BISKUPSSTOFA og samkirkjunefnd boða til opins fundar þar sem kynnt verður norsk skýrsla um samband ríkis og kirkju þar í landi. Fundurinn verður í dag, þriðjudag, kl. 16-18 í safnaðarheimili Grensáskirkju. Dr.

BISKUPSSTOFA og samkirkjunefnd boða til opins fundar þar sem kynnt verður norsk skýrsla um samband ríkis og kirkju þar í landi. Fundurinn verður í dag, þriðjudag, kl. 16-18 í safnaðarheimili Grensáskirkju.

Dr. Trond Bakkevik prófastur í Osló verður gestur og aðalfyrirlesari fundarins. Hann var formaður nefndar norsku kirkjunnar, sem fjallaði um samband ríkis og kirkju í Noregi og skilaði síðan tillögum og skýrslu á síðasta ári. Niðurstaða þessarar nefndar var sú að vegna jafnræðissjónarmiða þyrfti að breyta norskri löggjöf um ríki og kirkju í ýmsum veigamiklum atriðum, m.a. stjórnarskrárákvæðum um stöðu norsku þjóðkirkjunnar.

Í framhaldi af útgáfu skýrslu nefndarinnar hafa miklar umræður orðið um samband ríkis og kirkju í Noregi. Til að mynda brugðust sóknarnefndir neikvætt við niðurstöðum skýrslunnar. Vegna umræðunnar hafa stjórnvöld ákveðið að halda starfinu áfram með stofnun stjórnarnefndar. Tillögur og umræður í Noregi geta orðið til gagns vegna umræðunnar hér í landi. Því er boðað til fundarins og vonast til að hann verði til upplýsingar.

Bakkevik hefur unnið bæði fyrir ríki og kirkju. Um tíma var hann aðstoðarmaður utanríkisráðherra Noregs. Þá var hann framkvæmdastjóri samkirkjuráðs norsku kirkjunnar og er nú prófastur í Osló eins og áður segir. Þá er Bakkevik talinn koma til greina sem næsti framkvæmdastjóri Alkirkjuráðsins. Fundurinn er öllum opinn.