Örar breytingar hafa orðið í Lettlandi eftir að járntjaldið hrundi. Hér er horft yfir höfuðborgina, Riga.
Örar breytingar hafa orðið í Lettlandi eftir að járntjaldið hrundi. Hér er horft yfir höfuðborgina, Riga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opinber heimsókn Vaira Vike-Freiberga Lettlandsforseta til Íslands hefst á mánudaginn. Steingrímur Sigurgeirsson ræddi við Freiberga í forsetahöllinni í Riga í tilefni heimsóknarinnar.

Vaira Vike-Freiberga var kjörin forseti Lettlands af lettneska þinginu í júní 1999. Hún var þá nýlega flutt aftur til Lettlands eftir að hafa búið utan föðurlandsins í meira en hálfa öld. Vike-Freiberga fæddist í Riga í Lettlandi árið 1937 en fjölskylda hennar flúði land er Rauði herinn nálgaðist borgina í lok ársins 1944. Hún ólst upp í flóttamannabúðum í Þýskalandi áður en fjölskylda hennar flutti til Marokkó árið 1949, sem þá tilheyrði Frakklandi. Fimm árum síðar flutti fjölskyldan til Kanada og Vike-Freiberga lauk þar doktorsprófi í sálfræði við McGill-háskóla árið 1965. Hún tók við prófessorsstöðu í sálfræði við Montreal-háskóla sama ár og starfaði þar allt þar til hún fór á eftirlaun árið 1998. Í kjölfarið flutti hún til Lettlands til að taka við stöðu forstöðumanns Lettnesku upplýsingastofnunarinnar. Þegar ekki náðist samkomulag um forseta í atkvæðagreiðslu á lettneska þinginu nokkrum mánuðum síðar var leitað til hennar.

Þótt forseti Lettlands hafi ekki bein pólitísk völd hafa áhrif Vike-Freiberga á þjóðfélagsumræðuna verið mikil. Hún hefur haft mikil áhrif á að leysa deilurnar um rússneska minnihlutann, en tæplega helmingur íbúa Lettlands var af rússneskum uppruna er Lettland lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1990. Hún neitaði á sínum tíma að undirrita tungumálalöggjöf, sem nánast bannaði notkun rússnesku, og í kjölfarið voru lögin milduð töluvert af þinginu. Er það talið hafa liðkað mjög fyrir aðildarviðræður Letta við Evrópusambandið. Hún hefur einnig beitt sér mjög í umræðunni um væntanlega aðild Letta að jafnt Evrópusambandinu sem Atlantshafsbandalaginu.

Æskuminningar tengjast flóttanum frá Lettlandi

Þú varst einungis sjö ára gömul er þú flúðir ásamt fjölskyldu þinni frá Riga. Hversu sterkar æskuminningar áttu frá Lettlandi?

Líf mitt hefur að mörgu leyti verið líkt og lagskipt kaka. Ég get staðsett minningar frá mismunandi tímabilum vegna þess að þær gerðust í ólíkum heimsálfum. Síðar á ævinni, þegar ég bjó um langt skeið í Montreal, eiga hlutirnir það til að renna saman í eitt. Það er líka ólíku saman að jafna, minningum barns og fullorðinnar manneskju. Tíminn líður áfram á mismunandi hraða. Þrjár vikur, sem renna saman í eitt hjá fullorðinni manneskju, eru í huga barnsins þrjár vikur af nýjum upplifunum og atburðum, sem hægt væri að skrifa heila skáldsögu um.

Ég man að við fluttum frá borg til borgar, frá landi til lands, og ég get þar með nokkurn veginn tímasett atburði. Líklega eiga þeir, sem hafa átt heima lengi á sama stað, erfiðara með slíkt.

