Leon og Inger Dahl.
Leon og Inger Dahl.
LEON Dahl, sem var á leið frá Spáni með leiguvél Flugleiða með konu sinni, fjölskyldu, ættingjum og vinum, alls 28 manns, sagðist í samtali við Morgunblaðið vera ósáttur við hvernig áhöfn flugvélarinnar brást við aðstæðum.

LEON Dahl, sem var á leið frá Spáni með leiguvél Flugleiða með konu sinni, fjölskyldu, ættingjum og vinum, alls 28 manns, sagðist í samtali við Morgunblaðið vera ósáttur við hvernig áhöfn flugvélarinnar brást við aðstæðum. Að hans mati skorti töluvert á að nógu faglega hafi verið tekið á málum.

Dahl segir þær mínútur hafa verið skelfilegar þegar vélinni var flogið einhvers staðar yfir Miðjarðarhafinu með eldtungurnar út úr hreyflinum. Farþegarnir hafi setið í myrkrinu án þess að hafa verið greint nokkuð frá því hvað væri að gerast. Það hafi ekki verið fyrr en að um tíu mínútum liðnum að flugstjórinn hafi sagt að þetta myndi fara vel og beðið fólk að halda ró sinni.

Viðbrögð áhafnarinnar ekki nógu fagleg

"Ég vil nú ekki vera að gagnrýna flugfélagið að óþörfu en myndi vilja orða þetta þannig að áhöfn Flugleiðavélarinnar hafi alls ekki brugðist rétt við eða komið faglega fram við þær aðstæður sem þarna sköpuðust. Þetta var ekki skemmtileg upplifun, við sáum út um gluggana að það logaði í hreyflinum. Við sátum bara í myrkrinu í vélinni sem sveimaði einhvers staðar yfir Miðjarðarhafinu. Þetta var ákaflega óþægileg ef ekki hreinlega skelfileg upplifun. Þetta var dauðans alvara meðan á þessu stóð. Fólk reyndi samt að halda ró sinni og sem betur fer var enginn sem missti alveg stjórn á sér. En menn voru órólegir, það heyrðist víða grátur í vélinni á milli þess sem grafarþögn ríkti eins og við jarðarför. Það er frekar óskemmtilegt að leiða hugann að því að ef illa hefði farið hefði öll fjölskylda mín farist á einu bretti," sagði Dahl en hann var eins og áður segir í flugvélinni í hópi 28 ættingja og vina.

Sátu kyrrar og sögðu ekki neitt

Dahl segir að sér finnist að flugfreyjurnar hafi ekki átt að sitja kyrrar í sætum sínum allan tímann. "Þær hefðu átt að fara um á meðal farþeganna og róa þá. Þarna var t.d. tólf ára drengur einn á ferð sem grét stöðugt. Flugfreyjurnar sátu bara í sætum sínum með beltin spennt eins og við hin, þær hvorki gerðu né sögðu nokkurn skapaðan hlut til þess að róa farþegana meðan á þessu stóð. Þær hafa hlotið þjálfun til þess að bregðast við svona aðstæðum og hefðu átt að nýta hana til þess að róa okkur hin en gerðu ekki neitt."

Dahl segir að langflestir farþeganna í vélinni hafi verið Danir en auk þeirra hafi þarna verið einhverjir Svíar. "En það litla sem við heyrðum flugstjórann og síðan flugfreyjurnar segja í gegnum frekar lélegt hátalarakerfið var á ensku. Það hefði örugglega virkað vel á farþegana að fá upplýsingarnar á dönsku eða að minnsta kosti á skandinavísku. Fyrst Flugleiðir leigja vélar sínar til Krone Rejser, sem er dönsk ferðaskrifstofa, finnst mér að það eigi þá að minnsta kosti að vera einn í áhöfninni sem getur talað dönsku."