Líkt og margra hæfileikamanna hefur ferill von Sydows verið "mishæðóttur", svo ekki sé meira sagt. Hér er leikarinn, ungur og bjartur, í The Kremlil Letter ('70), í algjörri botnleðju eftir meistara John Huston.
Líkt og margra hæfileikamanna hefur ferill von Sydows verið "mishæðóttur", svo ekki sé meira sagt. Hér er leikarinn, ungur og bjartur, í The Kremlil Letter ('70), í algjörri botnleðju eftir meistara John Huston.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framtíðartryllirinn Minority Report, nýjasta mynd Stevens Spielbergs, hefur hlotið frábæra dóma og aðsókn enda valinn maður í hverju rúmi. Einn þeirra er hinn langsjóaði stórleikari Max von Sydow. Með 73 ár að baki er hann sem fyrr meðal bestu og eftirsóttustu skapgerðarleikara, skrifar Sæbjörn Valdimarsson.

MARGIR telja Max von Sydow merkastan karlleikara Svía frá upphafi. Um það má deila en hitt er staðreynd að enginn kemst nálægt honum hvað snertir alþjóðlegar vinsældir í kvikmyndun, þar sem hann er enn afkastamikill fagmaður í fremsta flokki. Eftirsóttur víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur nýlokið við stórmyndina Minority Report. Frammistaða von Sydows í einni umtöluðustu, bestu og vinsælustu mynd ársins, á eftir að virkja ótrúlega starfskrafta þessa hæfileikamanns enn frekar. Það kæmi ekki á óvart þótt þessi gustmikli leikari ynni til Óskarsverðlaunanna fyrir túlkun sína í einu veigamesta hlutverki M.R. Von Sydow stendur því enn einu sinni á tímamótum á merkilegum en mishæðóttum ferli þar sem hann hefur túlkað flest frá Dauðanum til Djöfulsins!

Hinn hávaxni og mikilúðlegi Max von Sydow fæddist 1929 inn í millistéttarfjölskyldu í háskólabænum Lundi, þar sem faðir hans starfaði sem þjóðfræðingur. Þegar á unglingsárunum fór að bera á leiklistaráhuga hjá pilti, sem varð til þess að hann stofnaði leiklistarklúbb ásamt nokkrum vinum sínum. Í þeim hópi var m.a. jafnaldra hans, Yvonne Lomard, sem átti eftir að verð ein af vinsælustu leiksviðs-, kvikmynda- og sjónvarpsleikkonum Svíþjóðar.

Leiklistarbakterían rak von Sydow til Stokkhólms þar sem hann innritaðist í Dramaten og stundaði nám frá 1946-'51. Við skólann nam einnig Kerstin Olin, sem von Sydow giftist 1951, og eignaðist með synina Claes og Hinrik. Þau skildu 1996. Ári síðar giftist hann Catherine Brelet og er ekki betur vitað en hjónabandið standi enn.

Alf Sjöberg varð fyrstur leikstjóra til að uppgötva leikarann Max von Sydow og réð hann í þokkalegt hlutverk í sænsku myndunum Bara en mor ('49) og Fröken Julie ('51). Næstu árin var það leiksviðið sem átti hug hans og hjarta; hann var fastráðinn við leikhús í Hälsingborg frá 1952-55, starfaði síðan við borgarleikhúsið í Malmö fram til 1960 og fór þá m.a. með aðalhlutverkin í Pétri Gaut, Hinrik IV:, og Cat on a Hot Tin Roof. Á þessum tímapunkti var von Sydow búinn að fá mikla reynslu á fjölunum og hafði skapað sér nafn sem virtur leikhúsmaður. Hjá því varð ekki lengur komist að saman lægju leiðir þeirra Ingmars Bergmans, frægasta kvikmyndaleikstjóra Svíþjóðar fyrr og síðar. Í fáum orðum sagt varð afraksturinn mikill og glæsilegur. Von Sydow lék alls í 11 myndum (og tveimur sjónvarpsmyndum) hins virta leikstjóra sem hélt áfram að fínpússa hinn hæfileikaríka sviðsleikara og hefur örugglega verið sá maður sem fært hefur leikaranum heilladrýgst veganesti á lífsleiðinni. Bergmanmyndirnar, sem hann prýddi jafnan með áhrifamiklum leik, komu von Sydow á alþjóðalandakort kvikmyndanna. Þeir bættu hvor annan upp og nú hófst merkilegur 14 ára langur kafli Bergmanmynda í lífi leikarans.