Auðvitað eru þessar minningar tilviljanakenndar og ég held að þær séu skýrari þegar um átakanlega atburði var að ræða. Þá á ég æskuminningar, sem tengjast skynfærunum, heyrn og lyktarskyni, en það eru frumstæðustu skynfærin. Franskur rithöfundur sagði eitt sinn að ef hann myndi hefja líf sitt upp á nýtt þá myndi hann þekkja æskuslóðir sínar af lyktinni. Mínar æskuminningar tengjast ilminum af liljum eftir rigningu og regnvotum götum Riga. Ég man eftir slíkum smátriðum og það hjálpar mér að minnast annarra hluta. Ég man eftir því hvernig andrúmsloftið meðal hinna fullorðnu var á heimilinu meðan á stríðinu stóð og áhyggjurnar sem þau höfðu á meðan við vorum í útlegð. Eigum við að fara eða vera? Um það ræddu þau stöðugt, stjúpfaðir minn og bróðir hans, móðir mín og systir hennar. Einn fór, annar varð eftir. Nær allar lettneskar fjölskyldur gengu í gegnum slíkt. Ef menn flúðu ekki land voru þeir skyldaðir í útlegð. Stundum komu hermenn um miðja nótt og sóttu menn. Fjölskyldum var splundrað. Ég man eftir öllum kveðjustundunum, þegar fólk kvaddi og vissi innra með sér að hugsanlega myndi líða langur tími áður en það hittist aftur ef það myndi þá nokkurn tímann hittast aftur. Foreldrar mínir tóku slíka ákvörðun. Auðvitað hættu þau lífi sínu með því að fara en það var líka lífshættulegt að vera um kyrrt. Fólk tók ákvarðanir á grundvelli mjög takmarkaðra upplýsinga, það var stríð, landið var hernumið og allar upplýsingar voru gegnsýrðar af áróðri. Faðir minn hlustaði á útsendingar BBC og hefði verið skotinn ef það uppgötvaðist.

Skelfilegasta upplifunin sem ég minnist var þegar vígstöðvarnar nálguðust Riga. Ég var um fimm og hálfs ára gömul og áttaði mig allt í einu á því að hinir fullorðnu voru algjörlega bjargarlausir. Rússar voru að ráðast inn í landið og við sáum fram á að við yrðum innlimuð í Sovétríkin. Sumir fóru og börðust fyrir land sitt af mikilli hetjudáð rétt eins og þeir gerðu í heimsstyrjöldinni fyrri. En ég man eftir flóttanum og þeirri skelfilegu tilfinningu að yfirgefa heimili sitt. Að njóta ekki lengur verndar veggjanna, litla rúmsins míns og þaksins. Þetta var mjög ógnvekjandi, ekki síst vegna þess að ég áttaði mig á að foreldrar mínir gátu ekki verndað mig. Sprengjur féllu og við leituðum skjóls í kjallaranum. Fullorðna fólkið var jafnskelkað og við börnin. Áður hafði ég haft öryggistilfinninguna sem börn hafa ávallt. Ég man eftir að hafa einhvern tímann heyrt orðatiltækið "konur og börn fyrst" og man hvað mér leist vel á það. Í minni barnslegu sjálfselsku fannst mér það sjálfsagt og frábært að fá að fara fyrst frá borði ef skip sykki. Þannig áttu hlutirnir auðvitað að vera.

Lettarnir héldu hópinn í flóttamannabúðum

Hvernig hélt fjölskyldan í hinn lettneska uppruna sinn meðan á útlegðinni stóð?

Lettar eru hópsálir, þeir safnast alltaf saman. Mér er minnisstæð dvölin í borginni Wismar í Mecklenburg í Þýskalandi. Þjóðverjarnir höfðu byggt loftvarnarbyrgi fyrir almenning undir aðaltorginu. Þegar sprengjum var varpað á borgina, oft um miðja nótt, flýtti fólk sér í byrgið. Eitt sinn er við vorum í byrginu og sprengjuregnið dundi á borginni heyrum við mann tala á lettnesku. Hann var að barma sér yfir því að þessar sprengjuárásir væru svo hræðilegar því að hann fengi alltaf niðurgang. "Ég verð svo hræddur þegar sprengjurnar springa að þetta hefur þessi áhrif. Hvað á ég að gera?" sagði hann. "Á maður að hætta á að vera áfram heima eða á maður að flýta sér í byrgið og eiga á hættu að þar verði neyðarlegt slys?" Þarna sat hópur Letta og gerði grín að öllu saman. Við fórum til þeirra og eftir það héldum við hópinn. Við vorum um fimmtán manna hópur í fyrstu flóttamannabúðunum. Síðar fór flest af þessu fólki til Kanada og hjálpaði þá fjölskyldu minni að flytja þangað eftir að við vorum komin til Marokkó. Að stríðinu loknu var flóttamannabúðunum fyrst um sinn skipt upp eftir þjóðerni og það má því segja að alþjóðlegu flóttamannastofnanirnar hafi útbúið fyrir okkur lítið samfélag. Það auðveldaði okkur að skipuleggja allt félagslegt líf. Við vorum í flóttamannabúðum skammt frá Lübeck og þar settu Lettarnir skóla á laggirnar sem öll börn voru látin sækja. Þetta var mikið mál. Við vorum á hernámssvæði Breta og það varð að sækja sérstaklega um leyfi til að fá stílabækur, blek og penna. Slíkir hlutir lágu ekki á lausu á þessum tíma. Einu kennslubækurnar sem við höfðum voru þær sem lettnesku kennararnir höfðu tekið með sér í útlegð. Yfirleitt höfðu því einungis kennararnir kennslubækur og þeir urðu að spinna þetta eftir eyranu. Þessir skólar skiluðu hins vegar af sér börnum sem stóðu sig vel hvert sem þau fóru. Jafnvel krakkarnir, sem þarna þóttu hálfgerðir skussar, báru af þegar þau komu til annarra landa. Menntahefð Letta á þessum árum virðist hafa verið einstaklega góð.

