ÁTÖKIN fyrir botni Miðjarðarhafs eru tekin að hafa svo alvarleg áhrif á ísraelsk og palestínsk börn að sálfræðingar hafa af því verulegar áhyggjur að heil kynslóð geti misst alla trú á frið.

ÁTÖKIN fyrir botni Miðjarðarhafs eru tekin að hafa svo alvarleg áhrif á ísraelsk og palestínsk börn að sálfræðingar hafa af því verulegar áhyggjur að heil kynslóð geti misst alla trú á frið. Á þeim tveimur árum sem uppreisn Palestínumanna, intifada, hefur staðið yfir hafa rúmlega 300 palestínsk og um 30 ísraelsk börn látið lífið og ótalmörg önnur eru sködduð á sál eða líkama.

Á Vesturbakkanum segist lítil telpa óttast það mest að ísraelski herinn taki pabba hennar í burtu, en hann er eftirlýstur af ísraelskum stjórnvöldum, og önnur stúlka horfði á móður sína vera yfirheyrða svo dögum skipti. Í Jerúsalem hafa ísraelskar telpur fundið upp sjálfsmorðsárásarleik og sjö ára strákur er hættur að horfa á sjónvarp til að forðast fréttamyndir af sjálfsmorðsárásum, að sögn Michals Preminger barnasálfræðings.

Teikna myndir af skriðdrekum

Frá því að Ísraelsher hóf aðgerðir sínar á Vesturbakkanum í lok marsmánaðar hafa palestínsk börn lítið annað haft við að vera en að horfa á sjónvarp, leika sér innandyra og spila knattspyrnu nærri heimilum sínum. Sum ísraelsk börn vilja ekki einu sinni fara út fyrir hússins dyr lengur, og foreldrar beggja vegna víglínunnar gera hvað þeir geta til að halda börnum sínum, sérstaklega unglingum, innan veggja heimilisins.

"Það skelfilegasta er sú þráhyggja margra ungmenna að verða píslarvottur, og trúin á að það sé besta leiðin til að sanna sig," segir Eyad Sarraj, forstöðumaður geðheilsuverkefnis á Gaza-svæðinu. "Palestínsk börn teikna myndir af skriðdrekum sem á dynur grjótregn eða af Al-Aqsa-moskunni í Jerúsalem og frelsun hennar," segir Marie Reveillaud, sem vinnur fyrir frönsku læknasamtökin Medicins du Monde (MDM) í Ramallah. "Þeim finnst þau vera óhamingjusömustu börn í heimi, og takast á við það með því að heita hefndum á Bandaríkjamönnum og gyðingum."

Sálfræðingurinn Attar Ornan segir ísraelsk börn verða æ litaðri af stjórnmálaástandinu í landinu. Þau líti á araba sem óvini sína og flest börn undir fimm ára aldri leiki stríðsleiki, en þeim sé full alvara með leikjunum. "Ég vona að þessi börn missi ekki alla trú á frið," segir Ornan. "En jafnvel þótt friður ríki í framtíðinni munu þau enn verða lituð af ástandinu sem ríkir í dag."

"Erum að missa þessa kynslóð"

Ísraelsk börn geta ennþá leitað til stofnana, til dæmis skóla, sem geta veitt þeim nokkra aðstoð og einhvers konar hjálp, en aðstæður palestínskra barna eru mun alvarlegri. "Við erum að missa þessa kynslóð sem við bundum svo miklar vonir við," segir Sarraj. "Þeir sem gera sjálfsmorðsárásirnar núna voru börn í fyrstu intifada-uppreisninni (1987-1993), þannig að maður getur rétt ímyndað sér hvað mun verða um þau börn sem alast upp í dag." Að sögn Sarrajs þyrftu palestínsku börnin að leika sér, fara í sundlaugar eða stunda íþróttir. "En fjármagn er af skornum skammti og palestínska heimastjórnin þarf að einbeita sér að því að halda lífi." Linnulaust útgöngubann hefur komið í veg fyrir tómstundir og aðstoð hjálparsamtaka á Vesturbakkanum. Rúmlega þrjátíu hjálparsamtök, MDM þar á meðal, sendu í byrjun júlímánaðar frá sér bænaskjal þar sem ísraelsk stjórnvöld voru beðin um að leyfa starfsmönnum samtakanna að veita Palestínumönnum á Vesturbakkanum aðstoð.

Jerúsalem. AFP.