Strengjaleikhúsið hefur lyft grettistaki með frumflutningi tveggja barnaópera. Myndin er úr Skuggaleikhúsi Ófelíu.
Strengjaleikhúsið hefur lyft grettistaki með frumflutningi tveggja barnaópera. Myndin er úr Skuggaleikhúsi Ófelíu.
ÞEIR sem lifa og hrærast í listunum eru kannski ekki alltaf best til þess fallnir að taka saman einhvers konar yfirlit um starfsemina eða veita öðrum yfirsýn.

ÞEIR sem lifa og hrærast í listunum eru kannski ekki alltaf best til þess fallnir að taka saman einhvers konar yfirlit um starfsemina eða veita öðrum yfirsýn. Þó er ávallt gagn að því að taka saman staðreyndir um starfsemina og geta þá þeir sem vilja dregið sínar ályktanir af þeim. Leiklistarsamband Íslands hefur um árabil, í góðu samstarfi við menntamálaráðuneytið, gefið út á tveggja ára fresti upplýsingarit á ensku er heitir Theatre in Iceland og jafnhlálegt og það getur talist þá hefur þetta reynst ein aðgengilegasta heimildin um íslenskt leikhússtarf á umliðnum þremur áratugum.

Tilgangurinn með ritinu er að vekja athygli á þeim nýju íslensku leikverkum sem samin hafa verið á undangengnum tveimur árum; nýútkomið heftið neær yfir leikárin 2000-2001 og 2001-2002 og eru þar tíundaðar allar frumsýningar á íslenskum leikritum í leikhúsum landsins, hvort heldur stóru stofnanaleikhúsunum, leikhópum eða áhugaleikfélögum. Einnig eru þar yfirlit yfir ný útvarps- og sjónvarpsleikrit auk tæmandi lista um allar sýningar atvinnuleikhúsanna þau tvö leikár sem um ræðir.

Hefur þetta rit reynst góð viðbót við aðrar upplýsingar þegar íslenskt leikhúsfólk leggur land undir fót og heimsækir erlendar leiklistarhátíðir en þar eru gjarnan samankomnir leikhússtjórar og dramatúrgar sem eru sífellt á höttunum eftir nýjum og spennandi leikritum. Á seinni árum hefur áhugi fyrir listsköpun smáþjóða aukist til muna og helst það í hendur við áherslur sem lagðar eru á frumsköpun lítilla málsvæða og eru ýmsir möguleikar í boði þegar leitað er eftir stuðningi til þýðinga og kynningar. Einhver sagði einhvern tíma að þeir sem stæðu á jaðrinum horfðu gjarnan inn til miðjunnar fremur en til annarra á jaðrinum og má það til sanns vegar færa ef horft er til baka um nokkur ár. Með þessu er átt við að íslenskir leikhússtjórnendur eru ekki einir um að leita helst fanga í stórborgum leikhúsheimsins, London, New York, Berlín og París, heldur hafa kollegar þeirra um alla Evrópu horft til þessara kjarna þegar finna á verk sem líkleg eru til vinsælda. Þetta hefur sannanlega verið að breytast og ástæðurnar eru margvíslegar en fyrst og fremst fyrir mjög meðvitaða stefnumótun þar sem mikilvægi lítilla menningar- og málsvæða er sett í brennidepil. Allt hefur þetta skilað sér út í umræðuna og það sem mikilvægast er til stjórnvalda sem ráða stefnumótun í menningarmálum hverrar þjóðar með því að ákveða hvert fjármunirnir renna og í hvaða hlutföllum.

Viðar Eggertsson leikstjóri ritar athyglisverðan inngang í nýjasta hefti Theatre in Iceland 2000-2002 þar sem hann lítur yfir sviðið undanfarin tvö ár og dregur sínar ályktanir af því sem við blasir. Hann telur markverðast viðburða í leikhúslífinu að hið framsækna og stórhuga fyrirtæki Leikfélag Íslands skuli hafa orðið gjaldþrota og dregur þá ályktun að með því hafi hugmyndir manna um rekstur einkarekins markaðsleikhúss á Íslandi beðið endanlegt skipbrot. Hann segir: "Það reyndist Leikfélagi Íslands dýrara en áætlað var að halda úti þeirri leikstarfsemi sem auglýst hafði verið í upphafi leikársins (2000-2001) og var staðfesting þess að leikhús á Íslandi geta ekki starfað án opinbers stuðnings. Leikfélag Íslands sótti reyndar um stuðning til bæði Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytisins samtímis því að kæra Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið fyrir Samkeppnisstofnun fyrir að halda niðri miðaverði í krafti opinbers stuðnings." Hér finnur Viðar greinilega einhverja mótsögn í málflutningi hins ráðþrota leikhúss sem vildi greinilega annað af tvennu; að leggja af allan opinberan stuðning við leikhúsrekstur á Íslandi eða njóta hliðstæðs stuðnings og þær stofnanir sem fá föst fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum. Hér er átt við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Íslensku óperuna og Hafnarfjarðarleikhúsið.

Allt um það virðist kaflanum um frjálst einkarekið markaðsleikhús í íslensku leikhúslífi lokið í bili og spurning hvort sú listræna blanda af gömlum og nýjum miðjusæknum heimsleikbókmenntum sem boðist hefur í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu nægir okkur ekki hér eftir sem hingað til. Kannski er meiri þörf fyrir sókn inn á önnur og minna könnuð svæði leiklistarinnar en þau sem Leikfélag Íslands plægði svo dyggilega í kjölfar sinna ríkisstyrktu fyrirmynda.