Var það erfið ákvörðun að snúa aftur heim til Lettlands eftir að hafa búið um áratugaskeið í Kanada?

Ég fékk mjög freistandi tilboð frá háskólanum mínum árið 1998. Mér var boðið að fara á eftirlaun um sextugt án þess að missa niður mikið af eftirlaununum mínum. Það var vissulega svolítið erfitt að hætta þar sem prófessorsstarfið var svo ríkur þáttur af sjálfsmynd minni. Þetta gerði mér hins vegar kleift að einbeita mér að öðrum verkefnum, til dæmis rita bækur, án þess að tekjur mínar myndu skerðast. Örfáum mánuðum síðar fékk ég svo annað tilboð er ég gat ekki hafnað. Mér bauðst að taka við starfi forstöðumanns Lettnesku upplýsingastofnunarinnar. Ég var á þessum tímapunkti búin að snúa baki við mínu gamla starfi og var opin fyrir ýmsu. Þetta var því himnasending. Mér bauðst að snúa aftur til föðurlands míns og byggja þar upp nýja stofnun. Þarna sá ég fram á að geta nýtt mér þá hæfileika er ég hafði aflað mér í útlöndum til að byggja upp lettneska upplýsingamiðstöð er átti að styrkja ímynd Lettlands. Ég fékk tvær vikur til þess að velta þessu fyrir mér áður en ég varð að pakka dótinu niður í ferðatöskur og halda til Lettlands. Ég ákvað að taka þessari áskorun. Eiginmaður minn varð hins vegar að vera áfram í Kanada fyrst um sinn til að afla sér eftirlaunaréttinda. Ég fór því ein og skildi eftir köttinn minn, blómin mín, bækurnar sem ég var að skrifa, eiginmanninn og dóttur okkar sem enn bjó heima. Þetta var of spennandi áskorun til að hafna henni.

Átta mánuðum síðar komu svo fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka á minn fund og sögðust vera reiðubúnir að styðja mig í embætti forseta ef ekki næðist samstaða um frambjóðanda í fyrstu atkvæðagreiðslunni á þinginu. Þeir spurðu hvort ég væri reiðubúin að gefa kost á mér. Þetta var mjög erfið ákvörðun því ef ég gæfi kost á mér varð ég að afsala mér kanadísku ríkisfangi. Annars hefðum við getað haft tvöfalt ríkisfang áfram. Enn og aftur gat ég hins vegar ekki skorast undan.

Hefur það einhvern tímann valdið þér erfiðleikum í embætti að hafa búið þetta lengi utan Lettlands?

Nei, þvert á það sem margir líklega vonuðu. Þetta hefur ekki hamlað mér. Maður getur lært hlutina mjög hratt. Við erum frekar lítið land og þingmenn og fólk sem er virkt í stjórnmálum hleypur ekki á þúsundum. Þegar ég kom til Lettlands byrjaði ég á því að kaupa og lesa alls konar tímarit til að átta mig á því hvernig fólk hugsaði. Ég hafði fyrir góð sambönd við fólk tengt þjóðlegum fræðum og myndlistarmenn, rithöfunda, tónlistarmenn og kvikmyndagerðarmenn. Ég var með mjög góð sambönd við lettneska menntamenn. Auðvitað varð ég að koma mér í kynni við þá sem gegndu forystuhlutverki í lettnesku samfélagi en það er þó ekki neinn risavaxinn hópur og með ástundun getur maður kynnst þeim á fremur skömmum tíma.

NATO-aðild mikilvæg af sögulegum ástæðum

Aðild að Evrópusambandinu og NATO hefur verið mikilvægasta málið í lettneskri þjóðfélagsumræðu um nokkurra ára skeið. Hvaða þýðingu mun aðild að þessum stofnunum hafa fyrir Lettland?

