Þefaragengið hjá Audi vinnur fyrir sér með nefinu.
Þefaragengið hjá Audi vinnur fyrir sér með nefinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HJÁ framleiðendum Audi-bifreiða í Þýskalandi starfar sérstakur hópur efnafræðinga, sem vinnur eingöngu að því að finna og greina hverskonar óæskilega lykt inni í bílum frá Audi.

HJÁ framleiðendum Audi-bifreiða í Þýskalandi starfar sérstakur hópur efnafræðinga, sem vinnur eingöngu að því að finna og greina hverskonar óæskilega lykt inni í bílum frá Audi. Hópurinn gengur undir nafninu Þefararnir meðal starfsfélaga, og er bókstaflega með nefið ofan í öllu sem lyktar. Í hópnum eru 5 manns, þar af 3 konur og er hlutverk þeirra að tryggja að þægilegur ilmur sé viðvarandi í nýjum Audi-bifreiðum.

Algengt er að plastefni gefi frá sér óþef, leðuráklæði lykti eins og lýsi og af gólfmottum sé einskonar lauklykt. Einnig er mögulegt að í bílum séu ýmis efni notuð, sem gefa frá sér lofttegundir, sem geta verið skaðlegar heilsu manna. Nú hefur verið útilokað að eitthvað af þessu geti gerst hjá Audi-verksmiðjunum, sem viðhafa strangar vinnureglur, byggðar á stöðlum um lykt í farþegarými í Audi.

Um 500 hlutir úr mismunandi efnasamsetningum eru prófaðir og greindir einungis með lyktarskyni hins mannlega nefs.

Stöðluð lykt í nýjum bílum

Aðferðafræðin er eftirfarandi: Sýni er tekið úr viðkomandi hlut og sett í loftþétt lyktarlaust ílát, sem síðan er hitað í ofni í 2 klukkustundir upp í 80° á Celcius. Að því loknu fer hið eiginlega lyktarmat fram, sem er fólgið í því, að hver og einn lyftir aðeins loki ílátsins, þefar af innihaldinu, lokar strax ílátinu og fær það næsta manni, sem fer eins að. Þannig gengur það koll af kolli þar til allir 5 dómararnir hafa þefað. Þá skráir hver sína niðurstöðu á blað og meðaltal af öllu saman er svo endanlegur dómur.

Þefhópurinn fylgist með framleiðslu Audi-bílanna á öllum stigum og grípur inn í með því að taka bíla af færibandinu daglega, fara með þá í rannsóknarstofu og þefa rækilega af öllu, sem er innan dyra í tilraunaeintakinu. Tilgangur allrar þessarar fyrirhafnar er ekki að framleiða lyktarlausa bíla, heldur að komast að því hvað veldur því að í mörgum nýjum bílum er stundum kvartað yfir óþægilegri lykt eða jafnvel óþolandi fýlu. Þessir vísindamenn hafa komist að því að til er einhverskonar stöðluð lykt, sem mönnum finnst að eigi að vera í nýjum bílum og til þess að tryggja að svo sé, hafa framleiðendur Audi-bifreiða, fyrstir allra, lagt í þetta verkefni ærið fé.