Upp í hugann kemur hið nýja leikhús Vesturport sem hefur í þrígang ráðist á garðinn þar sem hann er hvað ókleifastur; fyrst fyrir ári með sýningu á írska leikritinu Diskópakki, sem var gagnmerk tilraun til að kynna framsækinn höfund af litlu menningarsvæði, algjörlega án umhugsunar um hvort sýningin myndi njóta aðsóknar hér heima eða ekki. Þeir sem sáu gátu ekki annað en fyllst aðdáun yfir áræði þess unga fólks sem stofnaði Vesturport. Þessu var síðan fylgt eftir með frumsýningu á fyrsta leikriti ungs höfundar úr leikarastétt, Agnari Jóni, sem sýndi að hann á fullt erindi sem höfundur og þrátt fyrir ákveðna vankanta sem markvissari dramatúrgía hefði getað sniðið af er þetta hiklaust eitt forvitnilegasta leikritið sem kom fram á liðnu leikári. Vesturportarar lögðu ekki árar í bát því leikarinn og nú leikstjórinn Hlynur Björn Haraldsson sviðsetti fyrir skemmstu æskuverk Shakespeares, Titus Andronicus, með slíkum sprengikrafti að þeir sem sáu voru dolfallnir, þeir sem misstu af (undirritaður í þeim hópi) verða að naga sig í handarbökin. Allt er þetta tíundað þar sem hugmyndafræðin að baki sýningum Vesturports virðist giska einföld. Þau láta sér í léttu rúmi liggja hvort einhver hefur áhuga á því sem þau eru að gera. Aðalatriðið er að þau hafi ánægju af því og geti dregið af því lærdóm. Komist lengra í listsköpun sinni. Þetta eru algild sjónarmið sem flestir listamenn myndu sjálfsagt vera tilbúnir að taka undir að einhverju leyti. Hafa verður í huga að Vesturport er ekki rekið eins og þau leikhús sem að ofan voru nefnd og þarfir þess fyrir jafnt og stöðugt streymi fjármagns eru því ekki jafnbrýnar. Þó er ljóst að ekkert leikhús verður rekið án peninga og sjálfsagt að sköpunargleðin í Vesturporti verði virt að verðleikum.

Það kemur vafalaust fleirum en undirrituðum á óvart að á síðustu tveimur leikárum voru frumsýnd 36 ný íslensk leikverk. Í þeirri tölu er að finna öll ný leikverk, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna, stutt brúðuleikrit jafnt sem dramatískar heilskvölds sýningar. Þegar nánar er að gætt kemur í ljós að Þjóðleikhúsið frumsýndi 4 ný verk á tveimur árum, auk þess að sviðsetja að nýju Strompleik Halldórs Laxness og eiga þátt í sýningu leikhópsins Bandamanna Edda.ris. Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi 5 ný verk og sviðsetti Kristnihaldið að nýju. Leikfélag Akureyrar frumsýndi þrjú ný leikrit, eitt þeirra (Sniglaveislan) í samvinnu við Leikfélag Íslands, og sviðsetti Gullbrúðkaup Jökuls Jakobssonar og einnig leikritið Ball í Gúttó eftir kanadísku leikhúskonuna Maju Árdal. Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi 5 ný leikrit og heldur þannig ótrautt við stefnu sína að sýna eingöngu ný íslensk leikverk. Möguleikhúsið bætti fjórum nýjum verkum í sitt stóra safn frumsaminna leikverka fyrir börn og unglinga. Þar hefur nýting lítilla fjármuna verið með ólíkindum útsjónarsöm og til sannkallaðrar hneisu að hið óeigingjarna starf sem þar hefur verið unnið samfellt um 11 ára skeið skuli ekki hafa notið meiri opinberrar viðurkenningar en raun ber vitni. Leikfélag Íslands frumsýndi tvö ný leikverk og átti hlut að því þriðja í samvinnu við LA.

Leikhópurinn sem kallar sig The Icelandic Takeaway Theatre lagði til þrjú ný verk og þar eiga þær Ágústa Skúladóttir leikstjóri og Vala Þórsdóttir leikari og leikskáld mestan heiður af öflugu starfi með létta pyngju.

Stoppleikhópurinn lagði til tvö ný leikrit fyrir börn og unglinga og þá má ekki gleyma að minnast á starf þeirra mæðgnanna Hallveigar Thorlacius og Helgu Arnalds sem hafa rekið hvor sitt brúðuleikhúsið við góðan orðstír víða um lönd á undanförnum árum. Strengjaleikhús Messíönu Tómasdóttur hefur lyft grettistaki með því að sviðsetja með stuttu millibili tvær nýjar barnaóperur. Hin síðasta var Skuggaleikhús Ófelíu eftir Lárus H. Grímsson en þar áður var það Sónata eftir Hjálmar H. Ragnarsson.

Ef halda ætti áfram að telja upp það sem vel hefur verið gert þá má nefna Útvarpsleikhúsið sem hefur verið íslenskum höfundum traustur bakhjarl í frumflutningi nýrra verka og er miður að ekki skuli ríkja fullkominn skilningur á mikilvægi þessa innan stofnunarinnar sjálfrar.

Lesendur geta síðan sjálfir dregið sínar ályktanir af þeim tölum sem birtast hér að ofan, en greinilegt er að ekki er beint samhengi á milli þess að njóta stærstu fjárveitinganna og eiga stærstan þátt í framgangi íslenskrar leikritunar.

Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is