Aðild að NATO myndi binda enda á eftirleik þeirra atburða er áttu sér stað árið 1939, í kjölfar sáttmála Ribbentrops og Molotovs, er skipti Evrópu upp í áhrifasvæði. Við teljum það ekki nægilegt að fljóta með í áttina að nýju heimsskipulagi. Við teljum, af sögulegum ástæðum, að með þessu yrði samningur Ribbentrops og Molotovs ógiltur, með formlegum samningi, undirrituðum af aðildarríkjum NATO, og við mundum síðan sem nýtt aðildarríki staðfesta samninginn. Það hefði sögulega þýðingu fyrir okkur. Við yrðum viðurkennd sem sjálfstæð þjóð er hefði fullt og óskorað vald til að ganga í bandalög með öðrum ríkjum og þyrftum ekki að hafa áhyggjur af árásum annarra ríkja.

Þetta myndi líka efla öryggi okkar í víðasta skilningi orðsins. Við yrðum undir hinum sameiginlega verndarskildi og í þeirri vissu að við stæðum ekki ein. Það mun hafa mikil áhrif á ímynd Lettlands og við erum sannfærð um að það muni auka erlenda fjárfestingu í landinu. Við höfum séð það gerast í hinum nýju aðildarríkjum, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi, að NATO-aðildin hefur ýtt undir erlenda fjárfestingu. Fjárfestar eru öruggari um sig ef formlegur samningur er í gildi en ekki einungis heiðursmannasamkomulag um að ríkinu verði komið til hjálpar ef eitthvað gerist.

Við höfum nú skuldbundið okkur til að verja 2% af vergri þjóðarframleiðslu fram til ársins 2008 til að byggja herafla okkar upp frá grunni. Sú uppbygging mun hafa ýmsa kosti í för með sér, ekki síst atvinnusköpun. Þarna mun ungum körlum og konum bjóðast tækifæri til að afla sér menntunar og sérhæfingar. Þessu fylgja líka ýmis tækifæri og nú þegar hafa lettneskir hermenn til dæmis verið sendir til Georgíu sem eftirlitsmenn. Við stefnum að því að byggja upp atvinnuher í framtíðinni og geta dregið úr fjölda þeirra sem þurfa að gegna herskyldu. Við tökum því ekki einungis á okkur efnahagslegar skuldbindingar heldur mun þetta skila samfélaginu miklu. Lettland hefur skuldbundið sig til að umbylta herafla sínum þannig að hann standist kröfur NATO.

Þegar litið er til skoðanakannana er ljóst að töluverður munur virðist vera á afstöðu fólks til ESB og NATO. Mikill meirihluti lettnesku þjóðarinnar virðist styðja NATO-aðild en minnihluti er fylgjandi ESB-aðild. Er það áhyggjuefni?

Það eru miklar sveiflur á stuðningi við ESB og stuðningurinn virðist ráðast af daglegum fréttaflutningi. Stuðningur við ESB-aðild náði lágmarki eftir að framkvæmdastjórn ESB kynnti tillögur sínar í byrjun árs, þar sem fyrst var ekki gert ráð fyrir neinum beingreiðslum og niðurgreiðslum til bænda í nýju aðildarríkjunum en síðar að þeir myndu fá fjórðung af þeim stuðningi sem bændur í núverandi aðildarríkjum fá. Þegar Evrópusambandið greiddi hins vegar loks út styrki, sem lettneskir bændur höfðu sótt um fyrir tveimur árum og voru orðnir langeygir eftir að fá, jókst stuðningur við ESB skyndilega til muna. Stuðningur við aðild minnkaði því fyrst, jókst aftur og minnkaði svo á nýjan leik þegar ESB kynnti tillögur sínar um mjólkurkvóta. ESB hefur boðið Lettum mjög lága kvóta á grundvelli viðmiðunartímabils sem var okkur mjög óhagstætt. Á fyrri hluta tímabilsins voru umskiptin frá stóru samyrkjubúunum yfir í einkarekin býli enn í gangi og síðari hluti viðmiðunartímabilsins eru ár sem voru okkur mjög erfið vegna efnahagskreppunnar í Rússlandi. Þá misstum við stóran hluta af útflutningsmarkaði okkar. Mjólkurkvótinn sem okkur stendur til boða er helmingur þess sem við framleiðum í dag. Bændur okkar hafa réttilega bent á að með þessu væri okkur ekki heimilt að framleiða mjólk er myndi duga fyrir innanlandsneyslu. Hvað þá útflutning og frekari vöxt greinarinnar. Þetta er ekki viðunandi.

Við vissum að viðræðurnar um landbúnarmál yrðu erfiðar og sú hefur orðið raunin. Við erum hins vegar langt komin með aðildarviðræðurnar og höfum í mörgum tilvikum fengið viðunandi aðlögunartíma til að laga okkur að sambandinu. Mjólkurkvótarnir eru hins vegar stórmál og Lettar eru ekki sáttir við það sem er í boði.

