GÓÐIR vinir og lesendur þessara pistla hafa á stundum mér til mikillar ánægju lagt hér orð í belg. Er ég þakklátur fyrir það.

GÓÐIR vinir og lesendur þessara pistla hafa á stundum mér til mikillar ánægju lagt hér orð í belg. Er ég þakklátur fyrir það. Mættu þeir þó alveg að ósekju vera fleiri, því að langt er frá því, að ég heyri eða komi auga á allt það, sem vert væri að minnast á í stuttu máli. Ekki alls fyrir löngu var ég í hópi nokkurra áhugamanna, sem finnst veruleg ástæða til að minnast á ýmis ensk orð, sem flæða inn í mál okkar. Þetta er vitaskuld rétt og þörf ábending, enda held ég eitthvað hafi verið vikið að enskum slettum í þessum pistlum. En góð vísa er aldrei of oft kveðin, eins og á stundum er sagt. Eitt enskt orð hefur sótt mjög á, þ. e. bæ. Trúlega þó einkum í mál yngra fólks. Þegar menn kveðja, segja margir bæ eða jafnvel bæ, bæ.

Ég held, að í mínu ungdæmi vel fyrir miðja síðustu öld hafi enginn sagt svo, heldur oftast bless eða blessaður og jafnvel þegar menn heilsuðust. Ég tel mig aftur á móti hafa heyrt menn fullyrða, að þessi síðarnefndu orð hafi borizt hingað með Englendingum í seinna stríði. Hér sé því einnig um slettu að ræða. Þetta er hinn mesti misskilningur. Þau eru löngu áður komin í mál okkar. Þau eru áreiðanlega dregin af so. að blessa, sem hér hefur þekkzt í máli okkar um margar aldir. Samkv. OM. (1983) merkir það að signa, lýsa blessun yfir: Guð blessi matinn, sagði gamla fólkið.

Og presturinn blessar yfir fólkið. Þá minnist OM á, að orðið sé notað í "(heilsunar- og) kveðjuorðum; (komið þið, verið þið) sæl og blessuð".

Síðan er bætt við: "oft stytt í bless." Blessaður. Þetta eru falleg árnaðarorð, sem fara vel í máli okkar, og menn ættu að nota. En alls ekki bæ, að ekki sé talað um "ókei, bæ, bæ". - J. A. J.