ÁKVEÐIÐ hefur verið að selja Akureyrina EA 110 til Onward Fishing Company, dótturfélags Samherja hf. í Bretlandi, og verður skipið afhent í byrjun september.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að selja Akureyrina EA 110 til Onward Fishing Company, dótturfélags Samherja hf. í Bretlandi, og verður skipið afhent í byrjun september. Sléttbakur EA, sem Samherji keypti nýlega af Útgerðarfélagi Akureyringa, fer í slipp áður en hann heldur til veiða á vegum félagsins og fær nafnið Akureyrin EA 110.

Akureyrin EA, sem er 882 brúttólesta skip, var smíðuð í Póllandi á árinu 1974. Það var fyrsta skip í eigu Samherja hf. og hefur verið gert út sem frystitogari frá árinu 1983. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir, að Akureyrin hafi verið afar farsælt skip og ávallt verið meðal aflahæstu skipa landsins. Ekki sé reiknað með að til uppsagna komi við söluna og verði sjómönnum boðið pláss á öðrum skipum félagsins.

Söluverð skipsins er 275 milljónir króna en salan hefur ekki áhrif á rekstur og efnahag samstæðu Samherja. Samhliða því að Onward fær Akureyrina verður skipinu Normu Mary skilað til Síldarvinnslunnar en Onward hefur haft skipið á leigu frá þeim undanfarin ár.