Fyrsta hlutverkið, í hinni hátt skrifuðu Det sjuende inseglet ('57), var ekki stórt, en leikarinn gerði Antonius Block að minnisstæðri Bergmanpersónu. Eitt áhrifaríkasta atriðið er taflmennska Blocks við manninn með ljáinn. Von Sydow kom lítillega við sögu Smultronstället - Villt jarðarber ('57), margir álíta þessar tvær myndir þær bestu á mikilfenglegum ferli Bergmans.

Nú hafði leikstjórinn ótvírætt álit á hinum ábúðarmikla landa sínum og skellti honum í aðalhlutverk Ansiktet ('58). Þar með var von Sydow kominn í "landsliðið" og var í mögnuðum leikhóp Nära Livet ('58).

Hvert stórvirki tvímenninganna rak annað. Von Sydow fór með aðalhlutverkið í Jungfrukällan - Meyjarlindin ('60); ásamt Harriet Anderson og Gunnar Björnstad í Såsom i en spegel ('61); með landsliðinu í Nattvardsgästerna ('63).

Eftir nokkurra ára hlé tóku þeir Bergman aftur upp þráðinn í Vargtimmen og Skammen (báðar '68) og fór von Sydow með aðalhlutverkið í báðum þessarar umtöluðu mynda. Var leikarinn einkar eftirminnilegur í þeirri fyrrnefndu, sem er eina mynd Bergmans sem flokkast getur sem hrollvekja.

Leiðir þessara virtustu kvikmyndagerðarmanna Svía lágu tvisvar saman eftir þetta. Von Sydow fór með gestahlutverk í En Passion ('69), og lék á móti Elliot Gould og Bibi Andersson í mistökunum Beröringen, fyrstu enskumælandi og einni verstu mynd Bergmans. Þannig lauk kvikmyndasögulegu samstarfi og merkasta kaflanum á ferli von Sydows á óviðunandi nótum.

LEITAÐ Á ERLEND MIÐ

Árið 1965 var hin hávaxna Bergmanstjarna tekin að skína það skært á kvikmyndahimninum að Hollywood bauð leikaranum eitt aðalhlutverkanna í vestranum The Reward ('65), undir stjórn annars Evrópumanns, Frakkans Serge Bourgignon. Von Sydow stóð sig með prýði líkt og flestir aðrir en frumraunin gekk ekki sem best. Síðar á árinu var frumsýnd stórmyndin The Greatest Story Ever Told, rándýr Biblíumynd og lék von Sydow Jesús, Charlton Heston Jóhannes skírara, Telly Savalas Pontíus Pílatus, John Wayne rómverskan hundraðshöfðingja. Þótti verkið með þeim verri í biblíumyndageiranum og er þá mikið sagt.

Eftir ýmsar hrakfarir hélt von Sydow aftur heim og sleikti sárin undir stjórn Bergmans en sneri síðan glaðbeittur í svaðið að nýju. Að þessu sinni The Kremlin Letter ('70), gjörsamlega mislukkaðri mynd meistara Johns Huston. Enn á ný kom von Sydow hrakinn til heimahafnar og nú var það Jan Troell, annar magnaður leikstjóri, sem bjargaði ferli von Sydows með því að færa honum aðalhlutverkið á móti Liv Ullman í meistaraverkinu Vesturfararnir - Utvandrarna ('71). Myndin og sjónvarpsþættirnir fóru sigurför um heiminn og urðu öðrum fremur til þess að von Sydow fékk aðalhlutverk í The Exorcist ('73), einum hrikalegasta og vinsælasta hrolli kvikmyndasögunnar. Næsti áratugur var ekki umtalsverður á afrekalista von Sydow. Hann hafði í nógu að snúast, á sviði, í sjónvarpi og á tjaldinu, vestan hafs og austan en husmélið hefur algjörlega yfirhöndina.

Það er síðan enginn annar en Woody Allen sem kemur honum aftur á uppsveiflu í Hanna and Her Sisters ('86).

Besti leikur von Sydows er vafalaust í hlutverki Lassefar í Pelle erobreren - Pelle sigurvegari, mynd Bille August frá '87. Hann kemst vel frá Awakenings ('90) og er ábúðarmikill sem myrkrahöfðinginn í hinni vanmetnu og skemmtilegu Needful Things ('93); vinnur leiksigra í titilhlutverki Hamsun eftir Troell og Jerusalem Augusts (báðar '96).

Síðasta hálfa áratuginn hefur von Sydow ekki þurft að kvarta undan atvinnuleysi og ef fer sem horfir ætti hans að bíða enn betri tíð með Óskurum og öðrum blómagróðri kvikmyndanna.