Hallgrímur Hjaltason sést hér landa fiski við höfnina á Skagaströnd en mokfiskirí hefur verið þar að undanförnu.
Hallgrímur Hjaltason sést hér landa fiski við höfnina á Skagaströnd en mokfiskirí hefur verið þar að undanförnu.
MJÖG gott fiskirí hefur verið hjá trillunum, sem gerðar eru út frá Skagaströnd, í sumar. Nú landa um 35 trillur hjá fiskmarkaðnum og eru allir að fiska vel.

MJÖG gott fiskirí hefur verið hjá trillunum, sem gerðar eru út frá Skagaströnd, í sumar. Nú landa um 35 trillur hjá fiskmarkaðnum og eru allir að fiska vel.

Undanfarið hefur fiskmarkaðurinn tekið á móti 55-60 tonnum á dag af trillunum þó að aldrei séu þær allar á sjó í einu. Sérstaklega hefur fiskiríið verið gott á Hornbankanum en þaðan hafa trillurnar verið að koma með 4,5-6,3 tonn úr hverjum róðri af jöfnum og fallegum fiski. 50-70 mílur eru frá Skagaströnd út á miðin á Hornbanka og eru trillurnar um þrjá tíma á miðin. Þar hafa þær fyllt sig á nokkrum klukkutímum og síðan tekur við 8-9 tíma stím heim.

Mörgum blöskrar að sjá hleðsluna á þessum litlu bátum þegar þeir eru að koma í land svona langa leið því þá eru þeir svo signir á sjónum að ekki er óhætt að drepa á vélinni. Sé það gert getur sjór farið inn á vélina. Trillukarlarnir segja að það sé í lagi að róa á Hornbanka meðan best er og blíðast enda rói menn ekki þangað nema í góðri spá.

Ekki róa þó allir út á Banka enda er gott fiskirí í Húnaflóa og nánast sama hvert bátarnir fara, alls staðar er fiskur. Fiskurinn er misstór eftir því hvert er róið þannig að nú hefur Fiskistofa lokað ákveðnu svæði við Skallarif á Skaga þar sem of hátt hlutfall af smáfiski var í aflanum.

Á flestum bátanna eru tveir í áhöfn, sérstaklega á dagabátunum. Kvótakarlarnir taka lífinu með meiri ró og reyna frekar að halda sig þar sem hægt er fá stóran fisk þó að minna sé af honum. Karlarnir sem fréttaritari spjallaði við voru ánægðir með fiskiríið og aðbúnað og þjónustu sem þeir fá á Skagaströnd.

Skagaströnd. Morgunblaðið.