Magnús Sigmundsson, framkvæmdastjóri Hestasports-Ævintýraferða, hvílir sig á lygnunni í Austari-Jökulsá.
Magnús Sigmundsson, framkvæmdastjóri Hestasports-Ævintýraferða, hvílir sig á lygnunni í Austari-Jökulsá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný sveitarstjórn Skagafjarðar hefur nú lagst gegn virkjanaáformum við Villinganes sem gefur skagfirskri ferðaþjónustu byr í seglin. Jóhanna Ingvarsdóttir fór í sex klukkutíma fljótasiglingu með Ævintýraferðum á Austari-Jökulsá í fylgd reyndra leiðsögumanna frá Nepal. Óhætt er að segja að slík sigling kalli fram mikið "adrenalín-kikk" þegar þess er freistað að sigla bátunum í gegnum erfiðar flúðir og mikinn straumhraða.

ÞAÐ er ekki laust við að menn gangi skjögrandi upp úr slöngubátunum að aflokinni spennandi flúðasiglingu niður Austari-Jökulsá í Skagafirði, en á alþjóðlega styrkleikaskalanum frá eitt til sex, flokkast áin sem fjórir plús. Í sambland við ægifagra náttúru upplifa menn bæði hraða og spennu. Þá ríður á að "bátsverjarnir" sex, sem eru í hverjum báti, stilli saman strengina og hlusti vel eftir skipunum leiðsögumannsins. Hann situr aftast og gegnir því hlutverki að stýra róðri hópsins með ákveðnum "stikk"-orðum svo ekki fari illa. Oftar en ekki kastast menn, þrátt fyrir góðan vilja, úr bátunum, sogast niður í flúðir og skjótast svo upp aftur nokkru neðar og taka þá gjarnan hægan sundsprett á lygnari sjó þar til öryggiskajak eða áhöfnin á næsta flúðabáti bjarga manninum um borð.

Í upphafi ferðar er ekið sem leið liggur með farþega, þurrgalla, báta og búnað frá Varmahlíð fram undir Ábæ. Siglingin hefst síðan skammt fyrir norðan Skatastaði í Austurdal eftir smákennslustund á þurru landi. Siglingaleiðin er 18 kílómetra löng, allt niður fyrir Villinganes, en á leiðinni þarf að yfirstíga nokkrar hindranir, sem í fljótu bragði virðast færar aðeins fuglinum fljúgandi. Nefna má flúðir eins og Skuldbindingu, Hrafnhildi og síðast en ekki síst "Græna herbergið" svonefnda sem samanstendur af þremur fossum og er skammt fyrir ofan Merkigilsgljúfrið.

"Þið skuluð ekkert örvænta. Það borgar sig alls ekki. Ef þið lendið í því að bátunum hvolfir, sogist þið í versta falli eitthvað niður, en það góða í stöðunni er að ykkur skýtur upp aftur og við fiskum ykkur svo upp í bátana þegar við höfum komið þeim á réttan kjöl. Sem sagt, ekkert mál," sögðu nepölsku leiðsögumennirnir hughreystandi við hópinn, sem hafði skipt sér niður í þrjá báta. "Allir tilbúnir með árarnar," var kallað og af stað var haldið með tilheyrandi hrópum og köllum. Tveimur bátum hvolfdi mjög fljótlega og fjöldi manns upplifði "Græna herbergið". Farþegarnir skutust upp einn af öðrum á ný, "hálfgrænir" í framan af skelfingu. Það var hins vegar hún Sigríður Björnsdóttir, húsfreyja á Bústöðum, sem beið hópsins nokkru neðar og hressti mannskapinn á heitu kakói, vöfflum og rjóma þarna mitt í gljúfrunum.

Tilkomumikil gljúfur

Gljúfrin miklu í Austur- og Vesturdal í Skagafirði eru ein þau tilkomumestu og hrikalegustu á landinu, allt á annað hundrað metra djúp þar sem þau eru dýpst. Þrátt fyrir að þau hafi aðeins verið grafin af ánum síðastliðin tíu þúsund ár, flytja árnar gífurlegt magn jarðefna með sér og í sumarleysingum og flóðum nær flutningsgetan hámarki. Austari áin er afkastameiri hvað þetta varðar. Það má sjá mjög greinilega þar sem árnar mætast, en þar rennur austari áin töluvert hærra en sú vestari á framburðinum sem hún hefur rutt með sér niður Austurdalinn.

