgrunni. Eitt má þó lesa skýrt út úr þessum myndum; Marý þarf að nema grunnatriði í teikningu og málun til að ná betri tökum á því sem hún er að reyna að gera.

Bestu verk sýningarinnar þóttu mér verkin þar sem hún párar í gegnum málninguna, eins og barn á leikskóla, og hefði ég kosið að sjá fleiri slík verk á sýningunni en minnka vægi annarra á móti.

Þóroddur Bjarnason