Íslenskur kvikmyndaheimur enn einu sinni með pest: Hvaða meðferð er lausnin?
Íslenskur kvikmyndaheimur enn einu sinni með pest: Hvaða meðferð er lausnin?
"Heyrðu," sagði vinurinn, "mér líst ekkert á þennan hósta þinn." Og sjúklingurinn svaraði: "Þú verður að fyrirgefa, en ég á því miður engan annan." Ef við setjum almenna velunnara íslenskrar kvikmyndagerðar í stað vinarins og skipum íslenskri kvikmyndagerð sjálfri í hlutverk sjúklingsins fáum við einhverja mynd af því ástandi sem enn einu sinni ríkir kringum Kvikmyndasjóð Íslands.

NÝJASTA hóstakastið er reyndar það svæsnasta frá upphafi sjóðsstarfseminnar og þar með þeirrar íslensku kvikmyndagerðar sem við þekkjum nú. Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með þeim skotgrafarhernaði sem geisað hefur opinberlega í kringum tímabundna brottvikningu framkvæmdastjóra og ekki síður endurúthlutun styrkja. Að heyra og sjá í sjónvarpi stjórnarmann í sjóðnum væna úthlutunarnefnd, sem hann hefur sjálfur staðið að því að skipa, um heimsku og þekkingarleysi var að sönnu ískyggilegt. Enn óhugnanlegra var að heyra og sjá sjálfan stjórnarformanninn dylgja um að hinn brottvikni framkvæmdastjóri, sem einnig á nú sæti í úthlutunarnefnd, og einn umsækjenda hefðu gert út um niðurstöðu nefndarinnar á meðan þeir voru saman á laxveiðum. Getur umræðan um málefni Kvikmyndasjóðs og þar með íslenska kvikmyndagerð komist á lægra plan? Er þess nokkur kostur að koma í veg fyrir atburði sem þessa, sem stórskaða ímynd og stöðu hennar, bæði inn á við og út á við?

Fólk, sem segir: Ég var búinn að vara ykkur við, I told you so, er álíka leiðinlegt og fólk sem vitnar í sjálft sig yfirleitt. Ég ætla samt að gera hvort tveggja. Á þessum stað skrifaði ég tvívegis í febrúar sl. um málefni Kvikmyndasjóðs: Annars vegar um inngöngu framkvæmdastjóra sjóðsins í úthlutunarnefnd og fyrirhugaðar breytingar á úthlutunarfyrirkomulagi þegar ný kvikmyndalög taka gildi um áramót og Kvikmyndamiðstöð Íslands tekur við af Kvikmyndasjóði; hins vegar um almenna stefnumörkun við úthlutanir. Ég varaði eindregið við því að framkvæmdastjóri gengi sem persóna inn í úthlutunarnefnd og glataði óhlutdrægu ráðgjafahlutverki sínu. Gildi þeirrar viðvörunar blasir við núna. Ég varaði einnig við því að enn viðkvæmara og líklegra til að valda stöðugri úlfúð væri að gera væntanlegan forstöðumann miðstöðvarinnar svokölluðu að einvaldi um úthlutanir, eins og heimilt er samkvæmt nýju lögunum. Þarf nú að efast um réttmæti þeirrar viðvörunar? Ég benti einnig á ákveðin vandamál samfara síðustu úthlutunum sjóðsins, sem nema um 15-30% af áætluðum framleiðslukostnaði mynda og krefjast því 70-85% framlags annars staðar frá og þá einkum frá erlendum sjóðum og meðframleiðendum.

Meira og minna öll vandamál íslenskrar kvikmyndagerðar stafa af smæð þjóðfélagsins og markaðarins. Tvær helstu orsakir þeirra sífelldu deilna, sem verið hafa um úthlutanir Kvikmyndasjóðs, eru annars vegar of margir umsækjendur um of lítið fé og hins vegar meint persónuleg tengsl þeirra persóna sem veita féð og þeirra sem fá það, tengsl, sem í návíginu hérlendis felast í meintri persónulegri vináttu eða óvináttu, pólitískri samstöðu eða andstöðu, hagsmunum, geðþótta. Eins og Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður segir í leiðara Lands og sona, blaðs Félags kvikmyndagerðarmanna, "svífur andrúmsloft vænissýki æði oft yfir vötnum hins smáa og sérlundaða íslenska kvikmyndaheims". Í raun má því miður segja að eitt helsta einkenni hans sé vænissýki, öfund og sífelldar samsæriskenningar, sem eru áreiðanlega fleiri en eiginleg samsæri. Þetta er óheilbrigt andrúmsloft og þegar það tekur með reglubundnum hætti á sig opinbert form í fjölmiðlum er það til mikils skaða.

Allir velunnarar íslenskrar kvikmyndagerðar og kvikmyndagerðarmennirnir sjálfir hafa áhyggjur af því sem nú hefur gerst og framundan er með gildistöku nýju laganna. Og velta fyrir sér leiðum til úrbóta.

Í Danmörku hefur um skeið verið stuðst við úthlutunarreglur, sem eru svo skýrar, gegnsæjar og einfaldar að við liggur að mannshöndin komi hvergi nærri, þ.e. smekkur, kunningjatengsl, meint andúð eða samúð, sem sagt persónulegt mat og ákvörðunarvald þess sem annast úthlutun. Þær grundvallast á því að hinn opinberi sjóður geti veitt umsókn allt að 60% af viðurkenndri kostnaðaráætlun viðkomandi myndar upp að 5 milljóna d.kr. þaki ef tryggt er að umsækjandi sé kominn með þau 40% sem á vantar annars staðar frá. Viðbúið er að 60% séu íslenska sjóðnum ofviða við núverandi aðstæður. En mér er kunnugt um að nú sé að myndast samstaða meðal íslenskra kvikmyndagerðarmanna um aðlögun þessarar reglu, sem felur í sér að hlutföllunum er snúið við, þ.e. að 40% komi frá sjóði en 60% annars staðar frá.

Áður en nýju kvikmyndalögin taka gildi um áramótin setur menntamálaráðuneytið reglugerð um útfærslu þeirra, m.a. úthlutunarfyrirkomlagið. Er ekki þess virði að reyna ofangreinda hugmynd í framkvæmd hérlendis? Hún gæti skapað þá sátt um sjóðinn sem orðin er lífsnauðsynleg fyrir kvikmyndagerð okkar, eytt viðvarandi tortryggni og vargöld. Hún gæti að vísu gert kvikmyndagerðarfólki, sem ekki hefur enn komið sér upp öðrum fjármögnunarleiðum, ekki síst ungu fólki, erfitt fyrir. En það mætti leysa með sértækum aðgerðum, tvöföldu kerfi, eins og bent var á í forystugrein Morgunblaðsins fyrir skömmu.

Þrálát hóstaköst íslenskrar kvikmyndagerðar þegar henni svelgist á sjálfri sér auka ekki áhuga, samúð eða stuðning þjóðarinnar. Prófum nýja hóstasaft. Ella kann að fara fyrir kvikmyndagerðinni eins og Woody Allen þegar hann sagði: "Ég óttast ekki dauðann. Ég vil bara ekki vera viðstaddur þegar hann kemur."