Jökulárnar eiga báðar upptök sín í norðanverðum Hofsjökli. Sú vestari er um 50 km að lengd en sú austari er töluvert lengri eða um 75 km. Rennslið í ánum er mjög háð lofthita og úrkomu. Er það langmest á sumrin, en lauslega áætlað er rennslið fjórfalt meira þá en á veturna. Einnig er mikill munur á rennsli hvorrar ár fyrir sig og er sú austari mun vatnsmeiri. Meðalrennsli hennar er yfir sumartímann um það bil 80 rúmmetrar á sekúndu, en rennslið í vestari ánni er ekki nema 50 rúmmetrar á sekúndu. Mesta flóð, sem mælst hefur í Austari-Jökulsá var 320 rúmmetrar á sekúndu eða fjórfalt meðal sumarrennsli. Vestari áin slær þeirri austari við hvað þetta varðar því mesta flóð í henni var ellefufalt meðal sumarrennsli eða 550 rúmmetrar á sekúndu.

Alsælir viðskiptavinir

Það er fyrirtækið Hestasport-Ævintýraferðir ehf. sem stendur fyrir ferðum þessum, en hæstráðandi þar á bæ er Skagfirðingurinn Magnús Sigmundsson, sem ættaður er frá bænum Vindheimum. Hann segir að sögu fyrirtækisins megi í raun rekja allt aftur til ársins 1974 þegar Sveinn heitinn Jóhannsson á Varmalæk í Lýtingsstaðahreppi og félagi hans Ragnar Stefánsson frá Akureyri fóru með hóp erlendra gesta ríðandi yfir Kjöl eftir hestamannamót á Vindheimamelum.

"Þeir félagar stunduðu þessar ferðir meira og minna allt til ársins 1985, en þá ákvað ég í samvinnu við Björn son Sveins að taka við starfseminni eftir að Sveinn veiktist. Stofnuðum við Björn þá sameignarfélagið Hestasport, sem síðan hefur vaxið og ný starfsemi bæst við. Ég er vélstjóri að mennt og var til sjós í allmörg ár eftir að námi lauk, en hef alltaf haft gaman af útiveru og ævintýrum. Til að byrja með var ég í kringum hestaferðirnar mér til skemmtunar, það svalaði vel ævintýraþránni. En smám saman kom meiri alvara í þetta og allt í einu - hálf óvart - var ferðaþjónusta orðin mitt aðal starf. Þessi atvinnugrein er bæði stórskemmtileg og gefandi. Ég lít á það sem forréttindi að fá að taka þátt í uppbyggingu hennar á Íslandi ásamt þeim harða kjarna einstaklinga og fyrirtækja sem eru að skila þessum ótrúlega árangri sem ferðaþjónustan er að ná, þrátt fyrir ótrúlega erfitt viðskiptaumhverfi."

Árið 1992 bryddaði Hestasport upp á nýjung í ferðaþjónustu með sérstökum kynningum á íslenska hestinum undir yfirskriftinni: Til fundar við íslenska hestinn. Nú tíu árum síðar sækja þúsundir erlendra gesta Skagfirðinga heim og fræðast um hestinn, ýmist í Reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók eða með heimsókn á hrossaræktarbýli Björns og Magneu á Varmalæk. "Við bættum þessu við ferðaflóruna vegna þess að okkur fannst að ferðamenn fengju hvergi fullkomlega rétta mynd af íslenska hestinum. Almennir ferðamenn hafa í gegnum tíðina sýnt íslenska hestinum mikinn áhuga og sótt fast að komast á bak. Oftar en ekki, öryggisins vegna, hafa þeir þá komið á bak mjög rólegum, hálf jarðföstum, hestum sem gefa engan veginn rétta mynd af getu og glæsileika íslenska hestsins. Á hestasýningunum, sem taka um klukkutíma, kynnum við hins vegar íslenska hestinn með stuttum fyrirlestrum og gangtegundasýningum glæstra hesta og knapa."

Góð svörun við fljótareið

Á svipuðum tíma og hestasýningarnar hófust fóru forsvarsmenn fyrirtækisins að huga að fljótasiglingum eða fljótareið, eins og sumir orða það. "Við fengum hingað norður landsins hæfustu menn til að sigla tilraunaferðir á Vestari og Austari-Jökulsá. Niðurstaðan varð "frábærir möguleikar" til fljótasiglinga í Skagafirði." Fyrirtækið Ævintýraferðir ehf. varð til í kringum fljótasiglingarnar árið 1994, en síðan hafa fyrirtækin tvö Hestasport og Ævintýraferðir verið sameinuð og er starfsemin nú rekin í Varmahlíð. Fyrirtækið er í eigu nokkurra áhugamanna um ferðaþjónustu, en Magnús er þó stærsti hluthafinn og helsta driffjöðurinn. Hann hafði í það minnsta í mörg horn að líta þegar blaðamaður stoppaði hjá honum einn sunnudagseftirmiðdag um miðjan júlí, enda háannatími. "Það má segja að ég sé í vinnunni alla daga og öll kvöld," segir Magnús spurður um annir, en auk þess að skipuleggja hestaferðir vítt og breitt um landið, hestasýningar og fljótasiglingar skipuleggur nú fyrirtækið í vaxandi mæli fjölbreyttar hópferðir og ýmiss konar starfsmannaferðir í Skagafjörð sem innifela þáttöku í "mörgu því skemmtilegasta" sem íslenskar ævintýraferðir bjóða upp á. Auk fljótasiglinga og hestaferða má nefna klettasig og leirdúfuskotfimi, sjóstangaveiði, vélsleða- og skíðaferðir, gönguferðir og fleira.