Að öðru leyti ganga aðildarviðræðurnar vel, við erum ánægð með gang mála og almenningur sýnir þessu skilning. Nú erum við hins vegar að komast á leiðarenda og þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin um aðildarsamninginn eftir að viðræðum lýkur. Þetta minnir um margt á aðdraganda brúðkaups þar sem fólk fer að hafa efasemdir á síðustu stundu. Fólk veltir því fyrir sér hvort það sé í raun að taka rétta ákvörðun með því að tengjast að eilífu, hvort hamingja eða vesöld blasi við. Það er titringur í fólki.

Hvaða áhrif mun aðild að NATO og ESB hafa á samskipti Letta og Rússa? Fyrir einungis tveimur árum vakti það athygli er þú gagnrýndir stefnu Rússlands gagnvart Eystrasaltsríkjunum harkalega.

Ríki geta ávallt breytt um stefnu. Undir núverandi stjórn og lýðræðiskerfi ógnar Rússland Lettlandi ekki á neinn hátt. Fræðilega séð getur það þó breyst, ný öfl gætu komist til valda. Rússar eru nágrannar okkar og þessi fræðilegi möguleiki verður ávallt fyrir hendi. Við getum ekki útilokað að þróunin verði óhagstæð. Sem stendur eru samskipti ríkjanna eðlileg að öllu leyti og raunar bendir flest til að þau séu stöðugt að batna og eflast. Höfuðborgin Riga á góð samskipti við Moskvuborg og margt bendir til að brátt muni Rússland og Lettland geta undirritað samninga um margvísleg málefni. Það eina sem skyggir á samskiptin eru yfirlýsingar rússneska utanríkisráðuneytisins um að illa sé farið með rússneska minnihlutann í Lettlandi og að hann eigi undir högg að sækja. Við vísum slíkum fullyrðingum til föðurhúsanna. Við teljum að við fylgjum evrópskum lýðræðisstöðlum í einu og öllu.

Ég tel að með aðild að ESB verðum við enn áhugaverðari viðskiptaaðili fyrir Rússa. Við eigum mikil viðskipti vegna vöruflutninga um hafnir Lettlands. Rússar hafa áhuga á því að nýta eigin hafnir í auknum mæli í stað lettnesku hafnanna í Ventspils og Riga. Ef efnahagsleg sjónarmið munu ráða ferðinni en ekki pólitísk verða þessar hafnir hins vegar góður kostur í framtíðinni. Lettland ætti að geta laðað til sín rússneska fjárfestingu og viðskipti er beinast að Evrópusambandinu. Þar sem við höfum landamæri að Rússlandi höfum við landfræðilega sterka stöðu í þessu sambandi.

Vonandi tekst að styrkja tengsl þjóðanna enn frekar

Samskipti Íslands og Lettlands hafa verið góð og tilfinningaleg bönd milli þjóðanna sterk. Hin landfræðilega fjarlægð gerir hins vegar að verkum að bein samskipti þjóðanna hafa verið af skornum skammti. Hvernig sérð þú fyrir þér að hægt verði að efla samskipti Íslendinga og Letta?

Það er athyglisvert hversu ört viðskiptatengsl milli Íslands og Lettlands hafa vaxið. Í ljósi stærðar ríkja okkar er árangurinn undraverður. Í tengslum við hina opinberu heimsókn mun á fimmta tug fulltrúa úr lettnesku viðskiptalífi koma til Íslands. Allir hafa þeir skipulagt fjölmarga fundi með íslenskum fyrirtækjum til að afla sér tengsla eða þá reynslu. Til að mynda hafa menn áhuga á að kynna sér rekstur álvers Alcan á Íslandi og einnig hefur verið rætt um samstarf á sviði erfðavísinda.

Það er því ýmislegt í gangi og vonandi mun þetta skila árangri. Það er svo annað mál hvernig hægt er að efla bein tengsl mill þjóðanna, meðal annars með ferðum einstaklinga. Hvað okkur varðar mun það ráðast af því hversu hratt okkur gengur að efla lífskjör þjóðarinar. Það blasir við að það er dýrara að ferðast til fjarlægari landa en nágrannaríkja. Vonandi munu Íslendingar, sem eru tekjuhærri en Lettar, sýna gott fordæmi með því að sækja Lettland heim. Flestir Lettar þekkja til Íslands og í huga þeirra er það fagurt land sem hefur ávallt stutt við bakið á Lettum, ekki síst með því að viðurkenna sjálfstæði okkar fyrst allra. Við finnum til sterkra tengsla við íslensku þjóðina. Vonandi mun okkur takast að styrkja böndin á milli þjóðanna enn frekar.