SAMKVÆMT skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna og afstöðu til ríkisstjórnarinnar sem birt var í gær mælist fylgi Samfylkingarinnar nú 39,3% á landsvísu og fengi flokkurinn 25 menn kjörna en flokkurinn fékk 17 þingmenn í síðustu...

SAMKVÆMT skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna og afstöðu til ríkisstjórnarinnar sem birt var í gær mælist fylgi Samfylkingarinnar nú 39,3% á landsvísu og fengi flokkurinn 25 menn kjörna en flokkurinn fékk 17 þingmenn í síðustu kosningum. Könnunin var gerð á laugardag og miðast fylgi flokkanna við þá sem tóku afstöðu.

Samkvæmt henni fengi Framsóknarflokkurinn 10% atkvæða og sex menn kjörna en flokkurinn fékk 18,4% í alþingiskosningunum árið 1999 og 12 menn kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 37,0% og 24 þingmenn en hann fékk 40,7% atkvæða í síðustu kosningum og 26 þingmenn. Frjálslyndir fengju 2,1 prósent atkvæða og einn mann kjörinn, þeir fengu 4,2% atkvæða í síðustu kosningum og tvo menn kjörna. Vinstri grænir bæta við sig fylgi samkvæmt könnuninni, þeir fengju 11,1% atkvæða og sjö menn kjörna en þeir fengu 9,1% fylgi í síðustu kosningum og sex menn kjörna.

Úrtakið í könnuninni var 600 manns á kosningaaldri og skiptust þeir jafnt á milli kynja og hlutfallslega á milli landsbyggðarkjördæma og þéttbýliskjördæma samkvæmt áætluðum kjósendafjölda í alþingiskosningum í vor. Fjórðungur aðspurðra var óákveðinn, 5,5% sögðust ekki ætla að kjósa og 4,7% neituðu að svara.

Þá var einnig spurt hvort fólk væri fylgjandi eða andvígt ríkisstjórninni.

41,7% aðspurðra sögðust fylgjandi henni og 40,7% andvíg. 13,8% voru óákveðin og 3,8% neituðu að svara.

Af þeim sem tóku afstöðu voru 50,6% fylgjandi ríkisstjórninni en andvíg 49,4%.

R-listi tapar meirihluta

Samkvæmt skoðanakönnun DV sem gerð var í fyrrakvöld um fylgi borgarstjórnarflokkanna og birt var í gær tapar R-listi meirihluta í borgarstjórn, fengi sjö menn kjörna og missti þar með einn mann ef kosið væri nú, en Sjálfstæðisflokkurinn fengi átta menn kjörna. Frjálslyndi flokkurinn fengi engan mann kjörinn.

Úrtakið í könnuninni var 600 manns og var skipt jafnt á milli kynja. Afstöðu tóku 82,6% og af þeim sögðust 48,2% myndu kjósa D-lista, 46,4% R-lista, 4,6% ætluðu að kjósa F-lista og 0,8 myndu kjósa aðra lista. Í borgarstjórnarkosningum sl. vor fékk D-listi 40,2% atkvæða, R-listi fékk 52,6% og F-listi 6,1%.

Fram kemur í frétt DV að í undanförnum könnunum hafi um þriðjungur aðspurðra ekki tekið afstöðu en í könnuninni nú hafi hlutfallið verið 17,4%.