"Fljótasiglingarnar hafa átt geysilegum vinsældum að fagna og hefur gestafjöldinn vaxið frá 75 árið 1994 í 3.300 árið 2001. Það verður hins vegar að segjast eins og er að við áttum í töluverðum erfiðleikum til að byrja með og lentum í smááfalli fyrsta sumarið. Lítil þekking á flúðasiglingum var til staðar í landinu og því brugðum við á það ráð að ráða til okkar erlenda leiðsögumenn, sem verið hafa hjá okkur allt frá 1995. Við höfum mest verið með leiðsögumenn frá Nepal, en í vor breyttum við um og erum nú með alþjóðlegan hóp leiðsögumanna frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Austurríki, Finnlandi og Nepal. Heimamenn hér í Skagafirði hafa auk þess verið að læra á þetta og eru sumir hverjir orðnir góðir eftir að hafa siglt undir leiðsögn atvinnumanna. Með tilstyrk þessara manna höfum við mikinn áhuga á því að setja upp krefjandi námskeið fyrir verðandi flúðaleiðsögumenn næsta vor og þá helst í samvinnu við íslensk menntamála- og ferðamálayfirvöld."

Nauðsynleg sérstaða

Magnús segir að öll ferðaþjónusta þurfi að marka sér sérstöðu. "Skagafjörður getur ekki státað af stöðum á borð við Mývatn, Geysi eða Þingvelli. Við eigum á hinn bóginn magnaða sögu og þessar systurár, Austari- og Vestari-Jökulsár, sem svo mætast og verða að Héraðsvötnum. Þegar við uppgötvuðum að árnar hefðu sitthvort styrkleikastigið, áttuðum við okkur á því að þarna gæti verið ákveðin sérstaða í skagfirskri ferðaþjónustu. Vestari Jökulsárin er mun auðveldari yfirferðar en sú austari og flokkast að styrkleika sem tveir til þrír á meðan sú austari er upp í fjórir plús. Sérstakra vinsælda njóta svo þriggja daga og tveggja nátta flúðaferðir undir yfirskriftinni "Í stríðum straumi". Sigldir eru tæpir 50 km þar sem austari áin fellur um hálendið norður af Laugarfelli á Sprengisandi niður í Austurdal í Skagafirði. Hvarvetna á leiðinni blasir við stórbrotin náttúra og nafnkunnir staðir. Í Austurdal bjó Bólu-Hjálmar um árabil á Nýjabæ og í Hildarseli og á Ábæ stendur enn kirkja þótt bæjarhúsin séu fallin. Nokkru norðar er bærinn Merkigil og samnefnt klettagil sem gengur þvert á gljúfur Austari-Jökulsár."

Heimamenn stoppa virkjanaáform

Magnús segist auðvitað fagna þeirri ákvörðun nýrrar sveitarstjórnar í Skagafirði að leggjast gegn virkjunaráformum við Villinganes, en ef af þeim hefði orðið, hefðu forsendur fljótasiglinga í Austari- og Vestari-Jökulá brostið. "Ég veit ekki annað en að það sé yfirlýst og undirskrifuð stefna nýs meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins hér í Skagafirði að ekki verði heimilaðar virkjunarframkvæmdir við Villinganes, eins og til hefur staðið fram til þessa, en mér vitandi hefur tækni- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins síðasta orðið í þessum efnum. Ég fagna þessarri ákvörðun ekki aðeins út frá hagsmunum ferðaþjónustunnar, heldur vil ég benda öllum landsmönnum á hvernig fara átti með okkur Skagfirðinga. Það átti ekki einungis að eyðileggja fyrir okkur mjög sterkt aðdráttarafl í ferðaþjónustunni heldur átti líka að "stela" frá okkur orkulind án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins segja landsbyggðarmenn "hingað og ekki lengra" enda erum við að nýta árnar í aðra tekju- og atvinnuskapandi starfsemi."
www.rafting.is

join@mbl.is