ÞETTA byrjaði eiginlega þannig, að ég fékk sendan tölvupóst 8. mars síðastliðinn, og var þar bent á ákveðna vefslóð, http://www.luccaco.com/terra/terra.

ÞETTA byrjaði eiginlega þannig, að ég fékk sendan tölvupóst 8. mars síðastliðinn, og var þar bent á ákveðna vefslóð, http://www.luccaco.com/terra/terra.htm, og reyndist þar vera á ferðinni stutt kvikmynd, er nefndist á ensku "The miniature earth", sem útleggst á íslensku "Jörðin í smækkaðri mynd". Fyrir henni stóð Allysson Lucca, sem ég því miður veit engin frekari deili á.

Þegar ég fyrir skemmstu hugðist fara inn á vefslóðina og skoða kvikmyndina á ný, var þar tilkynning um, að sýningum væri hætt. Myndin hefði fengið góðar viðtökur, það væri ekki málið, raunar hlotið fjölda verðlauna, en eigendum netþjónsins þætti hún of umfangsmikil, of plássfrek og því yrði hún að víkja.

Framleiðandinn er þessa stundina að leita að útgefanda að bók og fjölmiðlunardiski um þetta sama efni. Ég ritaði Allyson Lucca bréf og spurðist fyrir um texta myndarinnar, og hún svaraði að bragði og vísaði góðfúslega á hann. Sá mun vera ritaður af Donella H. Meadows, og ber upphaflega yfirskriftina "Who Lives in the "Global Village?"", eða "Hver býr í "heimsþorpinu"?" og er frá árinu 1992 (sjá http://www.empowermentresources.com/info2/theglobalvillage.html).

Þar kemur fram, að ef jarðarbúar væru einungis 1.000 talsins, en ekki 6 milljarðar, eins og þeir reyndar eru, og byggju allir í einu og sama þorpinu, yrði skiptingin þannig, miðað við núverandi hlutfall, að 584 væru af asískum uppruna, 124 frá Afríku, 95 frá Austur- og Vestur-Evrópu, 84 frá Mið- og Suður-Ameríku, 55 frá löndum gömlu Sovétríkjanna, 52 frá Norður-Ameríku, og 6 frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Og þetta fólk myndi eiga í allnokkrum vandræðum með tjáskipti, því 165 töluðu Mandarín kínversku, 86 ensku, 83 hindi eða urdu, 64 spænsku, 58 rússnesku og 37 arabísku. Þetta væru samt bara móðurmál helmings íbúa þorpsins. Hinir myndu tala (eftir fjölda) bengali, portúgölsku, indónesísku, japönsku, þýsku, frönsku og 200 önnur tungumál.

Í þessu 1.000 manna þorpi væru 329 kristnir (og af þeim 187 rómversk-kaþólskir, 84 mótmælendatrúar, og 31 úr austurkirkjunni), 178 múslimar, 167 utan trúfélaga, 132 hindúar, 60 búddhistar, 45 guðleysingjar, 3 gyðingar og 86 tilheyrandi öðrum trúarbrögðum.

Þriðjungur (330) væri börn og einungis 60 íbúanna eldri en 65 ára. Einungis helmingur barnanna væri ónæmur fyrir smitsjúkdómum, eins og mislingum og lömunarveiki. Og ekki nema tæplega helmingur giftra kvenna hefði aðgang að nútíma getnaðarvörnum.

Á þessu ári kæmu til með að fæðast 28 börn; 10 íbúar myndu deyja, 3 úr hungri, 1 af völdum krabbameins; 2 dauðsfallanna yrðu í röðum nýfæddu barna ársins. 1 íbúanna væri smitaður af HIV-veirunni; sá einstaklingur væri þó að líkindum ekki kominn með eyðni. Miðað við 28 fæðingar og 10 dauðsföll yrði íbúatalan því komin í 1.018 í upphafi næsta árs.

Í þorpinu myndu 200 íbúanna eiga 75% alls þess sem aflaðist, en aðrir 200 bara 2%.

Einungis 70 hefðu yfir bifreið að ráða (og sumir þeirra raunar fleirum en einni). Um þriðjungur íbúanna ætti kost á hreinu drykkjarvatni. Af hinum 670 fullorðnu í þorpinu væri helmingurinn ólæs.

Íbúarnir hefðu til ráðstöfunar 6.000 ekrur lands, og af þeim væru 700 ræktað land, 1.400 haglendi eða beitiland, 1.900 skóglendi, 2.000 eyðimörk, túndra, gangstéttir og annað óræktað land; skógurinn væri á hröðu undanhaldi, óræktin í vexti. En hitt væri nokkuð stöðugt.

Í þorpinu væru 5 hermenn, 7 kennarar, 1 læknir og 3 flóttamenn. Bæjarkassinn og eigið fé íbúanna væru samanlagt rúmlega 300 milljónir íslenskra króna á ári, sem gerðu 300 þúsund krónur á hvern íbúa, ef skiptingin væri jöfn og réttlátt (sem hún er ekki, eins og við höfum þegar séð). Af milljónunum 300 færu 18 milljónir í vopn og stríðsrekstur, tæplega 16 milljónir til menntamála og rúmlega 13 milljónir til heilbrigðismála.

Í jörðu þar undir væri búið að grafa svo mikið af kjarnorkuvopnum, að hæglega mætti eyða þorpinu oftar en einu sinni og tvisvar og þrisvar. Einungis 100 manns gættu þessara tóla; hinir myndu fylgjast náið með sérhverri hreyfingu mannanna, væru stöðugt á verði, fullir ótta, veltandi því fyrir sér, hvort yfir höfuð væri mögulegt að lifa þarna í samlyndi og friði, og ef svo væri, hvort sprengiefnið myndi ekki samt losna úr dróma, annaðhvort fyrir ógætni eða tæknileg mistök. Og ef svo ólíklega vildi nú til, að ráðamönnum dytti í hug að afvopnast í eitt skipti fyrir öll, og tækju í framhaldinu ákvörðun um að eyða þessari feiknarstóru geimaldarpúðurtunnu, hvar í ósköpunum ætti þá að losna við öll geislavirku efnin, sem í henni er að finna?

sigurdur.aegisson@kirkjan.is